7.3.12

Ég á mér draum

Lengi hefur blundað í mér sá draumur að mála kastalaveggi í einhverjum öðrum lit en þessum beinhvíta sem varð fyrir valinu áður en við fluttum inn. Ókay.. kannski ekki háfleygasti og göfugasti draumur sem blundað hefur í höfði drottningar, en alveg pottþétt háfleygari og göfugri en sumir. Einu sinni dreymdi mig t.d. um að eignast fjaðraskraut um hálsinn. Hvað er það? Allavega ekki háfleygt sko.

Það er samt eitthvað ógnandi við að velja málningu í lit, svo fram að þessu þegar draumurinn hefur pikkað hikandi í öxlina á mér hef ég trampað á honum og sent hann aftast í röðina. Ég veit ég var náttúrulega bara að hvetja hann þegar ég málaði gulan sand og bláan sjó inn í barnaherbergið og passaði mig að mála ekki óléttubumbuna í leiðinni. Núna hefur kvikyndið verið að sækja í sig veðrið og þegar ég reyndi að senda hann aftast sagði hann...

NEI!

Ég ákvað þá að reyna að drífa mig í því að finna út úr þessu, því ekki get ég haft snarklikkaðan og upp-buffaðan draum hoppandi á öxlinni á mér í tíma og ótíma. Ég var svona eiginlega búin að ákveða að mála einn veggstubb og einn stóran vegg í stofunni til að byrja með og helst í sitthvorum litnum. Svo horfði á þennan stóra vegg í stofunni og hugsaði "ah.. þessi væri flottur grænn. Mér finnst grænn fallegur litur". Þrátt fyrir að vera nokkuð viss um að ég hafi aldrei rangt fyrir mér, ákvað ég að það yrði kannski best að fara út í smá rannsóknarvinnu til þess að ég myndi ekki vera að gerast sek um hroðaleg innanhússarkítektaamatöramistök (<-- bjó til þetta orð sjálf. Takkfyrirtkkfyrir. Mér finnst þessi tvö "a" í röð þarna gefa þessu svolítið finnskan blæ. Finnskt þér ekki? H0h0). Eftir gífurlega heimildasöfnun og miklar rannsóknir hef ég komist að því að það virkar ekki alveg þannig að kona getur bara horft á vegg og hugsað um lit sem henni finnst fallegur og málað vegginn í svoleiðis lit. Neineineinei..  Þó svo að einhver litur sé rosa fallegur, passar hann kannski alls ekki heima hjá þér. Eða í þessu tilfelli mér. Liturinn á veggjunum er víst það sem á að ákveða síðast. Fyrst þarf að taka mið af litum á gólfi, litum á húsgögnum og fylgihlutum, lýsingu o.fl.

Nú snúa gluggarnir í stofunni t.d. í suður og það er mikil náttúruleg lýsing í stofunni stærstan hluta ársins. Þá er víst betra að mála veggina í köldum lit. Sá kaldi litur sem liggur beinast við er grár. Það eru steingráar flísar inni í eldhúsi sem sjást úr stofunni og eins valdi ég steingrátt teppi á stigann á sínum tíma. Einn af borðstofustólunum okkar er líka grár (6 stólar í 6 litum). Sko mig! Búin að beita allskonar innanhússarkítektapælingum. Veggstubbur! Þú verður líklega grár.

Það kemur víst flott út að poppa gráan upp með bjartari lit. Þeir litir sem komu til greina með gráum eftir að hafa skoðað borðstofustólalitapallíettuna (bjó þetta orð til líka. Ég ætti kannski að leggja þetta fyrir mig) voru gulur, fjólublár og grænn. Gulur er hlýr litur, svo honum var hent út af borðinu vegna áðurnefndar lýsingar og þó svo að fjólublár geti verið fallegur finnst mér hann vera meiri svefniherbergis- og baðherbergislitur. Þá var eftir grænn. Já.. ég er sem sagt að spá í að mála stóra vegginn í stofunni grænan. 

....bíddu nú aðeins eitt augnablik. Grænan? 

Getur það verið að ég sé með innanhússarkítektarblóð í æðum mér? Bara svona náttúrutalent þegar það kemur að innanhússarkítekt...imsa? Það getur bara vel hugsast. Það eina sem heldur mér frá því að ganga að því sem vísu og fara að skipta um starfsvettvang, er að ég er ekki aaaalveg búin að negla niður hvor veggurinn á að vera grár og hvor á að vera grænn. Já.. eða tala við eiginmanninn og greina honum frá rannsóknarvinnu og niðurstöðum. 

Ég sé allavega fyrir mér græn og grá litaspjöld í náinni framtíð (hva! Bara spádómsgáfa líka.. Hún getur allt þessi stelpa!).

Engin ummæli: