2.8.11

Drottningaturninn

Það eru rúmlega þrjú ár síðan við fluttum inn í húsið okkar. Vá. Það er mikið. Sem sagt.. fyrir þremur árum síðan komumst við að samkomulagi um að Hr. Mon fengi minnsta herbergið fyrir sig og ég fengi háaloftið, sem hafði verið unglingaherbergi hjá fyrri eigendum og því parketlagt og með gluggum og allt svoleiðis. Það er með 20 fm gólffleti, en lofthæðin er ekki nema 185 þar sem hún er hæðst, sem hentar ekkert illa fyrir stubba eins og mig, en verr fyrir Hr. Mon. Ég sá fyrir mér að hafa borð út við endann þar sem saumavélin ætti varanlegan stað og ég gæti stundað allskonar föndur. Trönurnar mínar yrðu auðvitað alltaf uppsettar og með striga á sér og málningadótið allt nálægt svo það yrði auðvelt að skella sér í málerí ef ég væri í stuði. Ég kallaði háaloftið drottningaturninn.

Ókay. Svo byrjuðum við að taka pleisið í gegn, skipta um gólfefni, mála, brjóta niður veggi, rífa út skápa og skipta um hurðir og allt þetta sem fólk gerir áður en það flytur inn (því það gerir svo aldrei neitt svona framar og síðustu ljósin og skápahöldurnar eru ekki settar á fyrr en það á að gera heimilið glæsilegt fyrir fasteignasöluljósmyndir). Gólfið uppi á háalofti var stráð allskonar skápahurðum, hjörum, verkfærum og dóti sem við vildum ekki hafa fyrir okkur. Eftir að við fluttum inn, var öllu sem við vissum ekki hvað við áttum að gera við tímabundið skutlað upp á háaloft. Fljótlega komu jól og tveir stórir kassar af jólaskrauti og einn stór með uppstoppuðu jólatré bættist við. Síðan þá hafa allskonar óútskýranlegir hlutir sprottið þarna upp eins og gorkúlur og það er eiginlega ógerlegt að labba þarna um eða finna nokkurn skapaðan hlut. Á öllum þessum tíma hefur Hr. Mon geta sitið sáttur í herberginu sínu með 3 uppáhalds gítarana sína (hinir 2 eru uppi á háalofti. Oh. the irony), magnarana, nördaskapinn og whatnot. Aumingja Óskin Makare hefur ekki málað eitt einasta málverk.

Í gær fékk ég nóg af þessu, skutlaði ungabarninu í fangið á eiginmanninum og stormaði upp á loft til þess að redda málunum. 2 klukkutímum, kófsveittum haus, 1 stórum svörtum ruslapoka af rusli og öðrum eins ásamt stórum kassa af dóti sem á að fara á góða hirðinn síðar sást ekki enn högg á vatni. Operation "endurheimta drottningaturninn" var sett á bið vegna hungraðs krílis. Ég giska á að það þurfi góð 8-10 sambærileg áhlaup til viðbótar og heimsóknir í ikea/rúmfó/europris til að versla hentugar hirslur fyrir dótið sem þarf að vera eftir áður en ég get smellt í málverk. En.. by george, það kemur til með að vera stórkostlegt málverk, þó það verði örugglega fugly sökum æfingaleysis. Mér er skapi næst að hengja það upp í stofunni sem svona "Never forget" minnisvarða um hvurslags stórslyst geta gerist ef fólk sofnar á verðinum í háalofts málum. Svo alltaf þegar annað okkar ætlar að fara með eitthvað drasl upp á háaloft mun hitt benda skjálfhent á málverkið og segja með brostnum róm "Viltu fá annað svona í stofuna? HA? VILTU?"

Hlýtur að ganga!

Engin ummæli: