10.6.09

Ég er enginn McGywer

Ég hætti snemma í vinnunni í gær. Eða.. snemm-ish. Svo eyddi ég klukkutíma lokuð inni á baðherbergi heima, svo ég nýtti þennan snemmitíma ansi vel verð ég að segja. Þegar ég kom heim, fór ég beint á klósettið, enda pissa ég meira en fólk gerir almennt þessa dagana. Á sama tíma og ég reyndi að opna hurðina á baðherbeginu, heyrði ég útidyrahurðina lokast þar sem að Einar var að fara í einhverjar útréttingar. Hurðahúnninn fór upp og niður, en það gerðist ekkert. Ég var ekki alveg að nenna að hanga þarna inni þangað til að Einar kæmi heim aftur, svo ég byrjaði á því að reyna að taka hurðina af hjörunum. Ég gat það með engu móti, því hún liggur svo nálægt gólfinu. Þá náði ég mér í flísatöng og hófst handa við að taka hurðahúninn í sundur. Eftir lengri tíma tókst mér að ná hlífinni hans af og við blöstu tvær stjörnuskrúfur. Ég stakk flísatönginni inn í aðra og byrjaði að skrúfa. Eftir eitthvað hnoð varð mér það ljóst að ef ég héldi svona áfram myndi ég bara eyðileggja skrúfuna, svo ég varð að játa mig sigraða.

Í smá stund íhugaði ég að skríða út um gluggann og láta mig síga niður, en ákvað að óléttar konur ættu ekki að vera að klifra uppi á þaki og ég vissi heldur ekki hvort ég væri mikið betur sett að vera læst úti en inni.

Á meðan ég sat á baðbrúninni og beið eftir eiginmanninum, gerði ég mér grein fyrir því að þetta er besta herbergið í húsinu til þess að lokast inni á. Ég gat t.d. pissað tvisvar sinnum í viðbót sem hefði verið ómögulegt eða subbulegt ef ég hefði verið annarsstaðar. Ég hefði líka geta skellt mér í bað hefði ég verið með burstann minn í sama herbergi og ég gat fengið mér vatn að súpa.

Það versta við þetta var að síðustu vikur hef ég orðið alveg rosalega svöng í kringum kl. 15-16. Alveg svona "ómægodéghefekkiborðaðímörgár" svöng og þá þarf ég að komast í mat sem fyrst. Þetta var því smá kapphlaup við tímann að Einarinn myndi koma heim áður en maginn á mér færi að melta sjálfan sig innan frá. Þetta var sérstaklega slæmt því að við höfðum stoppað í búð og ég vissi af djúsí mat sem ég hafði keypt mér alveg bíðandi eftir mér niðri í eldhúsi.

Klukkutíma seinna kom Einar með teppaleggimann meðferðis (í þessu tilfelli í hlutverki stigamælingamanns). Hann hleypti mér út og ég þusti framhjá þeim báðum og fór að háma í mig mat eins og enginn væri morgundagurinn.

Svo lagaði ég hurðahúninn og við keyptum emergency skrúfjárn til að geyma inni á baðherbergi ef þetta gerist aftur. Aðalega vegna þess að matur geymist verr en skrúfjárn.

Engin ummæli: