31.3.09

Asnalegt pommelopartý

Í gær rákumst við Einar á ávöxt úti í búð sem heitir pommelo. Hann var með gulu hýði og var um það bil á stærð við melónu. Pommeloið var plastað og í neti, svo það leit út eins og þarna fyrir innan væri brjálað óargadýr sem væri verið að reyna að halda í skefjum. Okkur fannst þetta svo fyndið að við ákváðum að skella okkur á eitt stykki pommelo og halda pommelopartý.

Í kvöld ákváðum við að vinda okkur í partýið. Eftir að hafa spáð í það hvernig það væri á litinn eftir að það væri búið að skera það, sótti ég voldugan hníf og skar kvikyndið í tvennt. Við urðum fyrir talsverðum vonbrigðum þegar við sáum að þetta var bara eins og stórt, gult grape. Eftir að hafa skorið annan helminginn aftur í tvennt afhýddi ég og skar pommelohlutann niður í pommelobita.

Við skulum bara orða það þannig að það besta við þennan ávöxt er nafnið á honum. Hann endaði allur, fyrir utan þessa tvo bita, í pommelohrúgu í ruslinu. Urrrrrr.

Æi vonandi að einhver hirngi í Einar næstu mínúturnar!

Einar fór í bað og bað (haha.. baðbað. Gott stöff) mig um að passa símann sinn. Hann sagði mér að ef einhver hringdi ætti ég að segja viðkomandi að fara í rassgat. Mikið voðalega langar mig að einhver hringi svo ég geti sagt honum að Einar hafi sagt honum að fara í rassgat. Komasvo.

Bumbuleikfimi

Ég fór í kynningatíma fyrir bumbuleikfimi í gær. Mér lýst voðalega vel á þetta. Það var tekinn blóðþrýstingurinn hjá mér, en það verður fylgst með honum í gegnum þetta allt saman. Svo fengum við allskonar ráðleggingar um allan skrambann og það mátti spyrja bara allra þeirra spurninga um mataræði, líkamsrækt, cravings, líkamsstöðu og annað óléttutengt sem hægt var að láta sér detta í hug. Þær taka meira að segja við matardagbókum ef einhver hefur áhyggjur á því að vera ekki að fá næg vítamín eða að vera ekki að borða rétt. Mér finnst það alveg ferlega sniðugt að hafa hjúkrunarfræðinga, einkaþjálfara og aerobic kennara í sömu manneskjunum. Núna get ég bara ekki beðið eftir því að fara að hreyfa á mér rassgatið, enda alveg að mygla á því að liggja uppi í sófa og eiga bágt.

25.3.09

Eins og naggrís í fötum!

Áðan sáum við raðgreiðslurottu í íslenskri lopapeysu. Mér fannst það svo fyndið að ég hló eins og Gilitrutt. Ég skil ekki alveg af hverju fólk fær sér hunda sem eru ekki hundar, heldur meira geltandi naggrísir. Þeir þora ekki að hoppa niður af pínulitlum stólum eða neitt og eru stressaðari en flugumferðastjóri eftir 24 tíma vakt og tvo lítra af espresso. Ekki nóg með það, heldur eru þessir hundar ekki gallaðir upp í íslenskt veðurfar fyrst það þarf að peysa greyjin fyrir labbitúra.

Híhíhíh

21.3.09

Laugardagsteiknimyndir á RÚV

Ég horfi á þær á hverjum laugardegi, þar sem að eiginmaðurinn er duglegri að sofa út en ég og vegna þess að mér finnst teiknimyndir skemmtilegar. Eftir ágætis úttekt hef ég hins vegar komist að því að þessar eru hins vegar ekkert svo frábærar. Ég kann ekki við að fá mér Stöð 2 bara fyrir laugardagsteiknimyndirnar. Ég þarf eiginlega að finna eitthvað út úr þessu.

16.3.09

Who watches the Watchmen?

Við Einar og Vala og Natti. Allavega skelltum við okkur á The Watchmen á laugardaginn. Hún var rosalega fín. Ég held að þetta sé dýpsta ofurhetjumynd í heimi. Hún er líka svo brútal að Steven Segal, sem brýtur hendur með þeim bestu, hefði örugglega kjökrað eins og smástelpa yfir handabrotsatriðunum í henni þessari.

Ég dauðvorkenndi fólkinu sem ákvað að það væri góð hugmynd að fara með krakkana sína að sjá þetta. Þau sátu örugglega skjálfandi á rauðu bíósessunum sínum yfir þessu öllu saman.

14.3.09

Fóbjóður

Ég faldi mig heima hjá mömmu og pabba, borðaði hádegismat og gerði páskaeggjasúkkulaðitilraunir með þeim. Svo hætti ég mér heim þegar "leikurinn" var í þann mund að klárast. "Harróóó!", sagði ég þegar ég gekk inn um dyrnar. Það heilsaði mér sérstaklega gleðilegt "Hæ!" svo ég vissi að það yrði búandi með eiginmanninum það sem eftir væri dagsins. Tóm gleði og hamingja!

10.3.09

Eitthvað rangt við þessa myndEruð þið búin að spotta þetta? Já, kúin lengst til vinstri er ekki með í hópnum. Það er rangt að skilja útundan!

Ég var gerð af Leeds-ara gegn vilja mínum!

Fyrir tveimur vikum síðan var mér tilkynnt af tveimur samstarfsmönnum mínum að ég væri orðin Leedsari. Sama hvað ég maldaði í móinn, kom allt fyrir ekki. Þegar ég sagði að mér þætti fótbolti leiðinlegur og ég vildi ekki horfa á hann var mér sagt að þetta væri alveg tilvalið, þar sem að Leeds væri í svo lélegri deild að þeir væru eiginlega aldrei í sjónvarpinu.

Þegar ég sagði Einari frá þessu, þá íhugaði hann að vísa þessu fyrir mannréttindadómstól Sameinuðuþjóðanna.

Ég virðist meira að segja vera lent á einhverjum Leeds póstlista í vinnunni, þar sem aðrir sem hafa líklega verið gerðir af Leedsörum eins og ég spá í leiki.

Hvað get ég eiginlega gert til þess að af Leedsa mig? Er ekki til einhver athöfn með úðabrúsa fullum af vígðu vatni og geitablóði eða eitthvað?

8.3.09

Eitthvað

Mig langar í eitthvað dótarí. Sem er með gorma og tannhjól inni í sér og segir eitthvað eins og svríííínghh þegar það er notað í þann tilgang sem það var hannað í. Ég veit ekki hvaða eitthvað þetta er. Kannski svona bíla og bílabraut. Eða tæknilegó sem er hægt að byggja flotta hluti úr. Legó fyrir fólk sem er orðið fullorðið og getur beislað kraft þessa rosalega tannhjóla og gorma legós sem segir eitthvað eins og svríííínghh þegar það hefur verið sett saman á viðeigandi hátt.