29.6.12

Öskjuhlíðarstuð


Mamma og pabbi fengu Ernu (1 árs í Séð og Heyrt stjörnu) lánaða í smá quality time, svo að Sara (2ja og hálfs) gæti fengið smá quality time ein með okkur Einari. Tvær flugur og allt það.

Við vorum búin að þvælast eitthvað og enduðum svo á gönguferð um Öskjuhlíðina og stuði í Nauthólsvík. Á röltinu í Öskjuhlíðinni fannst okkur hún vera farin að ganga frekar asnalega og ég spurði hana hvort hún þyrfti að pissa. Hún viðurkenndi það og svona fyrst við vorum í miðjum óbyggðum og í ljósi þess að það sé ekki alltaf of langur fyrirvari á svona tilkynningum, ákvað ég að vera sérstaklega ósmekkleg og fara bara með hana út af stígnum og á milli einhverra runna til að pissa.

Þegar við vorum svona nokkurn veginn komin í hvarf lyfti ég barninu upp í sómasamlega klósettstellingu og sagði henni að láta vaða sem hún og gerði. Ekki piss. Tvö stykki Öskjuhlíðar-offroading-kúkar. Æðislegt. Sem betur fer var ég með pakka af snýtubréfum í töskunni, svo ég gat þrifið barnið og svo sá ég þann kost vænstan í stöðunni að fjarlægja sönnunargögnin með fleiri snýtubréfum. Ég meina, mér finnst það alveg verulega ógeðslegt að sjá hundaskít sem hefur ekki verið tekinn upp, svo ég bauð nú ekki í það ef einhver bláeygður sakleysingi myndi lenda í því að stíga í eitt eða tvö stykki mannara í óspilltri náttúrunni (eða eitthvað svoleiðis).

Ewwewweww.. Klígjugjarna ég er sko farin að gera allskonar hluti sem ég hefði aldrei talið mögulega áður en ég eignaðist börn. Þau gera okkur af betri manneskjum hef ég heyrt. Ég hefði amk ekki séð fyrir mér að ég væri röltandi um með kúk í bréfi fyrir nokkrum árum síðan.

Sem betur fer hélt ég haus og mundi eftir því að við hefðum verið ný búin að ganga framhjá nokkrum bekkjum og ruslatunnu, svo ég stormaði á milli runna og beint í áttina að áðurnefndri tunnu með síli og eiginmann á eftir mér. Þegar þangað var komið sá ég að maður var að setjast niður á bekk við hliðina á ruslatunnunni. Fuuuu. Ég setti upp besta casual "ég er bara að henda smá rusli, nevermind me" svipinn minn, þegar Sara brýst fram á milli runnanna.

Sara: Mamma! hvar er kúkurinn?

"Meira fuuuuu" hugsa ég og ákveð að láta á engu bera. Kannski heldur maðurinn að ég sé bara ein af hetjum samtímans sem taki upp hundakúk á víðavangi.

Sara: Mamma. Ég þarf að kúka meira

...þar fór það.

Við stormuðum með barnið á veitingastaðinn Nauthól þar sem hún kláraði að gera sínar þarfir eins og náttúran gerði ráð fyrir... í klósett.

Spurning um að fara að bæta hundaskítspokum við í töskuna mína..