4.3.10

Tilraun til morðs?

Hugsanlega too much information, en ég læt ykkur samt þola þetta!

Klukkan var hálf eitt og Sara var vöknuð. Þetta var eitthvað skrítið. Venjulega sefur hún til að minnsta kosti sex áður en hún vaknar til þess að drekka. Ég gaf þessu smá tíma, en hún var greinilega alveg harðákveðin í þessu. Ég gafst upp og tók hana upp úr rúminu sínu og þefaði af bossanum hennar. Ég geri þetta á nóttunni, því ég er ekkert að skipta á bleiunni hennar nema hún hafi sósað.

Púúúúhhhííí! Það var sko bersýnilega þörf til að skipta á henni. Það er rúm vika síðan hún splæsti í kúkableiu og það var ekki einu sinni það metnaðarfull bleia, svo það var alveg kominn tími á þetta. Ég geispaði og fór með hana inn á baðherbergi og setti hana á skiptiborðið. Krapp (bókstaflega). Það hafði farið framhjá bleiunni og í gegnum samfelluna og gallann. Djöfulsins fýla af barninu.

Ég klæði hana úr og ég sé að það hafi farið ansi illilega framhjá. Ég opna bleiuna og það er augljóst þarna í myrkrinu að þetta sé ekki bara kúkableia - þetta sé tilraun til morðs! Lyktin var eins og af illa skemmdri súrmjólk. Ég náði að skutla bleiunni í ruslið, en það lak samt heill hellingur á gólfið, þar sem að ekki er hægt að ætlast til þess að ein bleia haldi slíku magni. Holy guacamole! Nú þurfti sko að kveikja ljósið. Sara veinar eins og stunginn grís yfir þessari skyndilegu yfirlýsingu og ég byrja að þrífa barnið. Ég viðurkenni það vissulega að ég á það til að vera ansi klýgjugjörn en þarna stóð ég og kúgaðist á meðan að barnið vældi. Pabbi hennar var ræstur út í aðstoð og fenginn til þess að moppa barnið á meðan ég þreif gólfið og kúgaðist.

Ég er þakklát fyrir svínaflensuna því annars hefðum við ekki átt sótthreinsispritt í stórri pumpuflösku. Það eina í ruslinu er þessi illa bleia, en það þarf samt að fara með það út í tunnu. Það er ekki hægt að hafa svona lykt inni í húsinu. Á meðan að Einar þrífur Söru, sem er nú við það að sleppa sér, skelli ég mér í heimakjól, niður, í skó og út.

Lokið er frosið fast. Ég stend þarna úti í frostinu með poka lyktandi eins og það eigi að nota hann í efnahernaði í engu nema stuttum hlýrakjól og kuldastígvélum og reyni að berja lokið opið með skóflu. Í gegnum opnar dyrnar berst væl frá erfingjanum. Nákvæmlega þarna sá ég húmorinn í þessu öllu saman og þarf að halda aftur af mér með að hlægja ekki eins og brjálaður vísindamaður.

Kúkableiupokinn fer inn í andyrri. Ég fer upp og sótthreinsa hendurnar og fer inn að róa barnið og gefa því að súpa. Einar opnar glugga, klæðir sig og gerir tilraun til að sannfæra tunnuna um að opnast. Hún haggast ekki og ég get ekki erft það við hana.