30.3.12

Fyrir vin minn, litla Kínverjan

Ég held ég þekki engan Kínverja lengur að vísu. Þegar ég var í DTU vann ég verkefni með tveimur stelpum frá Kína, en ég held að þar með sé það upp talið.

Það sem ég vildi samt sagt hafa er að það er ekki nógu mikið af gulum fötum til í heiminum. Gulur er glaður og fallegur litur. Þegar ég var lítil var gulur meira að segja uppáhalds liturinn minn. Það er gaman að halda upp á gulann því að á sumrin er allt morandi í túnfíflum og sóleyjum út um allar jarðir. En hvað sem að lagið segir, þá er "góða appelsínan" sko ekki gul. Ekki nema að "góða appelsínan" sé sítróna sem sé að villa á sér heimildir.

Í gær breytti ég gulum suttermabol í lítið gult pils með gulu blómi og í gult hárband. Saumavélin mín var svo hissa þegar ég sótti hana upp á háaloft að hún pissaði tvinna út um öll gólf.

Nú á frumburðurinn allavegana gul föt og mætti glöð á gulan dag á leikskólanum. Þess má geta að þetta er í þriðja skiptið sem barnið mætir í pils eða í kjól á leikskólann. Hin tvö tilefnin voru afmælið hennar og litlu jólin. Ég er ekki stuðningsmaður þess að senda börn í kjólum og pilsum á leikskólann.. Skraaaambinn nei.

28.3.12

Tannsi

Ég fór til tannlæknis áðan. Það er eitthvað svo brjálæðislega vandræðalegt við að fara til tannlæknis. Ekki svona félagslega vandræðalegt, heldur meira svona... næstum því alveg á hvolfi með gapandi munninn, hendur af hálf ókunnugri manneskju upp í þér og þurfa öðru hvoru að svara spurningum með "agghaaaa" eða "hnnnrrrrrghh".

Annars er ég gölluð. Það er alveg slatti síðan ég tilkynnti það hérna. Ég er sem sagt með tvær barnatennur, hlýtur að vera þessvegna sem ég er forever young. Eða eitthvað svoleiðis. Það eru engar fullorðinstennur undir. Þær eru samt ekkert tiny tiny eða neitt. Fæðingargalli. Svo kemur í ljós áðan að ég er líklega með frekari fæðingargalla - engir öftustu jaxlar í efri góm. Stuttu fyrir þetta hafði tannsinn tilkynnt mér að ég þyrfti líklega að láta taka þessa í neðri gómi, svo ég get ekki verið annað en sátt að hinir muni aldrei koma. Aldreialdrei. ALDREI!

En ég meina, enginn er fullkominn svo það er ekki slæmt að vera bara með það svart á hvítu á röntgenmynd hver gallinn hjá mér er. Jessörr.

25.3.12

Náttfatapartý

Tæplega tveggja og hálfs árs grallaraskott á náttfötum, 10 mánaða (í dag) grallaraskott á náttfötum, mamman á náttfötum og Sól dúkka á náttfötum. Hafragrautur og lýsi á línuna og svo kannski vagnalúr fyrir yngri dótturina og jafnvel Skoppa og Skrítla fyrir þá eldri. Sunnudagskósí.

"Þegar ég var lítil, þá var ég hrædd við jólasveininn" sagði eldri dóttirin í fyrra dag. Það er sko ekkert smá sem er hægt að stækka á 3 mánuðum. Annars kom í ljós í gær að Skoppa og Skrítla eru svolítið eins og jólasveinninn. Fínt concept, en afskaplega hræðilegar í persónu.

14.3.12

Leitileit

Ég er að leita að blaði sem er búið að vera að þvælast fyrir mér svo gott sem á hverjum degi í svona 2 mánuði. Í dag þarf ég á því að halda og það er hvergi sjáanlegt. Típííííískt

13.3.12

Kvefuð

Ég er með allsvakalega stíflað nef. Það er ekkert annað að angra mig, svo ég lifi þetta alveg af, en vandamálið er að ég nenni ekki að borða neitt. Til hvers að borða ef ég finn ekkert bragð? Pff.

7.3.12

Eldhúsið

Ég gleymdi alltaf að monta mig af leikeldhúsinu sem ég smíðaði úr 2 náttborðum fyrir hana Söru í 2ja ára afmælisgjöf.


Ég held að ekkert dót hafi verið eins mikið notað á þessu heimili og þetta eldhús og mikið afskaplega var gaman að búa þetta til. Það eina sem ég hef út á þetta allt saman að setja er að núna er ég alltaf með einhverja óstjórnlega þörf til þess að smíða og ég á engan bílskúr. Það er ekki endilega kúl að smíða inni í eldhúsi og þurfa að vera með ryksuguna á lofti eftir hvert sag.

Ég á mér draum

Lengi hefur blundað í mér sá draumur að mála kastalaveggi í einhverjum öðrum lit en þessum beinhvíta sem varð fyrir valinu áður en við fluttum inn. Ókay.. kannski ekki háfleygasti og göfugasti draumur sem blundað hefur í höfði drottningar, en alveg pottþétt háfleygari og göfugri en sumir. Einu sinni dreymdi mig t.d. um að eignast fjaðraskraut um hálsinn. Hvað er það? Allavega ekki háfleygt sko.

Það er samt eitthvað ógnandi við að velja málningu í lit, svo fram að þessu þegar draumurinn hefur pikkað hikandi í öxlina á mér hef ég trampað á honum og sent hann aftast í röðina. Ég veit ég var náttúrulega bara að hvetja hann þegar ég málaði gulan sand og bláan sjó inn í barnaherbergið og passaði mig að mála ekki óléttubumbuna í leiðinni. Núna hefur kvikyndið verið að sækja í sig veðrið og þegar ég reyndi að senda hann aftast sagði hann...

NEI!

Ég ákvað þá að reyna að drífa mig í því að finna út úr þessu, því ekki get ég haft snarklikkaðan og upp-buffaðan draum hoppandi á öxlinni á mér í tíma og ótíma. Ég var svona eiginlega búin að ákveða að mála einn veggstubb og einn stóran vegg í stofunni til að byrja með og helst í sitthvorum litnum. Svo horfði á þennan stóra vegg í stofunni og hugsaði "ah.. þessi væri flottur grænn. Mér finnst grænn fallegur litur". Þrátt fyrir að vera nokkuð viss um að ég hafi aldrei rangt fyrir mér, ákvað ég að það yrði kannski best að fara út í smá rannsóknarvinnu til þess að ég myndi ekki vera að gerast sek um hroðaleg innanhússarkítektaamatöramistök (<-- bjó til þetta orð sjálf. Takkfyrirtkkfyrir. Mér finnst þessi tvö "a" í röð þarna gefa þessu svolítið finnskan blæ. Finnskt þér ekki? H0h0). Eftir gífurlega heimildasöfnun og miklar rannsóknir hef ég komist að því að það virkar ekki alveg þannig að kona getur bara horft á vegg og hugsað um lit sem henni finnst fallegur og málað vegginn í svoleiðis lit. Neineineinei..  Þó svo að einhver litur sé rosa fallegur, passar hann kannski alls ekki heima hjá þér. Eða í þessu tilfelli mér. Liturinn á veggjunum er víst það sem á að ákveða síðast. Fyrst þarf að taka mið af litum á gólfi, litum á húsgögnum og fylgihlutum, lýsingu o.fl.

Nú snúa gluggarnir í stofunni t.d. í suður og það er mikil náttúruleg lýsing í stofunni stærstan hluta ársins. Þá er víst betra að mála veggina í köldum lit. Sá kaldi litur sem liggur beinast við er grár. Það eru steingráar flísar inni í eldhúsi sem sjást úr stofunni og eins valdi ég steingrátt teppi á stigann á sínum tíma. Einn af borðstofustólunum okkar er líka grár (6 stólar í 6 litum). Sko mig! Búin að beita allskonar innanhússarkítektapælingum. Veggstubbur! Þú verður líklega grár.

Það kemur víst flott út að poppa gráan upp með bjartari lit. Þeir litir sem komu til greina með gráum eftir að hafa skoðað borðstofustólalitapallíettuna (bjó þetta orð til líka. Ég ætti kannski að leggja þetta fyrir mig) voru gulur, fjólublár og grænn. Gulur er hlýr litur, svo honum var hent út af borðinu vegna áðurnefndar lýsingar og þó svo að fjólublár geti verið fallegur finnst mér hann vera meiri svefniherbergis- og baðherbergislitur. Þá var eftir grænn. Já.. ég er sem sagt að spá í að mála stóra vegginn í stofunni grænan. 

....bíddu nú aðeins eitt augnablik. Grænan? 

Getur það verið að ég sé með innanhússarkítektarblóð í æðum mér? Bara svona náttúrutalent þegar það kemur að innanhússarkítekt...imsa? Það getur bara vel hugsast. Það eina sem heldur mér frá því að ganga að því sem vísu og fara að skipta um starfsvettvang, er að ég er ekki aaaalveg búin að negla niður hvor veggurinn á að vera grár og hvor á að vera grænn. Já.. eða tala við eiginmanninn og greina honum frá rannsóknarvinnu og niðurstöðum. 

Ég sé allavega fyrir mér græn og grá litaspjöld í náinni framtíð (hva! Bara spádómsgáfa líka.. Hún getur allt þessi stelpa!).