10.11.11

Einhyrningapæling

Hvers vegna heita einhyrningar "unicorn" á ensku, en ekki unihorn eða unicone. Ég meina, þetta hlýtur eiginlega að vera "cone", því að annars væru þeir ekki einhyrningar, heldur þríhyrningar. Eða er það ekki?

6.9.11

Forgangsröðun

Síðustu vikuna hef ég notað nánast hverja mínútu af frítíma mínum í að smíða 2ja ára afmælisgjöf fyrir sílið. Á sama tíma er ekki enn búið að setja upp ljósin sem við keyptum fyrir c.a. ári síðan fyrir veggina hjá stiganum eða setja upp myrkvunargardínurnar sem voru keyptar fyrir hurðina út í garð.

Hmm... Þessum hlutum að kenna að vera ekki skemmtilegri.

28.8.11

Vinsæl

Ég held ég hafi aldrei verið eins vinsæl eins og þegar við ákváðum að skrá borðsofuborðið og stólana okkar til sölu á bland. Endalaust af ókunnugu fólki að senda mér skilaboð og biðja mig um símanúmerið mitt og bjóða mér gull, græna skóga og frumburðinn í skiptum fyrir góssið. Ég skráði inn auglýsingu seint á föstudagskvöldið og milljónþúsund skilaboðum og 13 klukkutímum seinna var allt heila klabbið komið út í bíl hjá kaupanda og gólfið þar sem þetta stóð orðið berrassað. Ég elska þetta auða pláss. Ég sagði við Einar áðan að mér þætti það vera eins og óopnaður pakki. Þegar ég horfi á það, sé ég fyrir mér alla stórkostlegu möguleikana.

Við sem sagt ákváðum að massíft eikarborðstofuborð og feitir, svartir stólar væru aðeins of plássfrekir og vildum aðeins létta á þessu. Fá fleiri liti og meira stuð. Úfff hvað ég hlakka til. Okkur liggur svo sem ekkert á að finna replacement.. Gefum þessu bara svolítinn tíma og finnum eitthvað fínt. Þangað til á ég óopnaðan pakka sem brosir til mín alltaf þegar ég kem inn í stofu. Glorious!

26.8.11

Automatic block fídús?

Það ætti að vera hægt að setja svona reglu á facebook að ef einhver notar ♥ táknið oftar en say.. 2-3x í viku í status hjá sér, sé viðkomandi sjálfkrafa blockaður úr newsfeedinu... Bara segja..

4.8.11

Pæling

Ætli það að rífa tæki sem er tengt í USB úr sambandi án þess að gera "safely remove eða eject" sé nýja "hlaupa með skæri"?

3.8.11

Stígvélamurphy

Ég held ég sé með slæmt skókarma. Ég kaupi mér sjaldan skó og þegar það gerist geng ég í þeim þangað til þeir deyja og stundum svolítið eftir það. Þramma um á einhverju sem voru einhvern tímann skór þar til að ég verð hrædd um að þeir fari á stjá sjálfir einhverja nóttina og reyni að éta úr mér heilann. Ókay.. kannski smá ýkjur. Basically, þá finnst mér leiðinlegt að versla skó og mér gengur illa að finna skó sem ég fíla og passa vel. Þegar ég kaupi skó sem ég fíla, þá held ég eins fast í þá og ég get, því að ég er viss um að næstu skór verði ekki svona stórkostlegir.

Áðan fór ég í eftirskoðun eftir fæðingu. Rennilásinn á öðru stígvélinu mínu festist og varð ekki haggað svo ég þurfti að gangast undir skoðun í einu stígvéli, einni sokkabuxnaskálm og einni nærbuxnaskálm. Hresst!

Er alvarlega að spá í að kaupa mér ný stígvél...

2.8.11

Drottningaturninn

Það eru rúmlega þrjú ár síðan við fluttum inn í húsið okkar. Vá. Það er mikið. Sem sagt.. fyrir þremur árum síðan komumst við að samkomulagi um að Hr. Mon fengi minnsta herbergið fyrir sig og ég fengi háaloftið, sem hafði verið unglingaherbergi hjá fyrri eigendum og því parketlagt og með gluggum og allt svoleiðis. Það er með 20 fm gólffleti, en lofthæðin er ekki nema 185 þar sem hún er hæðst, sem hentar ekkert illa fyrir stubba eins og mig, en verr fyrir Hr. Mon. Ég sá fyrir mér að hafa borð út við endann þar sem saumavélin ætti varanlegan stað og ég gæti stundað allskonar föndur. Trönurnar mínar yrðu auðvitað alltaf uppsettar og með striga á sér og málningadótið allt nálægt svo það yrði auðvelt að skella sér í málerí ef ég væri í stuði. Ég kallaði háaloftið drottningaturninn.

Ókay. Svo byrjuðum við að taka pleisið í gegn, skipta um gólfefni, mála, brjóta niður veggi, rífa út skápa og skipta um hurðir og allt þetta sem fólk gerir áður en það flytur inn (því það gerir svo aldrei neitt svona framar og síðustu ljósin og skápahöldurnar eru ekki settar á fyrr en það á að gera heimilið glæsilegt fyrir fasteignasöluljósmyndir). Gólfið uppi á háalofti var stráð allskonar skápahurðum, hjörum, verkfærum og dóti sem við vildum ekki hafa fyrir okkur. Eftir að við fluttum inn, var öllu sem við vissum ekki hvað við áttum að gera við tímabundið skutlað upp á háaloft. Fljótlega komu jól og tveir stórir kassar af jólaskrauti og einn stór með uppstoppuðu jólatré bættist við. Síðan þá hafa allskonar óútskýranlegir hlutir sprottið þarna upp eins og gorkúlur og það er eiginlega ógerlegt að labba þarna um eða finna nokkurn skapaðan hlut. Á öllum þessum tíma hefur Hr. Mon geta sitið sáttur í herberginu sínu með 3 uppáhalds gítarana sína (hinir 2 eru uppi á háalofti. Oh. the irony), magnarana, nördaskapinn og whatnot. Aumingja Óskin Makare hefur ekki málað eitt einasta málverk.

Í gær fékk ég nóg af þessu, skutlaði ungabarninu í fangið á eiginmanninum og stormaði upp á loft til þess að redda málunum. 2 klukkutímum, kófsveittum haus, 1 stórum svörtum ruslapoka af rusli og öðrum eins ásamt stórum kassa af dóti sem á að fara á góða hirðinn síðar sást ekki enn högg á vatni. Operation "endurheimta drottningaturninn" var sett á bið vegna hungraðs krílis. Ég giska á að það þurfi góð 8-10 sambærileg áhlaup til viðbótar og heimsóknir í ikea/rúmfó/europris til að versla hentugar hirslur fyrir dótið sem þarf að vera eftir áður en ég get smellt í málverk. En.. by george, það kemur til með að vera stórkostlegt málverk, þó það verði örugglega fugly sökum æfingaleysis. Mér er skapi næst að hengja það upp í stofunni sem svona "Never forget" minnisvarða um hvurslags stórslyst geta gerist ef fólk sofnar á verðinum í háalofts málum. Svo alltaf þegar annað okkar ætlar að fara með eitthvað drasl upp á háaloft mun hitt benda skjálfhent á málverkið og segja með brostnum róm "Viltu fá annað svona í stofuna? HA? VILTU?"

Hlýtur að ganga!

31.7.11

Snilldarlausn!


Ég veit ekki hvað ég hef drepið mörg blóm í gegnum tíðina. Allavegana ____________________ svona mörg, ef ekki fleiri. Eftir að hafa fengið mig fullsadda af blómamorðum reyndi ég að halda kaktusa á heimilinu. Einhvern tímann heyrði ég að það væri nánast ógerlegt að myrða kaktusa, en ég held að manneskjan sem hafi fleygt því fram hafi ekki haft neinn metnað eða þolinmæði. Það er alveg vel hægt. Ég er frekar ný búin að drepa þrjá með því hundsa þá algerlega og drekkja þeim svo í athygli og vatni til skipts.

Ég var svona næstum því búin að sætta mig við að mér væri ekki ætlað að eiga gras í potti þegar mér datt snjallræði í hug. Ég PRJÓNA bara friggin' kaktusa. Ég sé ekki fyrir mér að ég geti myrt þá öðruvísi en að kveikja í þeim. So.. it's on.

Þetta er tilraunaverkefni sem fer í gang núna í vikunni.. Svo fer teljarinn í gang og við munum komast að því hversu lengi prjónakaktusar lifa á þessu heimili.

26.7.11

Og síðan... dramasaga.. creative writing

Ég er að spá í að skrifa kvörtunarbréf til Hagkaupsliðsins. Helvítis fíflin ákváðu að hafa opið allan sólahringinn í Skeifunni og það hefur eyðilagt vikuna hjá mér. Allavega vikuna. Kannski mánuðinn.

Ég gat ekki sofið í gærnótt. Eftir að hafa horft á klukkuna í þrjá klukkutíma og hugsað ef ég sofna NÚNA næ ég að sofa í 5 tíma.. 4 tíma.. 3 tíma.. fór ég fram úr. Ég rak köttinn úr hægindastólnum og fór á feisið. Enginn skemmtilegur online. Kötturinn horfir á mig ásakandi augum í nokkrar mínútur og fer svo inn á baðherbergi og tætir síðustu klósettpappírsrúlluna í öreindir. Frábært, hugsaði ég á meðan ég var að sópa upp klósettpappírstæjunum. Ég get ekki sofið, ég er beitt tilfinningalegu ofbeldi af ketti og það er ekki til súkkulaði.

Mér fannst það allt í einu vera brjálæðislega góð hugmynd að hringja mig bara inn veika í vinnunni næsta morgun, skella mér í Nammiland og taka Friends maraþon með passive-aggressive kött í fangin þangað til ég sofnaði.

Það er enginn að versla í kl. 4 á miðvikudagsmorgni, right? Right! Ég skellti mér í síðerma bol yfir hlírabolinn og fer út á náttbuxunum með úfið hárið. Þegar ég kem að kassanum með nammi, kók og klósettpappír í körfunni mæti ég fyrrverandi. Með nýju kærustunni. Þessari sem hann byrjaði með á meðan við vorum ennþá trúlofuð. Hún í eins bol og ég, nema í miklu minni stærð en minn.

Helvítismoðerfokkinghagkaup....

21.7.11

Til að byrja með..

Þetta hafði verið erfiður dagur í Kjólabúð Fröken Láru. Hinni árlegu sumarútsölu á kjólum og höttum var lokið og Rósa var komin heim í litla herbergið sitt. Hún reyndi að draga djúpt andann, en fann fyrir skörpum sársauka í síðunni. Hún var líklega með brotið rifbein. Það hefði best verið hægt að lýsa þessu sem umsátri. Þegar búðin opnaði streymdi inn hafsjór af viðskiptavinum. Konur sem venjulega voru vel til hafðar og settlegar héldu pilsfaldinum upp fyrir ofan hnén og hlupu, gáfu olnbogaskot, hrintu og klóruðu til þess að ná flíkum á fyrst. Þær rifu kjóla á milli sín, slógust og öskruðu á hvora aðra og rifust um hver hefði náð kjólnum á undan. Eldri konurnar létu stafina sína vaða miskunarlaust í frúr sem á vegi þeirra urðu og Rósa hafði séð eina nota krókinn á stafnum til þess að fella aðra sem hafði komist hættulega nálægt síðasta gula fjaðrahattinum.

Rósu grunaði reyndar sterklega að sumar af þessum konum væru ekkert á höttunum eftir fallegum fötum á kostakjörum, en mættu til þess að geta sleppt af sér beislinu á meðal almennings og náð góðum höggum á aðrar konur sem höfðu einhvern tímann svo mikið sem horft á þær á rangan máta.

Rósa var marin, með sprungna vör og skrámur út um allan líkamann. Hún var líka hölt eftir að gífurlega þykkvaxin járnkona hafði stappað á fótinn á henni. Fjólubláu sumarkjólarnir með túlípanamynstrinu voru "búnir" í hennar stærð, en það hafði fröken Lára kennt henni að segja þrátt fyrir að kjóllinn hefði aldrei verið saumaður í svo stórri stærð. Konan, sem var komin í ham, var ekki tilbúin til þess að taka því með þegjandi þögninni. Nei, það var ekki á færi hvers sem er að vera afgreiðsludama á útsöludögum.

Rósa var að þrífa storknað blóð af andlitinu á sér þegar það var bankað heldur ákveðið, taktfast og óþreygjufullt á hurðina. Hún dæsti og hélt áfram að strjúka varlega yfir sprungnu vörina. Hún var ekki í skapi fyrir gesti. Þegar það virtist ekkert vera að hægja á bankinu, klöngraðist hún á fætur og haltraði að hurðinni.

Rósvíta Stefanía Leopold Tin? Spurði ókunnugur maður sem leit út eins og bankið hans hljómaði. Hann var stór og harðgerður, en samt snyrtilegur og vel klæddur.

Já, en hver... Rósa náði ekki einu sinni að klára setninguna. Hendin á manninum skaust upp að hálsinum á henni og hún fann fyrir snörpum sársauka og örskotsstundu síðar datt stéttillinn hennar í jörðina með glamri.

Rósu svimaði og áður en hún náði að bregðast við var hendin á manninum komin aftur upp að hálsinum á henni og hún heyrði smell. Í smá stund var eins og að allt blóðið í líkama hennar fossaði í átt að hálsinum og svo fann hún fyrir gríðarlegri vellíðunartilfinningu.

Nú ertu Rósvíta Stefanía Leopold Gull, sagði maðurinn og hneygði höfuðið örlítið í áttina að henni. Það var þá sem hún tók eftir því að stéttillinn hans var úr rafi. Maðurinn var RÖDD! Hún hafði víst einu sinni hitt Rödd áður, en hún mundi ekki eftir því, þar sem að hún hafði bara verið nokkurra mínútna gömul.

Gull? Hún lyfti hendinni rólega upp og strauk yfir stéttilinn sinn. Hann var mýkri viðkomu en áður. Skyndilega leið henni eins og hún stæði í lausu lofti og hún endaði á gólfinu. Rósa lenti illa á sára fætinum, en hún gat ekki lengur munað hvernig hún átti að færa hann. Gull!? Það gat ekki verið. Hún var örugglega með ofskynjanir. Hún lá líklega meðvitundarlaus á gólfinu í Kjólabúð Fröknenar Láru og viðskiptavinirnir voru að troða hana niður á leið sinni að rekkunum.

Dæmigerð viðbrögð, sagði Röddin. Stundum er þetta verra. Föðurbróðir þinn, Haraldur Leopold Gull fékk til dæmis hjartaáfall og dó... Röddin varð hálf skömmustuleg. Ég... sam..hryggist?

Stutt, en hálf vandræðileg þögn fylgdi þessari yfirlýsingu, en svo yppti Röddin öxlum. Æ, ég hef aldrei almennilega náð tökum á samkennd, ég veit ekki hvers vegna ég reyni. Í rauninni er ég ekkert leiður yfir því að föðurbróðir þinn sé dáinn. Ég hitti hann fyrst í dag og hann hafði ekki einu sinni fyrir því að anda nema rétt til þess að byrja með.

Röddin ræskti sig og hélt svo áfram. Lafði Elísabet Arabella Gull lést fyrr í dag. Hún átti enga nána ættingja sem ekki voru gull. Nafn Haraldar Leopolds var dregið út úr eldinum, en hann var greinilega ekki með hjarta úr gulli því það gaf sig við fréttirnar. Röddin stoppaði og horfði á Rósu með eftirvæntingasvip. Rósa horfði dofin til baka og reyndi eins og hún gat að komast aftur til meðvitundar. Fröken Lára myndi draga af henni kaup ef hún væri ekki við búðaborðið að taka við greiðslum. Röddin hleypti brúnum og muldraði með sjálfum sér eitthvað um hann hefði nú haldið að þetta hefði átt að kalla fram að minnsta kosti á smá bros. Svo hélt hann áfram.

Samkvæmt reglunum þarf að koma virkum eðalmálmastéttlum fyrir innan dagsins og þar kemur þú inn í söguna. Þú ert eini skráði lifandi ættingi Haraldar Leopolds Gulls. Hann mældi Rósu út og leit skyndilega út eins og hann hefði bitið í sítrónu. Ég mæli með því að þú hafir þig aðeins til áður þú verður sótt...........

20.7.11

Læknavaktin

Sílið fór á læknavaktina í gærkvöldi með stokkbólgna tásu. Læknavaktarinn sagði að það væru sama og engar líkur á því að það færi að grafa í þessu. Áðan stakk ég á tásuna og á meðan ég var að þurrka í burtu allt sem kom út fór að velta því fyrir mér hvers vegna fólk fari á læknavaktina yfir höfuð... Þetta er einhver svona klikkun held ég. "Kannski virkar þetta NÚNA!"...

15.7.11

Breiðnefur...

Mömmupósk

Ég á tvær stelpur - eina litla og eina enn minni, samtals c.a. 14 kíló af börnum samkvæmt nýjustu mælingum.. Þær eru það flottasta og besta sem ég (ókay.. við Einar) á og hef búið til og ég get svo svarið það að á þessum 21 og hálfa mánuði sem ég hef verið mamma hef ég brosað og hlegið meira heldur en síðustu 10 ár til samans.

Sú eldri, Sara, fæddist eftir að það var búið að dæla í mig allskonar gangsetningarlyfjum og sýklalyfjum í æð og svo mænurótadeyfa frá mér allt vit eftir að eiginmaðurinn var farinn að óttast um líf mitt. Á þeirri stundu var ég að spá í að kjósa mænurótardeyfingu til forseta í næstu forsetakostningum og Sara er eiginlega bara heppin að hafa ekki verið skírð Epiduralía. Það hlýtur að falla að íslenskum beygingarmyndum og allt. Ég meina.. það má skíra stelpur Analía sem er mjög spes. Ég held svona að tvennu illu, þá væri Epiduralía bara skárra.

Sú yngri, Erna, fæddist nokkuð sársaukalaust með aðstoð sjálfsdáleiðslu (hypnobirthing), ilmkjarnaolía og nálastungu. Svo fæddist hún í vatni.. í "sigurkufli". Talsvert betri lífsreynsla, þó svo að allt vesenið hefði verið ansi fljótt að gleymast eftir að ég fékk eldra sílið í fangið.

Hvor um sig hefur verið alveg sérstaklega vel heppnuð frá fyrsta degi, líklega aðalega vegna þess að við Einar erum með svo rosalega góð gen. Það verður svo bara hörkufjör næstu ár held ég..

//Jæja.. búin að mamma yfir mig í bili.. As you were.

27.2.11

Hvalurinn

Upp á síðkastið hef ég stundum fleygt þessu orði fram í vinnunni. Ég hef t.d. sagt hluti eins og að ég sé farin í hvalaskoðun þegar ég er á leiðinni í meðgöngusund.

Einn morguninn kom ég líka í vinnuna með drullugabíladrullu á bumbunni og bossanum (vá. Var að fatta að fyrir tæpu einu og hálfu ári síðan hefði ég sagt "rassinum". Orðaforðinn breytist við að verða mamma, ég er að segja ykkur það) og útskýrði fyrir viðstöddum að ég væri ekki farin að gera mér grein fyrir því hvað ég væri orðin mikill hvalur. Ég hafði lagt í stæði við hliðina á bíl sem var aðeins að slæma sér inn fyrir hvítu línuna "mína". Ég ákvað samt að halda mig bara inni í stæðinu mínu eins og siðmenntaðri manneskju sæmir svo þetta hefði ekki skelfilega keðjuverkun í för með sér. Gæti kannski endað á því að eyðileggja heilt stæði, sem hefði svo þau áhrif að einhver einstaklingur þyrfti að leggja úti í rassgati, vera að verða of seinn á mikilvægan fund og passa sig ekki þegar hann færi yfir götuna, vera svo klesstur niður, enda á spítala og þurfa að sitja undir endursýningum af Two and a half man í sjónvarpinu því batteríin eru búin í fjarstýringunni hans. Svoleiðis get ég ekki haft á samviskunni! Allavega. Ég horfði á bilið á milli bílana, hélt þetta yrði ekkert mál og ætlaði að skáskjóta mér á milli þeirra. Svo bara bumbaði ég plássfrekjubílinn eftir endilangri hliðinni og rassaði minns eigins bíl. Fyrst varð ég frekar fúl yfir þessu, en svo fór ég að velta því fyrir mér að festa moppu á bumbu og rass og leggja við hliðina á bílum samstarfsfélaga gegn vægri greiðslu. Ég gæti grætt tugi, ef ekki hundruði.. eh. króna.

Aaaaallavegana. Hvalurinn. Þetta er nýja gælunafnið mitt og er notað öðru hvoru og með vinsemd. Ég hef reyndar lent í því að heyra einn af samstarfsfélögum mínum nota þetta og sjá annan hvítna og blána við og skamma hann fyrir ónærgætni og að fara yfir strikið. Það var fyndið. Brandarar eru einhvern veginn fyndnari þegar þeir ganga fram af einhverjum. Það væri eiginlega líka ógeðslega fyndið ef ég myndi bíða eftir því að sami aðili notaði þetta í fyrsta skipti, fara svo að hágráta og hlaupa og loka mig inni á klósetti. Verst að ég get ekki púllað svoleiðis. Ég fer alltaf að hlægja ef ég er eitthvað að reyna að blöffa eða ljúga. Djö!

25.1.11

Mér er ekki illa við hunda...

...þó svo að það komi nú alveg fyrir að mér sé illa við hundaeigendur. Það eru nú einu sinni þeir sem bera ábyrgð á því að ala dýrin upp, hafa þá í ól á réttum tíma og allt það.

Hundar eru alveg prýðilegir og oft hressir og góðir til klapps. Best kann ég við hunda sem eiga heima í sveitinni, þar sem þeir geta verið eins miklir hundar og þeir vilja, og þeir þurfa ekki endilega að hanga inni í 8-9 klst á dag til þess að bíða eftir því að mega fá að bregða sér út að pissa. Í sveitinni eiga þeir sér kannski sitt eigið þvottahús sem þeir geta farið inn í og út úr eins og þeim sýnist, eins og gamall félagi hann Þvottahús-Vaskur átti forðum. Hann var slíkur öðlingshundur að hann bauð líka öðrum upp á að nýta það til hefðbundinna þvottahúsverka.

Einhvern tímann las ég að hundar ættu helst að fá tvo góða 40-60 mín göngutúra á dag (óháð veðri), einn á morgnana fyrir vinnu og einn eftir vinnu. Að vísu er ég kannski ekki alveg marktæk, þar sem að ég þekki það ekki marga sem eiga hund, en engin af þeim fer með hundinn sinn í einn klukkutíma labbitúr á dag, hvað þá tvo. Ég skil það svo sem alveg.. ég efast um að ég myndi nenna þessu sjálf, en það er líka stór ástæða fyrir því að ég á ekki hund. Ég myndi ekki nenna því að gera allt sem þyrfti að gera fyrir hann og svo er fjölskyldan meira og minna með ofnæmi, svo það væri ekki auðvelt að planta honum í pössun ef við vildum skella okkur til útlanda eða eitthvað.

Nei, ég á ekki hund og ætla ekki að fá mér hund. Getur einhver útskýrt það fyrir mér hvers vegna ég þarf þá að hlusta á þrjú stykki gelta þegar þeir fatta að þeir séu einir heima eða sjá annan hund, manneskju, kött, fugl, fiðrildi, tré eða eitthvað annað? Finnst einhverjum þetta í alvörunni rosalega heimilislegt og kósí?