31.7.11

Snilldarlausn!


Ég veit ekki hvað ég hef drepið mörg blóm í gegnum tíðina. Allavegana ____________________ svona mörg, ef ekki fleiri. Eftir að hafa fengið mig fullsadda af blómamorðum reyndi ég að halda kaktusa á heimilinu. Einhvern tímann heyrði ég að það væri nánast ógerlegt að myrða kaktusa, en ég held að manneskjan sem hafi fleygt því fram hafi ekki haft neinn metnað eða þolinmæði. Það er alveg vel hægt. Ég er frekar ný búin að drepa þrjá með því hundsa þá algerlega og drekkja þeim svo í athygli og vatni til skipts.

Ég var svona næstum því búin að sætta mig við að mér væri ekki ætlað að eiga gras í potti þegar mér datt snjallræði í hug. Ég PRJÓNA bara friggin' kaktusa. Ég sé ekki fyrir mér að ég geti myrt þá öðruvísi en að kveikja í þeim. So.. it's on.

Þetta er tilraunaverkefni sem fer í gang núna í vikunni.. Svo fer teljarinn í gang og við munum komast að því hversu lengi prjónakaktusar lifa á þessu heimili.

26.7.11

Og síðan... dramasaga.. creative writing

Ég er að spá í að skrifa kvörtunarbréf til Hagkaupsliðsins. Helvítis fíflin ákváðu að hafa opið allan sólahringinn í Skeifunni og það hefur eyðilagt vikuna hjá mér. Allavega vikuna. Kannski mánuðinn.

Ég gat ekki sofið í gærnótt. Eftir að hafa horft á klukkuna í þrjá klukkutíma og hugsað ef ég sofna NÚNA næ ég að sofa í 5 tíma.. 4 tíma.. 3 tíma.. fór ég fram úr. Ég rak köttinn úr hægindastólnum og fór á feisið. Enginn skemmtilegur online. Kötturinn horfir á mig ásakandi augum í nokkrar mínútur og fer svo inn á baðherbergi og tætir síðustu klósettpappírsrúlluna í öreindir. Frábært, hugsaði ég á meðan ég var að sópa upp klósettpappírstæjunum. Ég get ekki sofið, ég er beitt tilfinningalegu ofbeldi af ketti og það er ekki til súkkulaði.

Mér fannst það allt í einu vera brjálæðislega góð hugmynd að hringja mig bara inn veika í vinnunni næsta morgun, skella mér í Nammiland og taka Friends maraþon með passive-aggressive kött í fangin þangað til ég sofnaði.

Það er enginn að versla í kl. 4 á miðvikudagsmorgni, right? Right! Ég skellti mér í síðerma bol yfir hlírabolinn og fer út á náttbuxunum með úfið hárið. Þegar ég kem að kassanum með nammi, kók og klósettpappír í körfunni mæti ég fyrrverandi. Með nýju kærustunni. Þessari sem hann byrjaði með á meðan við vorum ennþá trúlofuð. Hún í eins bol og ég, nema í miklu minni stærð en minn.

Helvítismoðerfokkinghagkaup....

21.7.11

Til að byrja með..

Þetta hafði verið erfiður dagur í Kjólabúð Fröken Láru. Hinni árlegu sumarútsölu á kjólum og höttum var lokið og Rósa var komin heim í litla herbergið sitt. Hún reyndi að draga djúpt andann, en fann fyrir skörpum sársauka í síðunni. Hún var líklega með brotið rifbein. Það hefði best verið hægt að lýsa þessu sem umsátri. Þegar búðin opnaði streymdi inn hafsjór af viðskiptavinum. Konur sem venjulega voru vel til hafðar og settlegar héldu pilsfaldinum upp fyrir ofan hnén og hlupu, gáfu olnbogaskot, hrintu og klóruðu til þess að ná flíkum á fyrst. Þær rifu kjóla á milli sín, slógust og öskruðu á hvora aðra og rifust um hver hefði náð kjólnum á undan. Eldri konurnar létu stafina sína vaða miskunarlaust í frúr sem á vegi þeirra urðu og Rósa hafði séð eina nota krókinn á stafnum til þess að fella aðra sem hafði komist hættulega nálægt síðasta gula fjaðrahattinum.

Rósu grunaði reyndar sterklega að sumar af þessum konum væru ekkert á höttunum eftir fallegum fötum á kostakjörum, en mættu til þess að geta sleppt af sér beislinu á meðal almennings og náð góðum höggum á aðrar konur sem höfðu einhvern tímann svo mikið sem horft á þær á rangan máta.

Rósa var marin, með sprungna vör og skrámur út um allan líkamann. Hún var líka hölt eftir að gífurlega þykkvaxin járnkona hafði stappað á fótinn á henni. Fjólubláu sumarkjólarnir með túlípanamynstrinu voru "búnir" í hennar stærð, en það hafði fröken Lára kennt henni að segja þrátt fyrir að kjóllinn hefði aldrei verið saumaður í svo stórri stærð. Konan, sem var komin í ham, var ekki tilbúin til þess að taka því með þegjandi þögninni. Nei, það var ekki á færi hvers sem er að vera afgreiðsludama á útsöludögum.

Rósa var að þrífa storknað blóð af andlitinu á sér þegar það var bankað heldur ákveðið, taktfast og óþreygjufullt á hurðina. Hún dæsti og hélt áfram að strjúka varlega yfir sprungnu vörina. Hún var ekki í skapi fyrir gesti. Þegar það virtist ekkert vera að hægja á bankinu, klöngraðist hún á fætur og haltraði að hurðinni.

Rósvíta Stefanía Leopold Tin? Spurði ókunnugur maður sem leit út eins og bankið hans hljómaði. Hann var stór og harðgerður, en samt snyrtilegur og vel klæddur.

Já, en hver... Rósa náði ekki einu sinni að klára setninguna. Hendin á manninum skaust upp að hálsinum á henni og hún fann fyrir snörpum sársauka og örskotsstundu síðar datt stéttillinn hennar í jörðina með glamri.

Rósu svimaði og áður en hún náði að bregðast við var hendin á manninum komin aftur upp að hálsinum á henni og hún heyrði smell. Í smá stund var eins og að allt blóðið í líkama hennar fossaði í átt að hálsinum og svo fann hún fyrir gríðarlegri vellíðunartilfinningu.

Nú ertu Rósvíta Stefanía Leopold Gull, sagði maðurinn og hneygði höfuðið örlítið í áttina að henni. Það var þá sem hún tók eftir því að stéttillinn hans var úr rafi. Maðurinn var RÖDD! Hún hafði víst einu sinni hitt Rödd áður, en hún mundi ekki eftir því, þar sem að hún hafði bara verið nokkurra mínútna gömul.

Gull? Hún lyfti hendinni rólega upp og strauk yfir stéttilinn sinn. Hann var mýkri viðkomu en áður. Skyndilega leið henni eins og hún stæði í lausu lofti og hún endaði á gólfinu. Rósa lenti illa á sára fætinum, en hún gat ekki lengur munað hvernig hún átti að færa hann. Gull!? Það gat ekki verið. Hún var örugglega með ofskynjanir. Hún lá líklega meðvitundarlaus á gólfinu í Kjólabúð Fröknenar Láru og viðskiptavinirnir voru að troða hana niður á leið sinni að rekkunum.

Dæmigerð viðbrögð, sagði Röddin. Stundum er þetta verra. Föðurbróðir þinn, Haraldur Leopold Gull fékk til dæmis hjartaáfall og dó... Röddin varð hálf skömmustuleg. Ég... sam..hryggist?

Stutt, en hálf vandræðileg þögn fylgdi þessari yfirlýsingu, en svo yppti Röddin öxlum. Æ, ég hef aldrei almennilega náð tökum á samkennd, ég veit ekki hvers vegna ég reyni. Í rauninni er ég ekkert leiður yfir því að föðurbróðir þinn sé dáinn. Ég hitti hann fyrst í dag og hann hafði ekki einu sinni fyrir því að anda nema rétt til þess að byrja með.

Röddin ræskti sig og hélt svo áfram. Lafði Elísabet Arabella Gull lést fyrr í dag. Hún átti enga nána ættingja sem ekki voru gull. Nafn Haraldar Leopolds var dregið út úr eldinum, en hann var greinilega ekki með hjarta úr gulli því það gaf sig við fréttirnar. Röddin stoppaði og horfði á Rósu með eftirvæntingasvip. Rósa horfði dofin til baka og reyndi eins og hún gat að komast aftur til meðvitundar. Fröken Lára myndi draga af henni kaup ef hún væri ekki við búðaborðið að taka við greiðslum. Röddin hleypti brúnum og muldraði með sjálfum sér eitthvað um hann hefði nú haldið að þetta hefði átt að kalla fram að minnsta kosti á smá bros. Svo hélt hann áfram.

Samkvæmt reglunum þarf að koma virkum eðalmálmastéttlum fyrir innan dagsins og þar kemur þú inn í söguna. Þú ert eini skráði lifandi ættingi Haraldar Leopolds Gulls. Hann mældi Rósu út og leit skyndilega út eins og hann hefði bitið í sítrónu. Ég mæli með því að þú hafir þig aðeins til áður þú verður sótt...........

20.7.11

Læknavaktin

Sílið fór á læknavaktina í gærkvöldi með stokkbólgna tásu. Læknavaktarinn sagði að það væru sama og engar líkur á því að það færi að grafa í þessu. Áðan stakk ég á tásuna og á meðan ég var að þurrka í burtu allt sem kom út fór að velta því fyrir mér hvers vegna fólk fari á læknavaktina yfir höfuð... Þetta er einhver svona klikkun held ég. "Kannski virkar þetta NÚNA!"...

15.7.11

Breiðnefur...

Mömmupósk

Ég á tvær stelpur - eina litla og eina enn minni, samtals c.a. 14 kíló af börnum samkvæmt nýjustu mælingum.. Þær eru það flottasta og besta sem ég (ókay.. við Einar) á og hef búið til og ég get svo svarið það að á þessum 21 og hálfa mánuði sem ég hef verið mamma hef ég brosað og hlegið meira heldur en síðustu 10 ár til samans.

Sú eldri, Sara, fæddist eftir að það var búið að dæla í mig allskonar gangsetningarlyfjum og sýklalyfjum í æð og svo mænurótadeyfa frá mér allt vit eftir að eiginmaðurinn var farinn að óttast um líf mitt. Á þeirri stundu var ég að spá í að kjósa mænurótardeyfingu til forseta í næstu forsetakostningum og Sara er eiginlega bara heppin að hafa ekki verið skírð Epiduralía. Það hlýtur að falla að íslenskum beygingarmyndum og allt. Ég meina.. það má skíra stelpur Analía sem er mjög spes. Ég held svona að tvennu illu, þá væri Epiduralía bara skárra.

Sú yngri, Erna, fæddist nokkuð sársaukalaust með aðstoð sjálfsdáleiðslu (hypnobirthing), ilmkjarnaolía og nálastungu. Svo fæddist hún í vatni.. í "sigurkufli". Talsvert betri lífsreynsla, þó svo að allt vesenið hefði verið ansi fljótt að gleymast eftir að ég fékk eldra sílið í fangið.

Hvor um sig hefur verið alveg sérstaklega vel heppnuð frá fyrsta degi, líklega aðalega vegna þess að við Einar erum með svo rosalega góð gen. Það verður svo bara hörkufjör næstu ár held ég..

//Jæja.. búin að mamma yfir mig í bili.. As you were.