8.8.09

Pönnsís

Ég vaknaði á undan eiginmanninum eins og reyndar oftast um helgar og ákvað að skella í pönnsur. Það hefur aldrei verið til pönnukökupanna á þessu heimili, svo ég veðjaði á litla Martha Stewart pönnu. Einhvern veginn sá ég það fyrir mér að Martha hefði geta bakað pönnsur með kveikjara og klósettsetu í fangelsinu ef hún vildi, svo hún væri líklegri til árangurs en hefðbundin stálpanna og það reyndist rétt. Ég á reyndar heldur ekki pönnukökuspaða, en spaðinn sem ég nota þegar ég er að wok-a virkaði fínt. Ég upplifði mig svolítið eins og skáta, sérstaklega þar sem að pönnsuuppskriftin var eitthvað skrítin og ég var að bæta hana á milli þess að pönnukökufjallið hækkaði. Þessar efstu, sem voru þær einu sem við borðuðum í þessum umgangi voru með fleirri hráefnum og fullkomnar í áferð og þykkt. Þessar neðstu... tja. Við skulum bara segja að þær hafi haldið uppi staflanum ágætlega. Þær gengdu svolítið sama hlutverki og básúnuleikarar í sinfoníuhljómsveit, en einhverra hluta vegna eru þeir alltaf hafðir aftast þar sem að sést sem minnst í þá.

Annars fórum við á námskeið tvo daga í síðustu viku um allskonar barnseignategndahluti. Allt frá því við hverju kona ætti að búast, hvaða lausnir eru í boði og yfir í að rölta um hreiðrið og skoða aðstöðuna. Ljósan sem hélt námskeiðið var rosalega yndæl. Fyrri daginn var hún að tala um hversu miklu gott mataræði skipti máli og skaut því að okkur að við ættum að halda neyslu á hveiti og sykri í lágmarki. Þann daginn hafði ég borðað skyr, ávexti og grænmeti og drukkið vatn með. Þegar við komum heim fékk ég mér köku til þess að mótmæla. Ha-HA! Hafðu þetta ljósa.

Engin ummæli: