28.4.09

Ég held að ég sé að borga fólki fyrir að reyna að drepa mig

Það var að renna upp fyrir mér ljós. Það rennir stoðum undir kenningu mína að ég get varla vélritað ég er svo búin í höndunum, svo ég á víst ekki að geta komið þessum skilaboðum á framfæri. Ég ætla samt að harka af mér svo þið vitið hvað hefur gerst ef ég læt aldrei sjá mig hérna aftur.

Á meðan að eiginmaðurinn þverneitar að láta mig halda á innkaupapokunum er bumbuleikfimisþjálfarinn að channela herþjálfara sem er ný hættur að reykja og klægjar geðveikt á milli herðablaðana, akkúrat þar sem hann nær ekki til. Ég held ég verði harðsperruð á morgun. Og hinn. Kannski eiga lóð eftir að ofsækja mig í draumi.

27.4.09

Nýr bíll? Sama Óskin!

Veii nýji fíni bíllinn okkar. Hann heitir Baldur og er jeppi (gáfað fólk hefur sagt mér að ef hann hafi sér hátt og lágt drif sé hann jeppi en ekki jepplingur. Mér finnst jepplingur vera sætt orð eins og kettlingur). Hann hefur fullt af plássi fyrir barnavagn og allskonar í skottinu, sem var ástæðan fyrir því að við fórum út í þessa fjárfestingu, en Blávi hafði pláss af skornum skammti.

Þetta er lang fínasti bíll sem ég hef nokkurn tímann átt. Hann er líka lúxusútgáfa er mér sagt og hefur dráttakúlu sem er "destroyer of cars" ef aðrir bílar klessa aftan á hann. Svo er hann svartur eins og Svarthöfði og svo er hann töffari. Eins og Fonzie.

25.4.09

Kaus

Ég er ekki ánægð með það sem ég kaus, en ef við lítum á "björtu hliðina", þá var ég ennþá óánægðari með allt hitt. Nú hef ég kosið í þremur alþingiskosningum og aldrei kosið sama flokkinn.

24.4.09

Ætti að vera inntökupróf á internetið?

Það er alveg spurning. Núna virðist vera að hverjum sem er sé hleypt þangað.

Kosningar á morgun

Skrambansskrambi. Þetta væri miklu einfaldara ef einhver af þessum flokkum væri góður kostur.

23.4.09

Update

Appelsínuflysjarar = Appelsínuflysjarar + 4; //Veiiiiiii
Geðveiki = Geðveiki + Helvítis drullu Smáralind á háannatíma //ÖSKR
Bumba = Bumba + TGI's Fridays sumardagsdekurmatur; //Noooom
Sumargjafir = 0 + Dekur og 60 mín nudd á Baðstofunni á Laugum frá eiginmanninum // eeelsk

Appelsínuopnunartæki/skrælarar - Rauði steinninn?

Síðasta laugardag hætti ég mér í Smáralindina. Mér finnst ekki gaman að fara í verslunarmiðstöðvar, en ég hef sérstaklega gaman að cheapo draslbúðum sem selja hluti sem kosta 200 kall og eru eins svalir og Fonzie í allavega einn klukkutíma áður en þeir eyðileggjast eða kona fær leið á þeim.

Ég rölti inn í Megastore (sem er by the way talsvert meiri verslun en aðrar cheapo draslbúðir. Allskonar fínerí þar) og sá þar appelsínuskælara. Ég var svo glöð að ég skríkti og greip strax einn pakka úr hillunni. Það var þá sem ég tók eftir því að það voru fjórir appelsínuopnarar í pakkanum. Hvernig meikar það sense? Það þarf bara einn. Til hvers eru hinir? Ég var helltekin af vantrausti og skilaði græjunum aftur í hilluna. Síðan þá, hef ég látið mér dreyma um appelsínuskrælarana. Þegar ég hef opnað appelsínu með höndunum og orðið öll appelsínufíluð eftir hýðið hef ég látið hugann reika aftur í Megastore til skrælarans. Ég hef í huganum úthlutað hverju og einu af þessum fjórum eintökum sínum eiginn stað. Ég get farið með einn í vinnuna, geymt einn heima, haft einn í uppþvottavélinni á meðan hinn er í notkun og ... einn í bankahólfi? Eða sent Einar með hann í vinnunna. Okay, ég er ekki með smáatriðin á hreinu. Eitt er víst og það er að ég ætla að kaupa slíka græju við fyrsta tækifæri. Ég vona bara að þetta verði ekki eins og rauði steinninn....

Minn glitrandi skrælari, hví greip ég þig ei
úr hillunni höndum tveimur?

Sumar

Svo sem ekkert brjálæðislega hlýtt, en það *er* frí, þannig að yfir allt myndi ég segja að þetta sé fínt!

19.4.09

Ógeðslegt skrímsli

Ég var að búa til hummus. Á miðvikudaginn fórum við í Bónus og ég sleppti mér algjörlega, enda loksins farin að geta borðað venjulegan mat aftur. Eitt af því sem ég beit í mig að ég vildi endilega borða var hummus, svo ég keypti kjúklingabaunir. Ég átti alltaf eftir að kaupa tahini, þar sem að það var ekki til í Bónus, en ég var búin að tilkynna eiginmanninum það formlega að hummusgerð myndi hefjast fljótlega.

Þetta sló eitthvað saman í hausnum á honum og nú heldur samstarfsfólkið hans að ég sé ógeðslegt skrímsli sem býr til haggis. Það er reyndar alveg spurning að spila inn á þetta. Mæta í skotapilsi á árshátíðir og tala um góða sekkjapípuleikara í svona handahófskenndu spjalli. Ég held að það gæti verið skemmtilegt...

15.4.09

Afmæli

Ég gleymdi! Ég átti sjö ára póskafmæli á sunnudaginn. Vá. Bráðum verður póskið mitt nógu gamalt til þess að horfa á Batman I!

Já. Ég er það!

Einar er að horfa á fóbjóð. Ég hristi púðann undir hausnum hans og sagði: "JARÐSKJÁLFTIIIII!!" og hló eins og skepna. "Ertu svolítið fyndin?" spurði hann mig og brosti. Heheh. "Já. Ég er það!" sagði Óskin. Þetta fékk mig til þess að hugsa að það væri bara alveg satt og ég hló ennþá meira.

Ekkert smá heppið barn sem kemur til okkar í haust. Ekki bara er ég með allar mælingar á blóðinu mínu rosa fínar (og miðað við að það voru tekin SJÖ friggin' glös úr mér til þess að prófa allan skrambann, þá meina ég ALLAR mælingar. Í heiminum. Verst að þegar ég segi "í blóðinu mínu", að það hafi allt verið tekið og það sé örugglega ekki einn dropi eftir og það er einhver vampíra sem vinnur sem meinatæknir sem liggur ennþá afvelta) blóðþrýstingurinn í góðum málum og bara allt sem hægt er að mæla, hlusta eða skoða virki eins og best verði á kosið... heldur er ég líka alveg rosalega fyndin.

14.4.09

Ah, blessaðir vöðvarnir

Svona var tilfinningin þegar ég var búin að ganga frá þeim með lóðum. Ég var næstum því búin að gleyma.

10.4.09

Póskar

Annar laugardagurinn í röð og tveir eftir. Ég er orðin alveg kexrugluð á þessu og veit ekkert hvaða dagur er lengur. Ég er ekki að kvarta samt. Mér finnst voðalega fínt að fá svona langt frí. Ég var meira að segja uppi í sumargústaf stærstan hluta dagsins, svo ég steingleymdi því að skammast mín fyrir að hafa drepið Jesú.

8.4.09

Fyrsta páskaeggið sem ég bjó tilVúhú. Dugleg. Sést reyndar ekki páskaunginn sem ég bjó til úr hvítu súkkulaði á þessari mynd. Kannski er það bara ágætt.

7.4.09

Fínfín endorfín!

Hreyfði á mér rassinn í fyrsta skiptið í svona ár. Okay, ekki ár, en mér líður eins og það sé ár. Rúmlega tvo mánuði! Þetta var bara ferlega erfitt og ég á eftir að vera með harðsperrur allstaðar á morgun. Mmmm æði. Ég hlakka til!

4.4.09

Blómaval er ljót lygafyrirtæki! LJÓTT!

Blómó er meira ljóta glæpafyrirtækið. Við sáum þessa auglýsingu hérna hægra megin í Fréttablaðinu og ákváðum að gera okkur ferð í Blómaval og kaupa páskaliljur í potti á línuna. Við fundum fljótlega skilti með sama texta og við stafla af blómapottum og hafsjó af páskaliljum. Eftir að hafa valið þrjár sem okkur leist best á strunsuðum við á kassann til að greiða fyrir skrambann, enda áttum við að vera mætt í lönsj til mömmu og pabba eftir svona eins og 10 mínútur.

Afgreiðslustúlkan bíbbaði þetta allt inn í kerfið og ætlaði svo að rukka okkur rúmega þrjúþúsundkall fyrir þetta. Ég hélt nú ekki, enda stóð þetta bæði á skilti í búðinni og í auglýsingu að þetta ætti að kosta 399 kr. stykkið. Stelpan sagðist ætla að skoða þetta mál betur og eftir að hafa tekið sér ágætis tíma til þess að tala um vaktaskipulag dagsins við nágrannakassaþrælinn var hún röltandi af stað á slíkum hraða að þrífætt skjaldbaka hefði átt ferlega erfitt með að hada í við hana á slæmum degi. Þegar hún kom til baka tjáði hún okkur að tilboðið næði bara til páskaliljanna og potturinn fylgdi ekki með. Þegar ég sagði "ójúvíst" og potaði í textann á auglýsingunni, þá benti hún mér á smáaletrið sem segir "pottahíf fylgir ekki með". Auglýsingin átti sem sagt við páskaliljuna sjálfa í venjulega brúna plasthólknum sem kemur í veg fyrir að það sé mold og páskaliljulík út um öll gólf. Blómaval endurskýrði því blómapotta (a.k.a. "potta") "pottahlífar" fyrir sakir þessarar auglýsingar, því að það meikar sense í einhverjum viðbjóðslegum samhliða heimi þar sem er í lagi að plata fólk.

Á þessum tímapunkti var ég orðin fokreiða ólétta konan og gerði mig líklega til þess að hakka í mig blásaklausa tyggjójórtrandi kassastelpuna eða vaktstjóragreyjið sem hafði örugglega ekkert með þessa auglýsingu að gera, þó svo að ég megi ekki borða hrátt kjöt. Tíminn var með þeim í liði, því við vorum að verða of sein í matinn. Á meðan að þau sauð í mér yfir því að hafa verið dobbluð svona í að gera mér ferð í glæpafyrirtækið til þess að kaupa eitthvað á kostakjörum sem hafi aldrei í boði, gerði ég mér grein fyrir því að hefði ég frekjast í vaktstjóranum hefði ég eflaust fengið pottinn með á sama verði, en enginn annar.

Við ákváðum því að beina viðskiptum okkar annað og keyptum páskaliljur í fyrirtæki sem hafði ekki reynt að plata okkur.