28.9.09

Medium pimpin'

Mér finnst ég alltaf vera að minnsta kosti medium pimpin' þegar ég fer í sloppinn minn, hann blábjörn. Hann er svo hlýr og mjúkur, síður og stór að hann minnir mig hellst á öflugan loðfeld.

22.9.09

I has the dumbz

Ég er komin aftast í skápinn. Þegar kona er komin tæpar 39 vikur á leið, þá öðlast þetta "aftast í skápinn" nýja merkingu, þar sem að það er töluvert vesen að finna eitthvað sem nær yfir bumbuna. Ég held ég hafi grafið svo djúpt áðan að ég hafi séð glitta í Geirfinn og Jimmy Hoffa þarna aftast í einni hillunni.

Til þess að koma í veg fyrir álíka leit á morgun, skellti ég stórri hrúgu af fötum í þvottavélina, sem malar nú undurfallega. Það var ekki fyrr en rétt í þessu, þegar kvikyndið er búið að vera að kjammsa á þvottinum í næstum því klukkutíma að ég fatta að ég gleymdi að setja þvottaefni í vélina.

Ég er líka eiginlega alveg hætt að gera tvo hluti í einu. Ég hef aldrei verið sérstaklega góð í því, en núna á ég erfitt með að tala í símann og anda liggur við.

Síðustu helgi var ég að reikna base-attack bónusa og árásir fyrir D&D characterinn minn sem er með two weapon fighting, improved two weapon fighting, fjórar hendur og haste (æi.. mér fannst langt síðan að ég hefði nördað það almennilega upp hérna, svo ég ákvað að koma aftan að ykkur!) og ég átti for reals bara erfitt með að draga 5 frá tölum.

Kemur ekki bara í ljós að þessi "meðgönguþoka" sem er búið að vera að hóta mér með á sér einhverja stoð í raunveruleikanum!

17.9.09

Óvinnufær að öllu leyti vegna sjúkdóms

Ég er hætt að vinna núna. Ish. Verð með tærnar svona aðeins í vinnunni. Á vottorðinu mínu stóð að ég sé óvinnufær að öllu leyti vegna sjúkdóms. Mér finnst frekar fyndið að þetta sé kallað sjúkdómur. Hinn valmöguleikinn var "slys". Það fer kannski eftir því hvernig verðandi erfingi kom undir í hvorn kassann er hakað.

13.9.09

Ný tölva og nýrri tölva

Það horfir allt til betri vegar hjá okkur í tölvumálum á þessu heimili og bráðum getum við farið að bera höfuðið hátt aftur og ekki skammast okkar fyrir að vera hálf tölvulausir tölvuhvíslarar. Fyrst kom Vimes, sem er desktop tölva og svo núna á föstudaginn bættist við ThinkPad lappi. Ég veit ekki hvað hann heitir ennþá. Ég var fyrst að kveikja á honum núna í morgun, þar sem ég er búin að vera á haus frá því á hádeginu á föstudag í afmælisboðaundirbúningi fyrir nýþrítugan eiginmanninn. Ég hef þó gefið mér tíma til þess að setja upp bleikan desktop bakgrunn, bleikt firefox þema og bleik stýrikerfaþema á milli þess að ég vesenast í almennum uppsetningum.

Ég er að íhuga að taka þessu sem enn einni vísbendingunni um að ég sé orðin fullorðin að ég hafi verið að stússast í að klambra saman kaffiboði fyrir rúmlega tuttugu og matarboði fyrir fjórtán í staðinn fyrir að klóra nýrri tölvu á bak við skjáinn og panta bara pizzur eða eitthvað. Ég hef reyndar alveg lúmskt gaman af svona stússi, þó svo að eftir á að hyggja hafi þetta kannski verið full mikil keyrsla fyrir partýhvalinn sem fer alveg að flokkast sem steypireiður.

Úff hvað það er annars skrítið að nota ThinkPad lyklaborð eftir að hafa vanist Dell lyklaborði eftir að hafa verið kexrugluð á því vegna þess að ég hafði vanist ThinkPad lyklaborði. Fn er ekki á réttum stað og ég er eiginlega viss um að windows takkinn eigi ekki að vera þar sem hann er. Svo veit ég ekki alveg hvað PgUp og PgDn eru að gera þarna niðri.

3.9.09

Ætti ég ekki að vera sofandi eða eitthvað?

Þetta er algjörlega ný lífsreynsla. Ég skutlaði Einari í vinnuna áðan og fór svo heim og borðaði morgunmat og fletti í gegnum Fréttablaðið án þess að finna neitt til þess að lesa, eins og ég geri almennt á morgnana. Núna er ég að bíða eftir því að klukkan nálgist níu aðeins meira til þess að ég geti sjálf farið að bruna í vinnuna.

Það er ferlega spes að vera vakandi klukkan sjö eitthvað og átta eitthvað og vera bara að heimapúkast. Það er eitthvað rangt við þetta! Það liggur við að ég taki 20 mínútna power-nap bara til þess að losa mig við þessa tilfinningu.