4.4.09

Blómaval er ljót lygafyrirtæki! LJÓTT!

Blómó er meira ljóta glæpafyrirtækið. Við sáum þessa auglýsingu hérna hægra megin í Fréttablaðinu og ákváðum að gera okkur ferð í Blómaval og kaupa páskaliljur í potti á línuna. Við fundum fljótlega skilti með sama texta og við stafla af blómapottum og hafsjó af páskaliljum. Eftir að hafa valið þrjár sem okkur leist best á strunsuðum við á kassann til að greiða fyrir skrambann, enda áttum við að vera mætt í lönsj til mömmu og pabba eftir svona eins og 10 mínútur.

Afgreiðslustúlkan bíbbaði þetta allt inn í kerfið og ætlaði svo að rukka okkur rúmega þrjúþúsundkall fyrir þetta. Ég hélt nú ekki, enda stóð þetta bæði á skilti í búðinni og í auglýsingu að þetta ætti að kosta 399 kr. stykkið. Stelpan sagðist ætla að skoða þetta mál betur og eftir að hafa tekið sér ágætis tíma til þess að tala um vaktaskipulag dagsins við nágrannakassaþrælinn var hún röltandi af stað á slíkum hraða að þrífætt skjaldbaka hefði átt ferlega erfitt með að hada í við hana á slæmum degi. Þegar hún kom til baka tjáði hún okkur að tilboðið næði bara til páskaliljanna og potturinn fylgdi ekki með. Þegar ég sagði "ójúvíst" og potaði í textann á auglýsingunni, þá benti hún mér á smáaletrið sem segir "pottahíf fylgir ekki með". Auglýsingin átti sem sagt við páskaliljuna sjálfa í venjulega brúna plasthólknum sem kemur í veg fyrir að það sé mold og páskaliljulík út um öll gólf. Blómaval endurskýrði því blómapotta (a.k.a. "potta") "pottahlífar" fyrir sakir þessarar auglýsingar, því að það meikar sense í einhverjum viðbjóðslegum samhliða heimi þar sem er í lagi að plata fólk.

Á þessum tímapunkti var ég orðin fokreiða ólétta konan og gerði mig líklega til þess að hakka í mig blásaklausa tyggjójórtrandi kassastelpuna eða vaktstjóragreyjið sem hafði örugglega ekkert með þessa auglýsingu að gera, þó svo að ég megi ekki borða hrátt kjöt. Tíminn var með þeim í liði, því við vorum að verða of sein í matinn. Á meðan að þau sauð í mér yfir því að hafa verið dobbluð svona í að gera mér ferð í glæpafyrirtækið til þess að kaupa eitthvað á kostakjörum sem hafi aldrei í boði, gerði ég mér grein fyrir því að hefði ég frekjast í vaktstjóranum hefði ég eflaust fengið pottinn með á sama verði, en enginn annar.

Við ákváðum því að beina viðskiptum okkar annað og keyptum páskaliljur í fyrirtæki sem hafði ekki reynt að plata okkur.

Engin ummæli: