26.6.09

Bæbæ klippó. Klippó bæbæ

Ég fór í klippingu og strípur í gær. Klippingu í fyrsta sinn síðan í janúar og strípur í fyrsta skipti síðan fyrir jól. Það er ekkert sem segir að svona lagað sé slæmt fyrir bumbur, en það er hins vegar ráðlagt að sleppa þessu fyrstu þrjá mánuðina ef kona er eitthvað stressuð með þetta. Common senseið mitt, hún common sense sagði mér hins vegar að þetta gæti nú ekki verið mikið gott heldur, svo ég ákvað að takmarka þetta við einu sinni á meðgöngunni. Núna er ég komin rétt tæpa 6 mánuði á leið og rótin á mér var orðin svo rosaleg að ég bjóst við því að það myndi líða yfir allt liðið á hárgreiðslustofunni þegar ég tók teygjuna úr hárinu. Klippikvendið leiddi mig hins vegar í stól og klappaði mér og fór strax að sinna aumingja hárinu. Þegar draslið var komið í, yfirgaf hún mig til þess að fara að klippa einhvern annan. Sem betur fer var ég með Ibbann minn og hlustaði á síðustu Dark Tower bókina á meðan að ég beið. Og beið. Shit hvað ég beið lengi.

Þegar ég hélt að ég væri algjörlega gleymd og yrði með tímanum grafin undir gömlum Séð og Heyrt og afklipptu hári var mér loksins skutlað í hárþvott. Eftir hárþvottinn fór klippikvendið að klippa annan viðskiptavin og aðstoðarminionið þeirra fékk það hlutverk að blása á mér hárið og greiða mér. Ekki einu sinni mamma í vondu skapi þegar ég var búin að vera að frekjast sem krakki greiddi mér svona harkalega. Á einum tímapunkti var ég lamin með bakinu burstanum í ennið. Hún hló og baðst afsökunar og brenndi mig aðeins á öðru eyranu með hárblásaranum. Svo fór hún og mér var létt. Svo beið ég aftur. Og beið. Klukkan var orðin "ég hélt að ég væri búin í klippó á þessum tíma" og ég var orðin svo svöng að ég var við það að fara að kjökra, en mér hafði tekist að færa ofurhungrið sem ég finn venjulega fyrir í kringum kl. 15-16 til með því að borða hádegismatinn minn klukkan 14.

Þegar hingað er komið í sögunni kemur sem sagt í ljós að ég laug að ykkur áðan! Ég fór ekkert í klippingu. Þegar klippikvendið kom loksins aftur og gerði sig líklega til þess að klippa mig þurfti ég að halda svo mikið aftur af mér að bíta hana ekki að ég ákvað að það væri best að fresta þessu bara. Hún baðst innilegrar afsökunar greyjið, en ég heyrði það ekki alveg fyrir reiðiöskrunum í maganum. Svo borgaði ég 11þúsund og eitthvað. Spurning hvenær kona má fara að útskulda tíma á móti.

Nú er ég sem sagt ljóshærðari en ég hef verið í marga mánuði og með geðveikt sítt hár, þar sem að það var ekkert klippt af því. Ef ég væri ekki með óléttubumbu væri ég eins og versta bimbó, þar sem að brjóstin eru líka orðin heldur stór og eiginlega hætt að passa í brjóstahaldarana mína, þrátt fyrir allskonar tilfæringar.

Það er alveg spurning um að láta líða tæplega 7 mánuði í næstu hárgreiðslustofuferð aftur.

19.6.09

Ég er syfjuð

..vegna þess að ég fór að sofa í kringum miðnætti (bíði, it get's better) vegna þess að ég vakti frameftir þar sem ég var að hýsa taubleiukynningu.

Ég held ég sé orðin fullorðin.

16.6.09

Underground prjón

Ég skrapp á ættarmót með mömmu og pabba á laugardaginn. Við lögðum af stað fyrir hádegi og vorum komin aftur í bæinn í kringum kvöldmat. Á leiðinni heim var einhver prjónaþáttur í útvarpinu, þar sem að spjallað var við allskonar prjónafólk. Þetta kætti mig ó svo mjög. Í fyrsta lagi fannst mér fáránlega fyndið að sjá fyrir mér sænska prjónatöffarann sem var í prjónahettupeysu og prjónagrifflum sem hann hafði sjálfur prjónað. Mér fannst eins og það hafi bara gleymst að segja frá prjónapokabuxunum hans og prjónahlífinni utan um hjólabrettið. Þetta var eitthvað svo... Fóstbræðra.

Annað sem fékk mig til að brosa var stelpa sem talaði um "prjóna-tagging". Þá er fólk að prjóna hlífar í kringum ljósastaura og annað í skjóli nætur. Nú sé ég alltaf fyrir mér reiða unglinga með spreybrúsa í hönd þegar ég hugsa um svona lagað, þannig að ógeðslega reið manneskja með prjóna að prjóna ljósastaurahlíf er eitthvað svo rangt að það verður næstum því rétt. Úff.. ég þarf að hitta þetta fólk bara til þess að sjá að það sé til í alvörunni!

10.6.09

Ég er enginn McGywer

Ég hætti snemma í vinnunni í gær. Eða.. snemm-ish. Svo eyddi ég klukkutíma lokuð inni á baðherbergi heima, svo ég nýtti þennan snemmitíma ansi vel verð ég að segja. Þegar ég kom heim, fór ég beint á klósettið, enda pissa ég meira en fólk gerir almennt þessa dagana. Á sama tíma og ég reyndi að opna hurðina á baðherbeginu, heyrði ég útidyrahurðina lokast þar sem að Einar var að fara í einhverjar útréttingar. Hurðahúnninn fór upp og niður, en það gerðist ekkert. Ég var ekki alveg að nenna að hanga þarna inni þangað til að Einar kæmi heim aftur, svo ég byrjaði á því að reyna að taka hurðina af hjörunum. Ég gat það með engu móti, því hún liggur svo nálægt gólfinu. Þá náði ég mér í flísatöng og hófst handa við að taka hurðahúninn í sundur. Eftir lengri tíma tókst mér að ná hlífinni hans af og við blöstu tvær stjörnuskrúfur. Ég stakk flísatönginni inn í aðra og byrjaði að skrúfa. Eftir eitthvað hnoð varð mér það ljóst að ef ég héldi svona áfram myndi ég bara eyðileggja skrúfuna, svo ég varð að játa mig sigraða.

Í smá stund íhugaði ég að skríða út um gluggann og láta mig síga niður, en ákvað að óléttar konur ættu ekki að vera að klifra uppi á þaki og ég vissi heldur ekki hvort ég væri mikið betur sett að vera læst úti en inni.

Á meðan ég sat á baðbrúninni og beið eftir eiginmanninum, gerði ég mér grein fyrir því að þetta er besta herbergið í húsinu til þess að lokast inni á. Ég gat t.d. pissað tvisvar sinnum í viðbót sem hefði verið ómögulegt eða subbulegt ef ég hefði verið annarsstaðar. Ég hefði líka geta skellt mér í bað hefði ég verið með burstann minn í sama herbergi og ég gat fengið mér vatn að súpa.

Það versta við þetta var að síðustu vikur hef ég orðið alveg rosalega svöng í kringum kl. 15-16. Alveg svona "ómægodéghefekkiborðaðímörgár" svöng og þá þarf ég að komast í mat sem fyrst. Þetta var því smá kapphlaup við tímann að Einarinn myndi koma heim áður en maginn á mér færi að melta sjálfan sig innan frá. Þetta var sérstaklega slæmt því að við höfðum stoppað í búð og ég vissi af djúsí mat sem ég hafði keypt mér alveg bíðandi eftir mér niðri í eldhúsi.

Klukkutíma seinna kom Einar með teppaleggimann meðferðis (í þessu tilfelli í hlutverki stigamælingamanns). Hann hleypti mér út og ég þusti framhjá þeim báðum og fór að háma í mig mat eins og enginn væri morgundagurinn.

Svo lagaði ég hurðahúninn og við keyptum emergency skrúfjárn til að geyma inni á baðherbergi ef þetta gerist aftur. Aðalega vegna þess að matur geymist verr en skrúfjárn.

9.6.09

Örfréttir

Petra, lappinn minn, dó á föstudaginn og það hefur ekki verið hægt að sannfæra hana um að skella sér í gagn síðan. Ég hef svo sem ekki mikið dregið fram Frankenstein græjurnar mínar ennþá, þar sem ég hef verið í sjálfskipaðri útlegð heima hjá mömmu og pabba síðan á þennan sama föstudag, en þá hófust stigaframkvæmdir á Sílinu. Fyrst var mér úthýst vegna þess að verið var að mála með einhverju bölvuðu eitri sem þótti ekki við hæfi litlumon og svo vegna þess að það var ekkert handrið á stiganum. Það þótti heldur glæfralegt þar sem að ég rölti hálf sofandi framhjá gapandi opi eins og fjórum sinnum á nóttu á leið minni á klósettið.

Í dag mun þetta handriðaleysi lagast, en þá verða settar spónarplötur fyrir öll op. Við ákváðum að skella okkur bara á low-budget kreppuhandrið nefnilega... Nei okay. Þetta er tímabundin lausn á meðan það er verið að sníða glerið fyrir okkur :oP