31.5.09

Svalasti fugl í heimi!

Var að horfa á þennan Q.I. þátt á föstudaginn og bara gat ekki gleymt þessum fugl.

28.5.09

Mér líður svo illa að ég gæti ælt

Hey bíddu.. Búin að því! Þrisvar!

Ljósan sagði mér að þetta væri örugglega bara magapest. Ég hef ekki verið lasin í mörg ár, svo ég veit ekkert hvað er eðlilegt í svona málum. Ég veit bara að mér líður voooooðalega ömurlega. Kannski ber ég mig meira aumlega en fólk sem er alltaf lasið... eða ég sé einmitt harðari af mér því ég verði aldrei lasin og núna hefur einhver ofurskrambi ráðist á mig. Kveisa sem allar ofurhetjurnar gætu barist við í einu og nokkrar fallið í átökunum því hún er svo ofur. Blööööö

24.5.09

Prjón

Ég prjóna og prjóna. Eftir að hafa rekið allt upp fjórum sinnum og byrjað upp á nýtt, er ég loksins komin með 14 cm af prjóni skal ég segja ykkur og það er munstur og allt! Nú vantar ekki nema 9 cm upp á til þess að ég sé komin með 1/2 pilsahlutann á kjól fyrir 0-6 mánaða. Eh. Ókay, þetta gengur ekki hratt, en þessu miðar þó áfram.

Ég er mikið búin að prjóna og hlusta á ipodinn minn og svo í dag prjónaði ég í félagsskap tveggja prjónara, þar af annars sótbölvandi yfir prjónaleiðbeiningum upp úr bókum og blöðum, eða skorti þar á

20.5.09

Nammi hvað þetta er góður föstvikudagur

Það gerir konu svo gott að fá auka frídag inni í miðri viku. Auðvitað er auðveldara að blóta honum eins og hann væri mörgæs fyrst að hann ber upp á fimmtudegi, því að þá er hann svo nálægt heginni en samt enginn teningur.

Föstðjudagur væri líka ágætur. Hafa frí á miðvikudegi sem er svo asskoti miðsvæðis að kona veit aldrei hvar hún hefur hann. Hann getur verið með mánudegi í liði eða föstudegi eftir því í hvernig stuði hann er.

19.5.09

Móðureðlið

Skyndilega er ég gripin einhverri gríðarlegri löngun til þess að prjóna. Ég er ekki góð í því að prjóna. Í grunnskóla skvetti handavinnukennarinn vígðu vatni á verkefnin mín og lokaði sig svo inni og grét yfir garninu sem þurfti að deyja fyrir óskapnaðinn.

Núna finn ég hjá mér einhverja brjálæðislega þörf til þess að prjóna lítinn kjól eða eitthvað fyrir Litlumon Bænarí sem býr í bumbunni. Ég veit ekki hvort ég ætti að láta reyna á þetta, eða hvort að barnavernd myndi banka upp á hjá mér súr á svipinn yfir því að ætla mér að þræla saklausu barninu í garnaflækjuna.

Ég gef þessu kannski viku til þess að gerjast og sé svo til.

17.5.09

Fíntfínt

Bestu mögulegu úrslit sem Ísland gat fengið úr Eurovision keppninni. Æsispennandi keppni um annað sætið. Flestir eru að velta sér upp úr því hvernig Eurovision sigur gæti sett þjóðina og RÚV enn meira á hausinn. Persónulega er ég ánægð að geta hneykslast á asnalegum kynnum og skemmtiatriðum að ári í stað þess að skammast mín persónulega!

14.5.09

Hefur einhver reynt að selja heitar lummur nýlega?

Ef svo er, hvernig gekk salan? Hvað var verðið á þeim? Ég þarf að vita þetta svo ég geri mér grein fyrir því hvernig á að túlka máltakið "seldist eins og heitar lummur" í nútíma samfélagi.

13.5.09

Bumbó

Bumbuleikfiminámskeiðið mitt var búið, svo ég ákvað að prufa bumbusund. Ég fór í fyrsta bumbusundtímann áðan. Talsvert minni átök en í leikfiminni, en mér lýst bara vel á þetta. Þetta var svolítið eins og saumaklúbbur og það var hægt að blaðra meira og minna allan tímann, sem kona kemst ekki upp með í hinu dótinu. Það er heldur bara ekkert um sund í bumbusundi. Þetta er meira bara vatnsleikfimi. Allavega er óléttum konum ekki vísað út í yfirborðsfrosna laug, haglél og 30 metra á sekúntu á meðan að bumbusundkennarinn situr inni í húsi í kraftgalla og drekkur kaffi og horfir þungbrýndur á út um gluggann. Þannig var alltaf skólasundið í minningunni.

10.5.09

Nudd

Einar sinn gaf mér nudd og heimsókn í baðstofuna á Laugum í sumargjöf. Ég ákvað að taka hann bara með mér líka og við skelltum okkur í gær. Ég fékk nuddbekk með gati fyrir bumbuna og það var alveg þvílíkt fínt. Þetta var fyrsta skiptið í nokkra mánuði sem ég ligg á mallanum. Ég bað nuddkvendið um að taka bara almennilega á því, svo ég gekk í gegnum sárar kvalir meira og minna í 60 mínútur. Núna er ég með nuddharðsperrur allstaðar, en ég veit að bráðum á mér eftir að líða þvílíkt vel í líkamanum.

7.5.09

Arnold og Heidi

Það er fyndið að Heidi Klum og Arnold Schwarzenegger séu með sama hreiminn, fyrst að hjá Heidi sé hann rosalega krúttlegur, en hjá Arnold sé hann líklega ein af ástæðunum fyrir því að hann buffaði sig svona mikið upp (svo enginn þorði að gera grín að honum).

4.5.09

Það er alltaf verið að sparka í mig

og hugsanlega líka kýla og/eða skalla. Allt saman í bumbuna. Innan frá. Merkilegt að hafa gaman að því að vera beitt svona ofbeldi.

3.5.09

Ég var í Búdapest

Kom aftur heim rétt áðan. Alveg algjör snilldar ferð sem og borg. Þar var 24°C hiti og sól og öll trén löngu komin í blóma. Það var reyndar ekki það besta við borgina, en það hjálpaði alveg til. Núna er mér svolítið kalt og mér finnst trén svolítið berössuð.