18.12.09

Jákvæðinikast

Á meðan ég skrifa þetta pósk, sit ég í nýja sófanum okkar sem er yndislegur, svo hugsanlega er þetta eitthvað litað að því. Gamla sófasettið var selt og sótt í gær. Planið hafði verið að koma því út áður en nýji sófinn mætti, svona til þess að forðast óþarfa drama, en það hafðist ekki. Í smá stund var þessi nýji í umbúðunum á staðnum sem gamla settið hafði verið og það gamla í keng úti í horni og hálf dapurt. Það er hins vegar komið á nýtt heimili núna þar sem því er örugglega klappað og klórað á bakinu og dáðst að því þar sem það er ennþá "nýtt" þar.

Aaaallavegnana.

Búin að kaupa og pakka inn öllum jólagjöfum, kortin komin í umslag og út í pósthús og búið að grenja duglega á póststarfsmenn og fólkið í röð á pósthúsinu (annað hvort ég eða Sara sem tók þetta að sér. Okkur finnst báðum leiðinlegt að vera í röð, svo það er hugsanlega erfitt að giska hvor okkar þetta var fyrir fólk sem var ekki á staðnum).

Þá "á eftir" að taka eitthvað til, en ég hef ákveðið að stressa mig ekkert á því. Það voru tvö herbergi shineuð til skrambans síðasta laugardag og aldrei að vita hvort við náum ekki fleirum þessa helgina. Ef ekki, þá felum við bara rykið með meira jólaskrauti og látum eins og það sé ekki til.

Sara er búin að eignast fimm nýja kjóla sem voru keyptir af ömmu hennar og afa í Ammmeríkunni og hún á eftir að verða aldeilis fín á jólunum, þrátt fyrir að vera gubbugrís. Nú eru svo margir kjólar til skiptana að þó hún láti vaða í einn, þá bíða aðrir í röðum, spenntir yfir því að fá tækifæri til þess að vera jólakjólar. Ég fékk líka jólakjól frá Júsa. Magnað hvað þeir eiga mikið flott dót þarna í útlöndunum. Þar sem að þetta er bara einn kjóll, þá er best að ég fari ekkert í hann fyrr en rétt fyrir jólin, þar sem ég er að pissa í mig af spenningi. Ef það yrði slys, þá byggi ég ekki við sama lúxus og dóttir mín.

Engin ummæli: