26.1.12

Meiri snjór og "ekta súkkulaði"

Mikið held að það væri ofboðslega gaman að vera svona 8 ára og eiga góðan kuldagalla núna. Ég myndi fara út með skóflu og snjóþotu/stigasleða og ekki koma inn aftur fyrr en mér yrði dröslað inn með valdi. Vonandi kemur aftur svona mikill snjór einhvern tímann þegar stelpurnar mínar verða aðeins eldri. Þá verða sko grafin göng út um allan garðinn hjá okkur og gott ef það verður ekki kakó eftir á ef stelpuskottin munu hafa smekk fyrir svoleiðis skramba, þó svo að hvorki ég né E drekkum svoleiðis.

Einhverjar vísbendingar eru reyndar uppi um annað, amk hjá frumburðinum. Þegar litlu jólin voru á leikskólanum var hátíðardagskrá allan daginn m.a. með hátíðarmatseðli í hádeginu og smákökum og ekta súkkulaði í "nónhressingunni". Þegar ég var svo að yfirheyra hana um þetta eftir á og spurði hana um súkkulaðið sagði hún "Nei. Ég víldekki". Kannski er þetta bara í geninun, þó svo ég hafi fyrir satt að ekta súkkulaði sé sko allt annar pakki en kakó. Amk var reynt að ljúga þessu að mér þegar ég var lítil. Einhverra hluta vegna virðist fólk bara ekki geta komið hausnum á sér utan um þá staðreynd að einhverjum finnist þetta ekki gott

Ég: Nei, ég vil ekki kakó
Ættingjar: Þetta er ekki kakó. Þetta er EKTA súkkulaði. Smakkaðu þetta, þetta er rosalega gott
Ég: En ég vil ekki...
Ættingjar: ... og svo er þetta í svo flottum bollum *hella EKTA súkkulaði í flottan bolla og rétta mér*
Ég: *einn sopi og gretta* En ég VIL ekki...
Ættingjar: Það vantar bara RJÓMA út í (sagt eins og að rjómi sé það besta sem nokkur gæti óskað sér að drekka)

Svona í ellinni hef ég stundum látið mig hafa kurteisis kakó eða meðvirknis EKTA súkkulaði, t.d. þegar við höfum mætt í heimsókn einhvert og gestgjafinn hefur sloppið inn í eldhús og skellt í könnu af þessum skramba. Eiginmaðurinn á nefnilega tromp uppi í erminni. Hann drekkur kaffi, á meðan ég er þeim eiginleika gædd að hafa fæðst með bragðlauka. Ég þarf þá að taka kúluna fyrir hönd okkar hjónanna svo eldhúskuklið hafi ekki verið til einskyns. Ég skil eiginlega ekkert í mér að gera þetta. Árið er nú sæmilega nýtt og ferstk ennþá. Spurning um að slá fram nýársheiti að hætta að drekka meðvirknis kakó. Já, því ekki?

Engin ummæli: