27.2.11

Hvalurinn

Upp á síðkastið hef ég stundum fleygt þessu orði fram í vinnunni. Ég hef t.d. sagt hluti eins og að ég sé farin í hvalaskoðun þegar ég er á leiðinni í meðgöngusund.

Einn morguninn kom ég líka í vinnuna með drullugabíladrullu á bumbunni og bossanum (vá. Var að fatta að fyrir tæpu einu og hálfu ári síðan hefði ég sagt "rassinum". Orðaforðinn breytist við að verða mamma, ég er að segja ykkur það) og útskýrði fyrir viðstöddum að ég væri ekki farin að gera mér grein fyrir því hvað ég væri orðin mikill hvalur. Ég hafði lagt í stæði við hliðina á bíl sem var aðeins að slæma sér inn fyrir hvítu línuna "mína". Ég ákvað samt að halda mig bara inni í stæðinu mínu eins og siðmenntaðri manneskju sæmir svo þetta hefði ekki skelfilega keðjuverkun í för með sér. Gæti kannski endað á því að eyðileggja heilt stæði, sem hefði svo þau áhrif að einhver einstaklingur þyrfti að leggja úti í rassgati, vera að verða of seinn á mikilvægan fund og passa sig ekki þegar hann færi yfir götuna, vera svo klesstur niður, enda á spítala og þurfa að sitja undir endursýningum af Two and a half man í sjónvarpinu því batteríin eru búin í fjarstýringunni hans. Svoleiðis get ég ekki haft á samviskunni! Allavega. Ég horfði á bilið á milli bílana, hélt þetta yrði ekkert mál og ætlaði að skáskjóta mér á milli þeirra. Svo bara bumbaði ég plássfrekjubílinn eftir endilangri hliðinni og rassaði minns eigins bíl. Fyrst varð ég frekar fúl yfir þessu, en svo fór ég að velta því fyrir mér að festa moppu á bumbu og rass og leggja við hliðina á bílum samstarfsfélaga gegn vægri greiðslu. Ég gæti grætt tugi, ef ekki hundruði.. eh. króna.

Aaaaallavegana. Hvalurinn. Þetta er nýja gælunafnið mitt og er notað öðru hvoru og með vinsemd. Ég hef reyndar lent í því að heyra einn af samstarfsfélögum mínum nota þetta og sjá annan hvítna og blána við og skamma hann fyrir ónærgætni og að fara yfir strikið. Það var fyndið. Brandarar eru einhvern veginn fyndnari þegar þeir ganga fram af einhverjum. Það væri eiginlega líka ógeðslega fyndið ef ég myndi bíða eftir því að sami aðili notaði þetta í fyrsta skipti, fara svo að hágráta og hlaupa og loka mig inni á klósetti. Verst að ég get ekki púllað svoleiðis. Ég fer alltaf að hlægja ef ég er eitthvað að reyna að blöffa eða ljúga. Djö!