28.10.09

Face!

Um daginn vorum við í labbitúr með vagninn (hmm.. eða öllu heldur dótturina í vagninum. Ekki eins og maður sé að labba sérstaklega með tómann vagninn for good measure) og gengum framhjá leikskóla. Á sama tíma og við fórum framhjá voru þrjú grunnskólabörn, svona á að giska 6 eða 7 ára, að rölta úr hinni áttinni. Ein stelpan horfði á krakkana sem voru úti að leika sér í leikskólanum og sagði hátt og snjallt með mikilli stríðnisröddu: "HÆ LEIKSKÓLABÖÖÖRN. ERUÐ ÞIÐ ENNÞÁ MEÐ BLEIU!?". Svo hlupu þau öll skellihlægjandi í burtu.

Leikskólakrakkarnir kipptu sér ekki mikið upp við þetta. Héldu bara áfram að róla sér, bora í nefið og éta sand. Ég held að svona dissi sé sóað á leikskólakrakka.

26.10.09

Samfélagslegt vandamál?

Ég hringdi í kvensa til að panta tíma í eftirskoðun eftir fæðingu. Ég var spurð hvort ég hefði farið til hans áður, þar sem að hann tekur ekki við nýjum einstaklingum. Hann átti svo ekkert laust fyrr en í desember. Hérna hélt ég að ég væri vel tímanlega, þar sem að ég hafði hugsað mér að panta tíma einhverntímann um miðjan nóvember. Þegar þarna var komið við sögu fór ég að velta því fyrir mér hvort að kvensinn minn væri einhver celebkjallaraskoðari með allt uppbókað fram undir nýja árið og séð og heyrt ljósmyndara á hælunum á honum við hvert fótmál að smella myndum af honum með viðskiptavinunum hans. Ég ákvað því að athuga með aðra lækna, þar sem að þetta á víst ekki að vera það mikið prógram og vegna þess að ég nenni ekkert að kaupa séð og heyrt út af forvitni um það hvað sé skrifað undir myndina hjá mér (Ósk (28) kúl í kjallaraskoðun t.d.). Þá var mér tjáð að aðrir læknar tækju heldur ekki við nýjum einstaklingum, svo ég skellti mér á desember tímann.

Núna er ég að velta því fyrir mér hvað konur með verulega aðkallandi kjallaravandamál geri eiginlega. Tja.. "nýjir einstaklingar" sem hafa aldrei farið til kvensa áður. Er þetta annað plott hjá teiknimyndavondakallinum sem reynir að skapa glundroða vegna þess að samfélagið á það skilið?

23.10.09

28 ára

Ég átti afmæli í gær. Hin átta afmælin sem ég hef átt á meðan ég hef haldið úti þessu póski hef ég alltaf tilkynnt á réttum degi, enda finnst mér fátt eins skemmtilegt og að eiga afmæli. 28 ára afmælistilkynningin kemur degi of seint þar sem að ég eyddi stórum hluta af gærdeginum í að sofa (dótturinni fannst þetta svo spennandi að hún ákvað að fagna afmælinu með því að vaka stóran hluta af nóttunni í hörkustuði).

Einar og litlamon gáfu mér síma. Ég setti simkortið mitt í hann þegar við tókum okkur mjólkurpásu frá kúrinu rétt fyrir hádegið og þegar ég vaknaði rúmlega fjögur, var ég með fullt af missed calles og smsum. Greinilega miklu betri sími en þessi gamli!

Í gær fékk ég sem sagt pakka, flottan morgunmat, blóm, sms og missed calles, súkkulaðiköku og blóðuga nautasteik, en slíka hef ég látið mér dreyma um í næstum því 10 mánuði. Ég sakna þess ekki neitt að drekka ekki áfengi, ég er byrjuð að fara aftur í sjóðandiheit böð (og böð þar sem að bumban stendur ekki upp úr vatninu), svo nú á ég held ég bara eftir að fá mér sushi og allir draumar mínir síðustu mánuði hafa ræst!

P.s. Kona veit að hún er mamma þegar hún kemst svona ___ nálægt því að setja bossakrem á tannburstan sinn í staðinn fyrir tannkrem.

12.10.09

Breytingar

Lífið hefur sko aldeilis breyst síðan að október mætti á svæðið. Það snýst allt meira og minna um brjóstagjafir, bleiuskipti og að dáðst að því hvað við séum með góð gen. Brandararnir hjá okkur Einari eru líka búnir að breytast. Í gær var dóttirin að sýna bleiunni sinni hver réði og allt húsið lék meira og minna á reiðiskjálfi. Við notuðum það tækifæri til þess að reyna að dæma hvort hún væri líkari mömmu sinni eða pabba sínum. Kúk-og-piss brandarar eru sem sagt komnir í nýjan galla og eru sérstaklega hressir. Einhvern veginn varð það líka eðlilegt að eyða álíka löngum tíma í að pakka í bleiutösku til þess að fara í labbitúr til mömmu og pabba sem búa í næstu götu, eins og ég hefði áður eytt í að pakka fyrir tveggja vikna ferð til útlanda.

9.10.09

Fréttamegrun

Ég er búin að vera algjörlega frá því að lesa eða horfa á fréttir í rúmlega viku. Núna er ég að horfa á fréttirnar á stöð tvö. Þvílíku þunglyndisdómsdagsfréttirnar og svo eru veðurfréttirnar ekki einu sinni hressar. Ég held sveimérþá að ég haldi bara áfram í fréttamegruninni! Þetta getur ekki verið gott fyrir sálina.

Litlamon

Þá er litla skottið mitt orðið 8 daga gamalt. Reyndar er það svolítið svindl að segja það, þar sem að hún fæddist 12 mínútur í miðnætti þann 1. október, en það eru dagsetningarnar sem telja. Hún náði að lauma sér inn 3 vikum eftir afmælið hjá pabba sínum og þegar það voru þrjár vikur í afmælið mitt. Það er ekki hægt annað en að dáðst að svona simmitríu.

Annars hef ég tekið eftir einu síðan hún fæddist. Foreldrar eru alltaf að tala um hvað þeirra börn séu fallegust, duglegust og frábærust, en ég hef komist að því að þetta sé ekki rétt. Það er í rauninni MITT barn sem er fallegast, duglegast og frábærast. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að þetta er dóttir mín og hún hefur greinilega erft sérstaklega góð gen frá okkur pabba sínum. Ég er að segja þetta vegna þess að þetta er staðreynd.