27.1.12

Ofurmömmufílíngur

Stundum, fæ ég smá ofurmömmutilfinningu þegar ég geri eitthvað sem fólki almennt finnst eflaust ekkert sérstaklega merkilegt á blaði og dagmömmum þætti bara hægur dagur. 2ja ára sílið er heima í dag þar sem hún var lasin í gær. Núna síðasta hálftímann er ég búin að klára að elda sitthvorn hádegismatinn fyrir þær, mata þessa 8 mánaða, syngja, brosa yfir því hvað ég eigi fyndin og skemmtileg börn, hrósa fyrir duglegheit og kurteisi, þrífa báðar, skutla þeirri eldri í rúmið sitt, slökkva ljósið, kveikja á slökunartónlist, kyssa haus og labba út.. Skutla svo þeirri yngri í rúmið sitt, slökkva ljósið, kyssa haus og labba út og þær voru báðar sofnaðar áður en ég var einu sinni byrjuð að labba niður stigann.

Ef svo mikið sem önnur þeirra hefði farið að kvarta yfir því að vera sett í hvíld núna eða hefði ekki borðað vel eða verið með vesen hefði ég eflaust ekkert verið í ofurmamminu. Það virðist sem sagt vera að það sé ekki endilega það sem mamman gerir, heldur það sem börnin gera sem kemur af stað ofurmamminu. Það er kannski bara eðlilegt.

Engin ummæli: