26.9.10

Stephen Potter

Mér hefur alltaf þótt Stephen Fry töff. Okay, kannski ekki töff. Nei, töff er alveg pottþétt ekki rétta orðið. Sniðugur og klár. Fyndinn. Mælskur. Stórmerkilegur. Eitthvað svoleiðis.

Hmmm.. orðum þetta svona: Þegar ég setti saman lista af fimm einstaklingum sem ég myndi velja í task-force til þess að bjarga heiminum valdi ég Sir. Samuel Vimes, Beatrix Kiddo, Conan the barbarian, Gandalf og Stephen Fry.

Þegar ég prufaði að nota twitter hélt það mér gangandi í svona viku aukalega að Stephen Fry bætti mér við á listann sinn.

Ég ólst upp við að horfa á A Bit of Fry and Laurie og Jeeves and Wooster og í seinni tíð hef ég horft meira og minna á allt sem hann kemur nálægt. QI þættirnir hans eru náttúrulega bara yndislegir. Í heimildarmyndinni sem var gerð í tengslum við 50 ára afmælið hans sagði einn viðmælandi m.a. að Stephen Fry væri eini maðurinn sem Bretar gætu fyrirgefið fyrir að vera afburðargáfaður.

Okay.. ógeðslega langur inngangur að því sem ég ætlaði að segja. Ég hef nokkrum sinnum hlustað á bandarísku útgáfuna af Harry Potter hljóðbókunum. Það er alveg ferlega þægilegt að sofna út frá þessu og það er ekkert verra að hafa hlustað á þetta áður og þurfa ekki að stressa sig á því hvert kona var eiginlega komin þegar hún byrjar aftur síðar. Eftir fjölda ára umhugsun ákvað ég að gefa bresku útgáfunni séns, en Stephen Fry les hana. Einhvern veginn efaðist ég um að nokkur maður gæti verið eins góður í þessu og Jim Dale. Til að byrja með var ég ekki alveg seld á þetta, en núna er ég eiginlega alveg búin að skipta um skoðun. Stephen Fry er ekki eins magnaður í að gera mismunandi raddir fyrir persónurnar, en fyrir utan það er hann barasta betri sem ég hélt ekki að væri mögulegt.

Svei mér þá ef maðurinn getur ekki bara gert allt vel annað en að dansa!

24.9.10

Ég var að fatta...

Ég efast um að einhver ykkar hafi haldið út að kíkja hingað reglulega. Ekki það að ég hafi ekki neina trú á ykkur, heldur meira það að það liðu 2500 ár munið þið. Svo þurfti ég líka að breyta, svo ef einhver er svo ógeðslega sniðugur að nota RSS feed, þá hefur það dottið úr sambandi.

Þetta þýðir að ég get sagt allt sem ég vil og enginn mun nokkurn tímann komast að því... amk fyrr en að það verður smellt í gúglið "rassafés" eða "appelsínueldflaug" sem ætti nú að skila viðkomandi beint hingað.

Anywho. Stutt í helgi og bara vika í að sílið mitt verði eins árs. Það er merkilegra en þið gerið ykkur grein fyrir. Eiginlega alveg ógeðslega mikið merkilegt.

23.9.10

Söknuðuð þið mín?

Eins og hendi væri veifað hrundi veldi mitt og hallarverðirnir gerðust málaliðar. Haloscan sagðist ekki lengur standa vörð við komment þegnana nema að fá borgað fyrir það og stuttu síðar vildi blogger ekki lengur bjóða upp á pósk í gegnum ftp aðgang.

History became legend. Legend became myth. Í 2500 ár lá póskið í dvala...

Okay. Full dramatískt. Hér er amk einhver bráðabirgðalausn, mörgum mánuðum seinna. Hvort ég hafi eitthvað áhugavert að segja verður svo að koma í ljós með tíð, tíma, kalda vatninu og vetrinum.