29.8.12

Töffarar

Stelpurnar mínar eru töffarar. Þær vilja orðið miklu frekar hlusta á Alice Cooper, Foo Fighters og allskyns gæðarokk frekar en barnatónlist.

Áðan lumbraði sú eldri að vísu á mér með dúkkusæng því hún vildi ekki hlusta á Death Cab for cuite, hedur bara býflugulagið (no rain með blind melon). Þurfum að taka þetta eitt skref í einu :P

25.8.12

Kvef

Að sjálfsögðu náði ég mér í hor í nef eftir að hafa eytt/nýtt viku á leikskóla. Ennisholur stíflaðar eins og fucked-up crazy-ass weirdo beaver hafi gert stíflu í nefinu á mér. Alveg magnað hvað þetta getur verið mikið pirrandi, sérstaklega miðað við hvað þetta er í raun og veru lítið mál.

24.8.12

Datt!

Eða fallin. Dagur sjö af engu nema hnetum, fræjum, baunum, grænmeti og ávöxtum. Ég er svo þreytt og orkulaus eitthvað, þrátt fyrir að hafa gert mitt allra besta til að halda uppi hitaeiningum, að þetta getur ekki verið sniðugt. Rétt í þessu fékk ég mér ristað brauð með smjöri og osti, dætrum mínum til samlætis. Þetta var besta ristaða brauð í öllum heila heiminum.

23.8.12

Spy-d-uhh

Ég fatta ekki alveg köngulóafóbíu. Bíddu, leyfið mér að umorða þetta. Ég fatta ekki alveg köngulóafóbíu á Íslandi. Í Ástralíu myndi ég pottþétta skylja köngulóafóbíu. Ef köngulóin er orðin eitruð eða það stór að hún gæti unnið þig í slag með fimm fætur bundnar fyrir aftan bak, þá er óttablandin virðing æskileg og skiljanleg.

Þegar köngulær eru á stærð við smartís og ekki líklegri til að valda meiri óskunda en að spinna vef í andlitshæð... hví þá öskur og drama upp á bak?

21.8.12

Aðlögun

Junior Junior er í leikskólaaðlögun. Hún er að verða 15 mánaða og hefur fram að þessu bara verið heima með mér. Eða ég heima hjá henni. Næsta mánudag byrjar hún svo í leikskólanum eins og almennur leikskólaborgari. Kannski 6,5-7 klst vinnudagur hjá henni eða svo. Hinn harði heimur þar sem það þarf að vera tilbúinn til að berjast fyrir dóti og lemja með skóflu ef svo ber undir. Sem betur fer er stóra systir ekki langt undan og eflaust tilbúin til að lumbra á börnum með skóflu fyrir hennar hönd ef svo ber undir.

Það er örugglega gott að vita að það sé einhver til sem lítur svo á að enginn megi lemja þig með skóflu nema hún sjálf.

20.8.12

Baunir

Það er hreinsun í gangi. Ég held það sé betra að segja það heldur en detox. Detox hljómar eitthvað svo buzzwordlega að mér finnst eiginlega að það ætti að vera "Group" á eftir því. Eða Holding. Sjálfbært detox.

Þetta er líka ekki beint detox. Meira tími til að leyfa líffærum að jafna sig.

Tvær vikur af engu nema grænmeti, ávöxtum, fræjum, hnetum og baunum. Stundum fer meltingakerfið á mér í eitthvað rugl og þetta á víst að hjálpa til með að hreinsa ristil og lifur og ekkert nema hamingja og gleði í framhaldinu. Okay, það er amk kenningin og það er alveg þess virði að prufa fyrst þetta eru bara tvær vikur. Segi ég núna sko. Bara. Kem með update þegar ég er komin lengra í ferlinu. Dagur þrjú. Fram að þessu hefur þetta verið merkilega auðvelt, en ég get ekki sagt að maturinn sem ég sé að borða sé voðalega spennandi. Allar uppskriftir eru með frekar mikinn svona "þetta er alveg eins og alvöru matur.. for reals!" brag á sér. Er ekki alveg að botna í fólki sem getur staðið í þessu til lengri tíma, sérstaklega ef það sleppir mjólkurvörum, eggjum og kornmeti eins og ég er að gera núna.

Baunir hafa alltaf verið mér dálítið erfiðar. Mér finnst eitthvað ógeðsleg áferð á þeim og á erfitt með að koma þeim niður í því magni sem ég tel nauðsynlegt til þess að þetta prógram sé ekki beinlýnis óhollt, svona fyrst þetta er eini próteingjafinn í boði. Ég komst að því núna í hádeginu að baunaboozt er alls ekkert svo klikkað, þó það hljómi verulega viðbjóðslega. Ég jukkaði saman slatta af linsubaunum, smjörbaunum, banana, avocado, frosnum ávöxtum og smá hreinum ávaxtasafa og það var vel drekkanlegt. Skárra að drekka þetta helvíti en að borða. Heh.. Baunaboozt í tvær vikur. FML.

Svona fyrir utan það hefur gengið nokkuð vel. Ég reyni að spá dálítið í næringasamsetningu og hvernig ég geti haldið kaloríum uppi. Að minnsta kosti fór ég í crossfit í morgun og fannst ég ekkert vera orkulausari en venjulega. Spurning hvernig þetta þróast..

19.8.12

Wft skammtímaminni? Já og litir. Og viðarvörn.

Hér er því slegið fram að nú muni hefjast pósk-á-dag átak og svo gleymi ég því bara um leið. Fail.

Annað sem ég hef alveg klúðrað í sumar er að viðarverja pall, grindverk og garðhúsgögn. Ég hef það fyrir satt að margir séu að standa í þessu á vorin, en ég er fyrst að spá í þessu núna þegar það er næstum því komið haust. Það er svo mikið næstum því komið haust að yfirspennt laufblöð eru búin að skipta litum og.. (Þessi setning er ekki lengri eða betur samin þar sem að vatnið á linsubaununum sem ég var að sjóða var farið að bubblast upp úr pottinum og út um allar trissur. Sagan á bak við þessar linsubaunir gætu verið tilefni til annars pósks..)

Fyrir rúmlega 2 vikum drifum við helmingurinn loksins í því að þrífa pallinn og í kjölfarið bar ég á hann. Svo kom rigning. Það ringdi í tvær vikur og ég hélt það væri komið haust. Viðarvarnarfatan, sem var náttúrulega enn nánast full, horfði á mig ásakandi augum. Nú var bara komið haust og við tæki rigning og snjór í marga, marga mánuði.. og grindverkið algjörlega óvarið fyrir grimmum náttúruöflum Ártúnsholtsins.

Sem betur fer sá Veðurguðinn, hann Veðurguð aumur á mér og skellti smá auka sumri svona aftast. Ég komst loksins í að bera á grindverkið með ipod í eyrum og sól á himni. Svo var komið að húsgögnunum.

Það er ekki nema svona ár síðan að við Einar áttuðum okkur á því að við værum með smekk. Við vorum nefnilega á tímabili að versla húsgögn og annað miðað við annara manna og kvenna smekk. Allt í einu áttuðum við okkur á því að massívt eikarborðstofuborð og svartir leðurborðstofustólar með eikarfætur væru bara hreint ekki okkar poki elskan. Við seldum næstum öll stofuhúsgöngin, létum smíða hringborð í staðinn og keyptum okkur stóla í lit.


Litur! Það er sko málið. Auðvitað komst ég að því að það yrði að vera sæmilega smekklegur í litavali og fyrir svona ekki-arkítekta-plebba eins og okkur þýðir það að takmarka sig við nokkra liti. Við erum aðallega í grænum og fjólubláum út af afskaplega flóknum innanhússarítektúrapælingum. Because of reasons. Jebbjebb.


Ég smellti meira að segja í "lúðalistaverk" með grænum og fjólubláum og málaði hvíta blómapotta og ljósaskerma svo þær væru í réttum lit. Við erum með talsvert fleiri græna og fjólubláa hluti í stofunni.En það er náttúrulega bara stofan. Útihúsgögn eru í allt öðru domaini og því önnur lögmál sem gilda. Vúhú! NÝJIR litir! Í gærkvöldi og í morgun var ég loksins að vinna með einhvern annan lit en brún-glæran (er brúnglær til? Þetta var amk c.a. brúnglært). Það er náttúrulega illa glatað að vera loksins að klára þetta svona seint á sumrinu, en það verður amk gaman að horfa á fallega gult borð og bláa stóla út um gluggann, vitandi að allt saman sé tilbúið fyrir veður og vinda. Okay.. kannski ekki vinda. En veður!16.8.12

Annað átak

Rétt í þessu kíkti ég á póskið mitt og komst að því að ég skrifa aldrei neitt. Aldrei aldrei. Ég er að spá í að taka annað "pósk á dag í mánuð átak". Held það hljóti bara að gera konu gott að skrifa öðru hvoru.

Öðru hvoru.

Haha.