13.9.09

Ný tölva og nýrri tölva

Það horfir allt til betri vegar hjá okkur í tölvumálum á þessu heimili og bráðum getum við farið að bera höfuðið hátt aftur og ekki skammast okkar fyrir að vera hálf tölvulausir tölvuhvíslarar. Fyrst kom Vimes, sem er desktop tölva og svo núna á föstudaginn bættist við ThinkPad lappi. Ég veit ekki hvað hann heitir ennþá. Ég var fyrst að kveikja á honum núna í morgun, þar sem ég er búin að vera á haus frá því á hádeginu á föstudag í afmælisboðaundirbúningi fyrir nýþrítugan eiginmanninn. Ég hef þó gefið mér tíma til þess að setja upp bleikan desktop bakgrunn, bleikt firefox þema og bleik stýrikerfaþema á milli þess að ég vesenast í almennum uppsetningum.

Ég er að íhuga að taka þessu sem enn einni vísbendingunni um að ég sé orðin fullorðin að ég hafi verið að stússast í að klambra saman kaffiboði fyrir rúmlega tuttugu og matarboði fyrir fjórtán í staðinn fyrir að klóra nýrri tölvu á bak við skjáinn og panta bara pizzur eða eitthvað. Ég hef reyndar alveg lúmskt gaman af svona stússi, þó svo að eftir á að hyggja hafi þetta kannski verið full mikil keyrsla fyrir partýhvalinn sem fer alveg að flokkast sem steypireiður.

Úff hvað það er annars skrítið að nota ThinkPad lyklaborð eftir að hafa vanist Dell lyklaborði eftir að hafa verið kexrugluð á því vegna þess að ég hafði vanist ThinkPad lyklaborði. Fn er ekki á réttum stað og ég er eiginlega viss um að windows takkinn eigi ekki að vera þar sem hann er. Svo veit ég ekki alveg hvað PgUp og PgDn eru að gera þarna niðri.

Engin ummæli: