30.12.09

Blogger comment

Haloscan er búið að gefast upp á að bjóða upp á ókeypis komment. Ég á eftir að sakna þeirra. Ég plöggaði blogger kommentunum í samband í staðinn for good measure.

29.12.09

Er það virkilega?

Ég var að setja alla íhlutina fyrir nýju matvinnsluvélina sem ÉG (okay.. líka Einar og Sara. En samt aðalega ég!) fékk í jólagjöf í uppþvottavélina. Þegar ég var að taka pokana utan af flugbeittum hnífum rak ég augun í texta á þeim. "This bag is not a toy". Ég passa mig þá að fjarlægja pokann af hnífnum áður en ég rétti barninu þá....

18.12.09

Jákvæðinikast

Á meðan ég skrifa þetta pósk, sit ég í nýja sófanum okkar sem er yndislegur, svo hugsanlega er þetta eitthvað litað að því. Gamla sófasettið var selt og sótt í gær. Planið hafði verið að koma því út áður en nýji sófinn mætti, svona til þess að forðast óþarfa drama, en það hafðist ekki. Í smá stund var þessi nýji í umbúðunum á staðnum sem gamla settið hafði verið og það gamla í keng úti í horni og hálf dapurt. Það er hins vegar komið á nýtt heimili núna þar sem því er örugglega klappað og klórað á bakinu og dáðst að því þar sem það er ennþá "nýtt" þar.

Aaaallavegnana.

Búin að kaupa og pakka inn öllum jólagjöfum, kortin komin í umslag og út í pósthús og búið að grenja duglega á póststarfsmenn og fólkið í röð á pósthúsinu (annað hvort ég eða Sara sem tók þetta að sér. Okkur finnst báðum leiðinlegt að vera í röð, svo það er hugsanlega erfitt að giska hvor okkar þetta var fyrir fólk sem var ekki á staðnum).

Þá "á eftir" að taka eitthvað til, en ég hef ákveðið að stressa mig ekkert á því. Það voru tvö herbergi shineuð til skrambans síðasta laugardag og aldrei að vita hvort við náum ekki fleirum þessa helgina. Ef ekki, þá felum við bara rykið með meira jólaskrauti og látum eins og það sé ekki til.

Sara er búin að eignast fimm nýja kjóla sem voru keyptir af ömmu hennar og afa í Ammmeríkunni og hún á eftir að verða aldeilis fín á jólunum, þrátt fyrir að vera gubbugrís. Nú eru svo margir kjólar til skiptana að þó hún láti vaða í einn, þá bíða aðrir í röðum, spenntir yfir því að fá tækifæri til þess að vera jólakjólar. Ég fékk líka jólakjól frá Júsa. Magnað hvað þeir eiga mikið flott dót þarna í útlöndunum. Þar sem að þetta er bara einn kjóll, þá er best að ég fari ekkert í hann fyrr en rétt fyrir jólin, þar sem ég er að pissa í mig af spenningi. Ef það yrði slys, þá byggi ég ekki við sama lúxus og dóttir mín.

14.12.09

Jazzhands

Ég cat-confuseaði skottið alveg upp úr skónum. Hún var að væla eitthvað og ég stillti mér upp fyrir framan hana og dansaði eins og brjálæðingur með klassís eins og þumlana upp í loftið, kafarann og að sparka fótunum fyrir ofan haus. Hún snarhætti og fór að skellihlægja. Stuttu eftir að ég hafði endað dansinn á brjáluðum jazzhands setti hún í brýrnar og fljótlega fór hún að garga af reiði og var alveg óhuggandi. Ég er að spá í að skutla henni frekar út í vagn samt en að dansa fyrir hana í allan dag. Mér að kenna fyrir að vera svona góður dansari!

5.12.09

Gufubað

Það kemur fimbulvetur. Naglfari undirbúinn til brottfarar í Hel. Ofnanir tjúnaðir upp úr öllu valdi í höllinni.

Það hlýnar all svakalega. Höllin breytist í gufubað og ég sit hérna alveg mökksveitt með Söru sem er að fá sér morgunmatinn sinn og þoldi enga bið.

Getur veðrið ekki ákveðið sig?

3.12.09

Í kjölfar jólalagaáhlustunar..

Mér þykir sagan af henni Rúdólf (bara kvenkyns hreindýr eru með horn á jólunum, svo öll hreindýr jólasveinssins eru kvenkyns) vera asnaleg. Hvað á þetta að kenna krökkum? Rúdólf er löggð í einelti og skilin útundan þangað til að hún verður fræg og þá vilja öll hin hreindýrin hanga með henni. Ég skil bara ekkert hvað Rúdólf ætti að vilja púkka upp á þennan skríl. Mér finnst að hún ætti bara að spila vist og borða piparkökur með jólasveininum...

Video killed the radio star

..og facebook drap blogg og pósk. Eins og mér tókst aldrei að elska twitter, þá eru facebook status-update svo asskoti handhæg. Kannski er það líka því mér finnst ég ekki hafa neitt merkilegt að segja lengur, eða að minnsta kosti ekki hluti sem engir nema dyggustu aðdáendur Söru litlu hefðu gaman að. Ég stóð mig líka að því í vikuni að byrja að linka á flickr myndir þar frekar en hér - for shame.

Ég er by the way í smá krísu. Ég gæti alveg gubbað á fólk sem talar um lítil börn sem "prinsa" og "prinsessur". Krísan er sem sagt sú, að nú hef ég verið drottning (þessa léns) í fleiri ár og dætur drottninga eru gjarnan... Úff. Ég get ekki hugsað þessa hugsun til enda.

Skipti um umræðuefni einntveirogmandarína á svo lipran og léttan máta að enginn tekur eftir því, ekki einu sinni Sherlock Holmes eða Monk. Ég er sem sagt farin að jólast eins og enginn sé morgundagurinn. Ég er farin að innbyrgða talsvert meira en ráðlaggðan dagsskammt af jólalögum og húsið okkar er þakið aðventuskrauti, en það er einimtt skrautið sem kemur á aðventunni. Á Þorláksmessu kemur svo restin af jólaksrautinu og jólatréð - annað er villimennska. Aðventuelgurinn minn er þessu alveg sammála og ég er ekki frá því að aðventuelgar ættu að vita hvað þeir baula í þessum efnum. Baula ekki annars elgar? Hvaða hljóð gefa elgar frá sér?

9.11.09

Sara Einarsdóttir

Litlamon var skírð á laugardaginn. Hún heitir Sara. Þetta var aldeilis fín veisla og hún fékk fullt af góðum gjöfum. Eftir að hafa öskrað sig hása í næstum hálftíma áður en skírnin byrjaði og ég hafi verið farin að sjá fyrir að barnið sem aldrei grætur á daginn yrði hágrátandi í eigin skírn og að presturinn yrði að garga yfir hana til þess að í honum heyrðist sofnað hún. Hún svaf svo í gegnum alla skírnina og alla veisluna og því algjörlega grunlaus að hún væri látin ganga manna á milli. Ég held að það hafi aldrei liðið svona langur tími á daginn án þess að ég hafi haldið á barninu.

Annars er ég farin að hlakka svo til jólana að ég gæti pissað í mig. Gæti það sko, en ég ætla það ekki. Hmm, annars þegar ég hugsa um það gæti ég alltaf pissað í mig, en kýs að gera það ekki. Af hverju ætti kona að vera líklegri til þess að pissa í sig þegar hún hefur einhvers til að hlakka til?

3.11.09

Líkurnar sögðu alltaf að ég yrði leiðinleg..

Ég bjóst aldrei við öðru en að ég yrði leiðinleg eins og allt annað fólk sem er ný búið að eignast börn. Þegar lífið hjá mér snýr alfarið um að hugsa um krílið er ekki hægt að láta það koma sér að óvart að það sé c.a. það eina sem ég tali um. Það er ekki eins og ég hafi séð eitthvað magnað á göngutúr mínum um Elliðarárdalinn í dag. Hey jú! Chi hua hua hundur í lopapeysu. Hahah. Úff. Annað hvort er þetta sama raðgreiðslurottan og ég sá fyrir utan Krónuna um daginn, eða það er til her af þeim einhverstaðar. Eins og storm trooperar, nema þessir eiga ekki geislabyssur heldur ætla að drepa þig með því að jappa þig til dauða. Jappjappjappjapp! Eins og squeeky toy.

Svo las ég líka að fólk missti 10% af greindavísitölunni sinni við að eignast barn (Jájá... þetta er ekki í samhengi , en bíttu í þig! Ég hef alltaf haft athyglisspan á við tveggja ára..). Ég er búin að vera að berjast við að halda í þessi 10% með því að spila sudoku, en ég efast um að það sé nóg.

Já. Allavegana! Ástæðan fyrir því að ég byrjaði að blaðra um að ég væri leiðinleg var vegna þess að ég fann mig knúna til þess að tala um skírnartegndahluti, en Litlamon verður skírð á laugardaginn. Ég var með tvær nafnareglur. Sú fyrsta var að það þyrfti að fallbeygja nafnið í öllum föllum til þess að koma í veg fyrir eitthvað eins og Egill Daði (Egils Daða) eða þaðan af verra. Sko.. ekki það að Egill hefði nokkurntímann komið til greina sem nafn á Litlumon, en bróðir minn hefur stungið upp á Daði Einarsdóttir.

Hin reglan er sú að það verður að máta "hæstvirtur forseti [insert nafn]". Ég er ekki að segja að barnið verði að verða forseti.. Ég er bara að segja að ef fleiri hefðu notað þessa reglu, þá væru ekki allt upp í 10 ára gömul börn vappandi um heitandi Bambi Blær eða þaðan af verra...

28.10.09

Face!

Um daginn vorum við í labbitúr með vagninn (hmm.. eða öllu heldur dótturina í vagninum. Ekki eins og maður sé að labba sérstaklega með tómann vagninn for good measure) og gengum framhjá leikskóla. Á sama tíma og við fórum framhjá voru þrjú grunnskólabörn, svona á að giska 6 eða 7 ára, að rölta úr hinni áttinni. Ein stelpan horfði á krakkana sem voru úti að leika sér í leikskólanum og sagði hátt og snjallt með mikilli stríðnisröddu: "HÆ LEIKSKÓLABÖÖÖRN. ERUÐ ÞIÐ ENNÞÁ MEÐ BLEIU!?". Svo hlupu þau öll skellihlægjandi í burtu.

Leikskólakrakkarnir kipptu sér ekki mikið upp við þetta. Héldu bara áfram að róla sér, bora í nefið og éta sand. Ég held að svona dissi sé sóað á leikskólakrakka.

26.10.09

Samfélagslegt vandamál?

Ég hringdi í kvensa til að panta tíma í eftirskoðun eftir fæðingu. Ég var spurð hvort ég hefði farið til hans áður, þar sem að hann tekur ekki við nýjum einstaklingum. Hann átti svo ekkert laust fyrr en í desember. Hérna hélt ég að ég væri vel tímanlega, þar sem að ég hafði hugsað mér að panta tíma einhverntímann um miðjan nóvember. Þegar þarna var komið við sögu fór ég að velta því fyrir mér hvort að kvensinn minn væri einhver celebkjallaraskoðari með allt uppbókað fram undir nýja árið og séð og heyrt ljósmyndara á hælunum á honum við hvert fótmál að smella myndum af honum með viðskiptavinunum hans. Ég ákvað því að athuga með aðra lækna, þar sem að þetta á víst ekki að vera það mikið prógram og vegna þess að ég nenni ekkert að kaupa séð og heyrt út af forvitni um það hvað sé skrifað undir myndina hjá mér (Ósk (28) kúl í kjallaraskoðun t.d.). Þá var mér tjáð að aðrir læknar tækju heldur ekki við nýjum einstaklingum, svo ég skellti mér á desember tímann.

Núna er ég að velta því fyrir mér hvað konur með verulega aðkallandi kjallaravandamál geri eiginlega. Tja.. "nýjir einstaklingar" sem hafa aldrei farið til kvensa áður. Er þetta annað plott hjá teiknimyndavondakallinum sem reynir að skapa glundroða vegna þess að samfélagið á það skilið?

23.10.09

28 ára

Ég átti afmæli í gær. Hin átta afmælin sem ég hef átt á meðan ég hef haldið úti þessu póski hef ég alltaf tilkynnt á réttum degi, enda finnst mér fátt eins skemmtilegt og að eiga afmæli. 28 ára afmælistilkynningin kemur degi of seint þar sem að ég eyddi stórum hluta af gærdeginum í að sofa (dótturinni fannst þetta svo spennandi að hún ákvað að fagna afmælinu með því að vaka stóran hluta af nóttunni í hörkustuði).

Einar og litlamon gáfu mér síma. Ég setti simkortið mitt í hann þegar við tókum okkur mjólkurpásu frá kúrinu rétt fyrir hádegið og þegar ég vaknaði rúmlega fjögur, var ég með fullt af missed calles og smsum. Greinilega miklu betri sími en þessi gamli!

Í gær fékk ég sem sagt pakka, flottan morgunmat, blóm, sms og missed calles, súkkulaðiköku og blóðuga nautasteik, en slíka hef ég látið mér dreyma um í næstum því 10 mánuði. Ég sakna þess ekki neitt að drekka ekki áfengi, ég er byrjuð að fara aftur í sjóðandiheit böð (og böð þar sem að bumban stendur ekki upp úr vatninu), svo nú á ég held ég bara eftir að fá mér sushi og allir draumar mínir síðustu mánuði hafa ræst!

P.s. Kona veit að hún er mamma þegar hún kemst svona ___ nálægt því að setja bossakrem á tannburstan sinn í staðinn fyrir tannkrem.

12.10.09

Breytingar

Lífið hefur sko aldeilis breyst síðan að október mætti á svæðið. Það snýst allt meira og minna um brjóstagjafir, bleiuskipti og að dáðst að því hvað við séum með góð gen. Brandararnir hjá okkur Einari eru líka búnir að breytast. Í gær var dóttirin að sýna bleiunni sinni hver réði og allt húsið lék meira og minna á reiðiskjálfi. Við notuðum það tækifæri til þess að reyna að dæma hvort hún væri líkari mömmu sinni eða pabba sínum. Kúk-og-piss brandarar eru sem sagt komnir í nýjan galla og eru sérstaklega hressir. Einhvern veginn varð það líka eðlilegt að eyða álíka löngum tíma í að pakka í bleiutösku til þess að fara í labbitúr til mömmu og pabba sem búa í næstu götu, eins og ég hefði áður eytt í að pakka fyrir tveggja vikna ferð til útlanda.

9.10.09

Fréttamegrun

Ég er búin að vera algjörlega frá því að lesa eða horfa á fréttir í rúmlega viku. Núna er ég að horfa á fréttirnar á stöð tvö. Þvílíku þunglyndisdómsdagsfréttirnar og svo eru veðurfréttirnar ekki einu sinni hressar. Ég held sveimérþá að ég haldi bara áfram í fréttamegruninni! Þetta getur ekki verið gott fyrir sálina.

Litlamon

Þá er litla skottið mitt orðið 8 daga gamalt. Reyndar er það svolítið svindl að segja það, þar sem að hún fæddist 12 mínútur í miðnætti þann 1. október, en það eru dagsetningarnar sem telja. Hún náði að lauma sér inn 3 vikum eftir afmælið hjá pabba sínum og þegar það voru þrjár vikur í afmælið mitt. Það er ekki hægt annað en að dáðst að svona simmitríu.

Annars hef ég tekið eftir einu síðan hún fæddist. Foreldrar eru alltaf að tala um hvað þeirra börn séu fallegust, duglegust og frábærust, en ég hef komist að því að þetta sé ekki rétt. Það er í rauninni MITT barn sem er fallegast, duglegast og frábærast. Ég er ekki að segja þetta vegna þess að þetta er dóttir mín og hún hefur greinilega erft sérstaklega góð gen frá okkur pabba sínum. Ég er að segja þetta vegna þess að þetta er staðreynd.

28.9.09

Medium pimpin'

Mér finnst ég alltaf vera að minnsta kosti medium pimpin' þegar ég fer í sloppinn minn, hann blábjörn. Hann er svo hlýr og mjúkur, síður og stór að hann minnir mig hellst á öflugan loðfeld.

22.9.09

I has the dumbz

Ég er komin aftast í skápinn. Þegar kona er komin tæpar 39 vikur á leið, þá öðlast þetta "aftast í skápinn" nýja merkingu, þar sem að það er töluvert vesen að finna eitthvað sem nær yfir bumbuna. Ég held ég hafi grafið svo djúpt áðan að ég hafi séð glitta í Geirfinn og Jimmy Hoffa þarna aftast í einni hillunni.

Til þess að koma í veg fyrir álíka leit á morgun, skellti ég stórri hrúgu af fötum í þvottavélina, sem malar nú undurfallega. Það var ekki fyrr en rétt í þessu, þegar kvikyndið er búið að vera að kjammsa á þvottinum í næstum því klukkutíma að ég fatta að ég gleymdi að setja þvottaefni í vélina.

Ég er líka eiginlega alveg hætt að gera tvo hluti í einu. Ég hef aldrei verið sérstaklega góð í því, en núna á ég erfitt með að tala í símann og anda liggur við.

Síðustu helgi var ég að reikna base-attack bónusa og árásir fyrir D&D characterinn minn sem er með two weapon fighting, improved two weapon fighting, fjórar hendur og haste (æi.. mér fannst langt síðan að ég hefði nördað það almennilega upp hérna, svo ég ákvað að koma aftan að ykkur!) og ég átti for reals bara erfitt með að draga 5 frá tölum.

Kemur ekki bara í ljós að þessi "meðgönguþoka" sem er búið að vera að hóta mér með á sér einhverja stoð í raunveruleikanum!

17.9.09

Óvinnufær að öllu leyti vegna sjúkdóms

Ég er hætt að vinna núna. Ish. Verð með tærnar svona aðeins í vinnunni. Á vottorðinu mínu stóð að ég sé óvinnufær að öllu leyti vegna sjúkdóms. Mér finnst frekar fyndið að þetta sé kallað sjúkdómur. Hinn valmöguleikinn var "slys". Það fer kannski eftir því hvernig verðandi erfingi kom undir í hvorn kassann er hakað.

13.9.09

Ný tölva og nýrri tölva

Það horfir allt til betri vegar hjá okkur í tölvumálum á þessu heimili og bráðum getum við farið að bera höfuðið hátt aftur og ekki skammast okkar fyrir að vera hálf tölvulausir tölvuhvíslarar. Fyrst kom Vimes, sem er desktop tölva og svo núna á föstudaginn bættist við ThinkPad lappi. Ég veit ekki hvað hann heitir ennþá. Ég var fyrst að kveikja á honum núna í morgun, þar sem ég er búin að vera á haus frá því á hádeginu á föstudag í afmælisboðaundirbúningi fyrir nýþrítugan eiginmanninn. Ég hef þó gefið mér tíma til þess að setja upp bleikan desktop bakgrunn, bleikt firefox þema og bleik stýrikerfaþema á milli þess að ég vesenast í almennum uppsetningum.

Ég er að íhuga að taka þessu sem enn einni vísbendingunni um að ég sé orðin fullorðin að ég hafi verið að stússast í að klambra saman kaffiboði fyrir rúmlega tuttugu og matarboði fyrir fjórtán í staðinn fyrir að klóra nýrri tölvu á bak við skjáinn og panta bara pizzur eða eitthvað. Ég hef reyndar alveg lúmskt gaman af svona stússi, þó svo að eftir á að hyggja hafi þetta kannski verið full mikil keyrsla fyrir partýhvalinn sem fer alveg að flokkast sem steypireiður.

Úff hvað það er annars skrítið að nota ThinkPad lyklaborð eftir að hafa vanist Dell lyklaborði eftir að hafa verið kexrugluð á því vegna þess að ég hafði vanist ThinkPad lyklaborði. Fn er ekki á réttum stað og ég er eiginlega viss um að windows takkinn eigi ekki að vera þar sem hann er. Svo veit ég ekki alveg hvað PgUp og PgDn eru að gera þarna niðri.

3.9.09

Ætti ég ekki að vera sofandi eða eitthvað?

Þetta er algjörlega ný lífsreynsla. Ég skutlaði Einari í vinnuna áðan og fór svo heim og borðaði morgunmat og fletti í gegnum Fréttablaðið án þess að finna neitt til þess að lesa, eins og ég geri almennt á morgnana. Núna er ég að bíða eftir því að klukkan nálgist níu aðeins meira til þess að ég geti sjálf farið að bruna í vinnuna.

Það er ferlega spes að vera vakandi klukkan sjö eitthvað og átta eitthvað og vera bara að heimapúkast. Það er eitthvað rangt við þetta! Það liggur við að ég taki 20 mínútna power-nap bara til þess að losa mig við þessa tilfinningu.

27.8.09

Alveg magnað

...að fyrirtækið sem kom með þessa auglýsingu sem er einhver sú hroðalegasta í sögunni...Hafi líka komið með þessa!

14.8.09

Criminal mastermind?

Ég fór á brjóstagjafanámskeið hjá Miðstöð Mæðraverndar í gær. Einar kom ekki með, þar sem að hann er hálf lasinn og kunni ekki við að vera hóstandi og snýtandi sér yfir hafsjó af óléttum konum. Mér finnst það hálf súrt samt, þar sem að hann kann þá ekkert að gefa á brjóst og getur ekki leyst mig af ef svo ber undir.

Aaaallavegana. Í síðustu viku fórum við á fæðingafræðslunámskeið sem var haldið á sama stað, svo ég vissi við hverju ég mátti búast stóla-vise. Aðilinn sem sá um innkaup þarna hefur nefnilega tekið sig til og keypt stóla sem líta alls ekkert svo illa út, en eru í rauninni keyptir úr þrotabúi pyntingatæknis (heitir ekki allt eitthvað tæknir eða fræðingur núna?). Það er ekki nokkur séns í helvíti að sitja þægilega á þessum skrömbum og eftir að hafa verið gróðursett á stólóbermið í tvo tíma þá var mjóbakið á mér bara alveg ónýtt.

Ég er eiginlega viss um að innkaupasérfræðingurinn sé vondikall eins og í teiknimyndunum. Svona týpa sem vill bara gera handahófskennda vonda hluti því að samfélagið á það skilið. Ég held að fátt skapi meiri glundroða en stór hópur af óléttum konum á 30+ viku sem er illt í bakinu og grindinni og hefur ekki farið á klósettið í lengri tíma!

(P.s. Þetta voru samt fín námskeið og ég mæli alveg með þeim, svona til að draga aðeins úr biturleikanum :o)

8.8.09

Ég á jellyfish stól

Svona er hann. Ég keypti hann undir því yfirskini að hann eigi eftir að vera inni í barnaherbergi. Þó svo ég sitji á honum núna við tölvuna inni á skrifstofu þýðir það ekkert að hann eigi ekki eftir að vera inni á barnaherbergi einhverntímann. Öðru hvoru. Kannski.

Pönnsís

Ég vaknaði á undan eiginmanninum eins og reyndar oftast um helgar og ákvað að skella í pönnsur. Það hefur aldrei verið til pönnukökupanna á þessu heimili, svo ég veðjaði á litla Martha Stewart pönnu. Einhvern veginn sá ég það fyrir mér að Martha hefði geta bakað pönnsur með kveikjara og klósettsetu í fangelsinu ef hún vildi, svo hún væri líklegri til árangurs en hefðbundin stálpanna og það reyndist rétt. Ég á reyndar heldur ekki pönnukökuspaða, en spaðinn sem ég nota þegar ég er að wok-a virkaði fínt. Ég upplifði mig svolítið eins og skáta, sérstaklega þar sem að pönnsuuppskriftin var eitthvað skrítin og ég var að bæta hana á milli þess að pönnukökufjallið hækkaði. Þessar efstu, sem voru þær einu sem við borðuðum í þessum umgangi voru með fleirri hráefnum og fullkomnar í áferð og þykkt. Þessar neðstu... tja. Við skulum bara segja að þær hafi haldið uppi staflanum ágætlega. Þær gengdu svolítið sama hlutverki og básúnuleikarar í sinfoníuhljómsveit, en einhverra hluta vegna eru þeir alltaf hafðir aftast þar sem að sést sem minnst í þá.

Annars fórum við á námskeið tvo daga í síðustu viku um allskonar barnseignategndahluti. Allt frá því við hverju kona ætti að búast, hvaða lausnir eru í boði og yfir í að rölta um hreiðrið og skoða aðstöðuna. Ljósan sem hélt námskeiðið var rosalega yndæl. Fyrri daginn var hún að tala um hversu miklu gott mataræði skipti máli og skaut því að okkur að við ættum að halda neyslu á hveiti og sykri í lágmarki. Þann daginn hafði ég borðað skyr, ávexti og grænmeti og drukkið vatn með. Þegar við komum heim fékk ég mér köku til þess að mótmæla. Ha-HA! Hafðu þetta ljósa.

2.8.09

Bullandi stússerí og leitin að hinni fullkomnu bollaköku

Það er alveg ferlega yndælt að eiga þrjá laugardaga í röð, sérstaklega þegar kona tekur sér ekki sumarfrí til margra vikna eins og annað vinnandi fólk. Eða.. að minnsta kosti ekki alveg strax. Við Einar tökum okkur hins vegar frí á þriðjudaginn (sem verður í þessari viku heitir sunnudagur) til þess að fara að stússast eitt og annað. Stússerídagur. Fara á bullandi stússerí. Ræræræræ.

Fram að þessu höfum við verið alveg semi dugleg þessa helgi. Barnaherbergið er tilbúið og ég er alveg sérstaklega montin af því. Ég lét líka verða að því að gera eitthvað sem ég hef hugsað um ansi lengi. Ég bakaði cupcakes. Bara sex stykki, því ég hafði ekki prufað áður. Tvær voru bláberja, ein jarðaberja, ein jarðaberja og súkkulaði, ein súkkulaði og ein var með afgangur úr deiginu úr öllum hinum bragði. Ég skellti líka allskonar lituðu frosting á þetta, sumar fengu jarðaber, sumar sprinkles, sumar súkkulaði spæni og sumar color-coordinated smartís. Ég held að cupcake gerð sé listform og ég er alveg til í að leggja þetta fyrir mig. Eftir nokkur ár verð ég valsandi (eða jafnvel ströttandi) um með alpahúfu og í hörsvuntu, horfandi gagnrýnum augum á annara manna og kvenna bakstur og vorkennandi liðinu fyrir að hafa ekki komið eins nálægt hinni fullkomnu cupcake og ég. Setjum timerinn í gang... núna!

15.7.09

Brüno

Fórum á hana í gær. Mér fannst hún eiginlega meira óþægileg en fyndin. Hún var alveg fyndin á köflum, en ég var meira bara að halda fyrir andlitið.

4.7.09

Out-ie

Jakvörskrambinn. Áðan, eftir að hafa verið að kjánast eitthvað, stakk ég upp á því við Einar að hann myndi prufa að segja "HÆ!" hátt og snjallt alveg upp við bumbuna og svo myndum við sjá hvað gerðist. Ég fékk spark rétt fyrir neðan naflann og hann poppaði út. Mér fannst þetta svo krípí og fyndið að ég hló mig næstum því til dauða. Í smá stund, þá var ég með útstæðan nafla alltaf þegar ég spennti magann. Össs, þetta er örugglega karma. Ég veit þetta gerist stundum, en ég hafði svona verið að vonast til þess að ég myndi sleppa við að fá outie!

3.7.09

Það er komið sumar!

Sumar með gulum og fjólubláum blómum og litlum flugum sem hanga í götugengjum í Elliðarárdalnum og ráðast á vegfarendur. Þær eru svo litlar að ég get ekki séð klíkumerkin þeirra almennilega. Örsmá blá eða rauð ennisbönd eru næstum því ósýnileg, svo ég veit ekki hvenær ég fer frá einu yfirráðasvæði yfir í það næsta. Flugugengjapólitík er sóað á mannfólk svo þær ættu bara að hætta þessu.

26.6.09

Bæbæ klippó. Klippó bæbæ

Ég fór í klippingu og strípur í gær. Klippingu í fyrsta sinn síðan í janúar og strípur í fyrsta skipti síðan fyrir jól. Það er ekkert sem segir að svona lagað sé slæmt fyrir bumbur, en það er hins vegar ráðlagt að sleppa þessu fyrstu þrjá mánuðina ef kona er eitthvað stressuð með þetta. Common senseið mitt, hún common sense sagði mér hins vegar að þetta gæti nú ekki verið mikið gott heldur, svo ég ákvað að takmarka þetta við einu sinni á meðgöngunni. Núna er ég komin rétt tæpa 6 mánuði á leið og rótin á mér var orðin svo rosaleg að ég bjóst við því að það myndi líða yfir allt liðið á hárgreiðslustofunni þegar ég tók teygjuna úr hárinu. Klippikvendið leiddi mig hins vegar í stól og klappaði mér og fór strax að sinna aumingja hárinu. Þegar draslið var komið í, yfirgaf hún mig til þess að fara að klippa einhvern annan. Sem betur fer var ég með Ibbann minn og hlustaði á síðustu Dark Tower bókina á meðan að ég beið. Og beið. Shit hvað ég beið lengi.

Þegar ég hélt að ég væri algjörlega gleymd og yrði með tímanum grafin undir gömlum Séð og Heyrt og afklipptu hári var mér loksins skutlað í hárþvott. Eftir hárþvottinn fór klippikvendið að klippa annan viðskiptavin og aðstoðarminionið þeirra fékk það hlutverk að blása á mér hárið og greiða mér. Ekki einu sinni mamma í vondu skapi þegar ég var búin að vera að frekjast sem krakki greiddi mér svona harkalega. Á einum tímapunkti var ég lamin með bakinu burstanum í ennið. Hún hló og baðst afsökunar og brenndi mig aðeins á öðru eyranu með hárblásaranum. Svo fór hún og mér var létt. Svo beið ég aftur. Og beið. Klukkan var orðin "ég hélt að ég væri búin í klippó á þessum tíma" og ég var orðin svo svöng að ég var við það að fara að kjökra, en mér hafði tekist að færa ofurhungrið sem ég finn venjulega fyrir í kringum kl. 15-16 til með því að borða hádegismatinn minn klukkan 14.

Þegar hingað er komið í sögunni kemur sem sagt í ljós að ég laug að ykkur áðan! Ég fór ekkert í klippingu. Þegar klippikvendið kom loksins aftur og gerði sig líklega til þess að klippa mig þurfti ég að halda svo mikið aftur af mér að bíta hana ekki að ég ákvað að það væri best að fresta þessu bara. Hún baðst innilegrar afsökunar greyjið, en ég heyrði það ekki alveg fyrir reiðiöskrunum í maganum. Svo borgaði ég 11þúsund og eitthvað. Spurning hvenær kona má fara að útskulda tíma á móti.

Nú er ég sem sagt ljóshærðari en ég hef verið í marga mánuði og með geðveikt sítt hár, þar sem að það var ekkert klippt af því. Ef ég væri ekki með óléttubumbu væri ég eins og versta bimbó, þar sem að brjóstin eru líka orðin heldur stór og eiginlega hætt að passa í brjóstahaldarana mína, þrátt fyrir allskonar tilfæringar.

Það er alveg spurning um að láta líða tæplega 7 mánuði í næstu hárgreiðslustofuferð aftur.

19.6.09

Ég er syfjuð

..vegna þess að ég fór að sofa í kringum miðnætti (bíði, it get's better) vegna þess að ég vakti frameftir þar sem ég var að hýsa taubleiukynningu.

Ég held ég sé orðin fullorðin.

16.6.09

Underground prjón

Ég skrapp á ættarmót með mömmu og pabba á laugardaginn. Við lögðum af stað fyrir hádegi og vorum komin aftur í bæinn í kringum kvöldmat. Á leiðinni heim var einhver prjónaþáttur í útvarpinu, þar sem að spjallað var við allskonar prjónafólk. Þetta kætti mig ó svo mjög. Í fyrsta lagi fannst mér fáránlega fyndið að sjá fyrir mér sænska prjónatöffarann sem var í prjónahettupeysu og prjónagrifflum sem hann hafði sjálfur prjónað. Mér fannst eins og það hafi bara gleymst að segja frá prjónapokabuxunum hans og prjónahlífinni utan um hjólabrettið. Þetta var eitthvað svo... Fóstbræðra.

Annað sem fékk mig til að brosa var stelpa sem talaði um "prjóna-tagging". Þá er fólk að prjóna hlífar í kringum ljósastaura og annað í skjóli nætur. Nú sé ég alltaf fyrir mér reiða unglinga með spreybrúsa í hönd þegar ég hugsa um svona lagað, þannig að ógeðslega reið manneskja með prjóna að prjóna ljósastaurahlíf er eitthvað svo rangt að það verður næstum því rétt. Úff.. ég þarf að hitta þetta fólk bara til þess að sjá að það sé til í alvörunni!

10.6.09

Ég er enginn McGywer

Ég hætti snemma í vinnunni í gær. Eða.. snemm-ish. Svo eyddi ég klukkutíma lokuð inni á baðherbergi heima, svo ég nýtti þennan snemmitíma ansi vel verð ég að segja. Þegar ég kom heim, fór ég beint á klósettið, enda pissa ég meira en fólk gerir almennt þessa dagana. Á sama tíma og ég reyndi að opna hurðina á baðherbeginu, heyrði ég útidyrahurðina lokast þar sem að Einar var að fara í einhverjar útréttingar. Hurðahúnninn fór upp og niður, en það gerðist ekkert. Ég var ekki alveg að nenna að hanga þarna inni þangað til að Einar kæmi heim aftur, svo ég byrjaði á því að reyna að taka hurðina af hjörunum. Ég gat það með engu móti, því hún liggur svo nálægt gólfinu. Þá náði ég mér í flísatöng og hófst handa við að taka hurðahúninn í sundur. Eftir lengri tíma tókst mér að ná hlífinni hans af og við blöstu tvær stjörnuskrúfur. Ég stakk flísatönginni inn í aðra og byrjaði að skrúfa. Eftir eitthvað hnoð varð mér það ljóst að ef ég héldi svona áfram myndi ég bara eyðileggja skrúfuna, svo ég varð að játa mig sigraða.

Í smá stund íhugaði ég að skríða út um gluggann og láta mig síga niður, en ákvað að óléttar konur ættu ekki að vera að klifra uppi á þaki og ég vissi heldur ekki hvort ég væri mikið betur sett að vera læst úti en inni.

Á meðan ég sat á baðbrúninni og beið eftir eiginmanninum, gerði ég mér grein fyrir því að þetta er besta herbergið í húsinu til þess að lokast inni á. Ég gat t.d. pissað tvisvar sinnum í viðbót sem hefði verið ómögulegt eða subbulegt ef ég hefði verið annarsstaðar. Ég hefði líka geta skellt mér í bað hefði ég verið með burstann minn í sama herbergi og ég gat fengið mér vatn að súpa.

Það versta við þetta var að síðustu vikur hef ég orðið alveg rosalega svöng í kringum kl. 15-16. Alveg svona "ómægodéghefekkiborðaðímörgár" svöng og þá þarf ég að komast í mat sem fyrst. Þetta var því smá kapphlaup við tímann að Einarinn myndi koma heim áður en maginn á mér færi að melta sjálfan sig innan frá. Þetta var sérstaklega slæmt því að við höfðum stoppað í búð og ég vissi af djúsí mat sem ég hafði keypt mér alveg bíðandi eftir mér niðri í eldhúsi.

Klukkutíma seinna kom Einar með teppaleggimann meðferðis (í þessu tilfelli í hlutverki stigamælingamanns). Hann hleypti mér út og ég þusti framhjá þeim báðum og fór að háma í mig mat eins og enginn væri morgundagurinn.

Svo lagaði ég hurðahúninn og við keyptum emergency skrúfjárn til að geyma inni á baðherbergi ef þetta gerist aftur. Aðalega vegna þess að matur geymist verr en skrúfjárn.

9.6.09

Örfréttir

Petra, lappinn minn, dó á föstudaginn og það hefur ekki verið hægt að sannfæra hana um að skella sér í gagn síðan. Ég hef svo sem ekki mikið dregið fram Frankenstein græjurnar mínar ennþá, þar sem ég hef verið í sjálfskipaðri útlegð heima hjá mömmu og pabba síðan á þennan sama föstudag, en þá hófust stigaframkvæmdir á Sílinu. Fyrst var mér úthýst vegna þess að verið var að mála með einhverju bölvuðu eitri sem þótti ekki við hæfi litlumon og svo vegna þess að það var ekkert handrið á stiganum. Það þótti heldur glæfralegt þar sem að ég rölti hálf sofandi framhjá gapandi opi eins og fjórum sinnum á nóttu á leið minni á klósettið.

Í dag mun þetta handriðaleysi lagast, en þá verða settar spónarplötur fyrir öll op. Við ákváðum að skella okkur bara á low-budget kreppuhandrið nefnilega... Nei okay. Þetta er tímabundin lausn á meðan það er verið að sníða glerið fyrir okkur :oP

31.5.09

Svalasti fugl í heimi!

Var að horfa á þennan Q.I. þátt á föstudaginn og bara gat ekki gleymt þessum fugl.

28.5.09

Mér líður svo illa að ég gæti ælt

Hey bíddu.. Búin að því! Þrisvar!

Ljósan sagði mér að þetta væri örugglega bara magapest. Ég hef ekki verið lasin í mörg ár, svo ég veit ekkert hvað er eðlilegt í svona málum. Ég veit bara að mér líður voooooðalega ömurlega. Kannski ber ég mig meira aumlega en fólk sem er alltaf lasið... eða ég sé einmitt harðari af mér því ég verði aldrei lasin og núna hefur einhver ofurskrambi ráðist á mig. Kveisa sem allar ofurhetjurnar gætu barist við í einu og nokkrar fallið í átökunum því hún er svo ofur. Blööööö

24.5.09

Prjón

Ég prjóna og prjóna. Eftir að hafa rekið allt upp fjórum sinnum og byrjað upp á nýtt, er ég loksins komin með 14 cm af prjóni skal ég segja ykkur og það er munstur og allt! Nú vantar ekki nema 9 cm upp á til þess að ég sé komin með 1/2 pilsahlutann á kjól fyrir 0-6 mánaða. Eh. Ókay, þetta gengur ekki hratt, en þessu miðar þó áfram.

Ég er mikið búin að prjóna og hlusta á ipodinn minn og svo í dag prjónaði ég í félagsskap tveggja prjónara, þar af annars sótbölvandi yfir prjónaleiðbeiningum upp úr bókum og blöðum, eða skorti þar á

20.5.09

Nammi hvað þetta er góður föstvikudagur

Það gerir konu svo gott að fá auka frídag inni í miðri viku. Auðvitað er auðveldara að blóta honum eins og hann væri mörgæs fyrst að hann ber upp á fimmtudegi, því að þá er hann svo nálægt heginni en samt enginn teningur.

Föstðjudagur væri líka ágætur. Hafa frí á miðvikudegi sem er svo asskoti miðsvæðis að kona veit aldrei hvar hún hefur hann. Hann getur verið með mánudegi í liði eða föstudegi eftir því í hvernig stuði hann er.

19.5.09

Móðureðlið

Skyndilega er ég gripin einhverri gríðarlegri löngun til þess að prjóna. Ég er ekki góð í því að prjóna. Í grunnskóla skvetti handavinnukennarinn vígðu vatni á verkefnin mín og lokaði sig svo inni og grét yfir garninu sem þurfti að deyja fyrir óskapnaðinn.

Núna finn ég hjá mér einhverja brjálæðislega þörf til þess að prjóna lítinn kjól eða eitthvað fyrir Litlumon Bænarí sem býr í bumbunni. Ég veit ekki hvort ég ætti að láta reyna á þetta, eða hvort að barnavernd myndi banka upp á hjá mér súr á svipinn yfir því að ætla mér að þræla saklausu barninu í garnaflækjuna.

Ég gef þessu kannski viku til þess að gerjast og sé svo til.

17.5.09

Fíntfínt

Bestu mögulegu úrslit sem Ísland gat fengið úr Eurovision keppninni. Æsispennandi keppni um annað sætið. Flestir eru að velta sér upp úr því hvernig Eurovision sigur gæti sett þjóðina og RÚV enn meira á hausinn. Persónulega er ég ánægð að geta hneykslast á asnalegum kynnum og skemmtiatriðum að ári í stað þess að skammast mín persónulega!

14.5.09

Hefur einhver reynt að selja heitar lummur nýlega?

Ef svo er, hvernig gekk salan? Hvað var verðið á þeim? Ég þarf að vita þetta svo ég geri mér grein fyrir því hvernig á að túlka máltakið "seldist eins og heitar lummur" í nútíma samfélagi.

13.5.09

Bumbó

Bumbuleikfiminámskeiðið mitt var búið, svo ég ákvað að prufa bumbusund. Ég fór í fyrsta bumbusundtímann áðan. Talsvert minni átök en í leikfiminni, en mér lýst bara vel á þetta. Þetta var svolítið eins og saumaklúbbur og það var hægt að blaðra meira og minna allan tímann, sem kona kemst ekki upp með í hinu dótinu. Það er heldur bara ekkert um sund í bumbusundi. Þetta er meira bara vatnsleikfimi. Allavega er óléttum konum ekki vísað út í yfirborðsfrosna laug, haglél og 30 metra á sekúntu á meðan að bumbusundkennarinn situr inni í húsi í kraftgalla og drekkur kaffi og horfir þungbrýndur á út um gluggann. Þannig var alltaf skólasundið í minningunni.

10.5.09

Nudd

Einar sinn gaf mér nudd og heimsókn í baðstofuna á Laugum í sumargjöf. Ég ákvað að taka hann bara með mér líka og við skelltum okkur í gær. Ég fékk nuddbekk með gati fyrir bumbuna og það var alveg þvílíkt fínt. Þetta var fyrsta skiptið í nokkra mánuði sem ég ligg á mallanum. Ég bað nuddkvendið um að taka bara almennilega á því, svo ég gekk í gegnum sárar kvalir meira og minna í 60 mínútur. Núna er ég með nuddharðsperrur allstaðar, en ég veit að bráðum á mér eftir að líða þvílíkt vel í líkamanum.

7.5.09

Arnold og Heidi

Það er fyndið að Heidi Klum og Arnold Schwarzenegger séu með sama hreiminn, fyrst að hjá Heidi sé hann rosalega krúttlegur, en hjá Arnold sé hann líklega ein af ástæðunum fyrir því að hann buffaði sig svona mikið upp (svo enginn þorði að gera grín að honum).

4.5.09

Það er alltaf verið að sparka í mig

og hugsanlega líka kýla og/eða skalla. Allt saman í bumbuna. Innan frá. Merkilegt að hafa gaman að því að vera beitt svona ofbeldi.

3.5.09

Ég var í Búdapest

Kom aftur heim rétt áðan. Alveg algjör snilldar ferð sem og borg. Þar var 24°C hiti og sól og öll trén löngu komin í blóma. Það var reyndar ekki það besta við borgina, en það hjálpaði alveg til. Núna er mér svolítið kalt og mér finnst trén svolítið berössuð.

28.4.09

Ég held að ég sé að borga fólki fyrir að reyna að drepa mig

Það var að renna upp fyrir mér ljós. Það rennir stoðum undir kenningu mína að ég get varla vélritað ég er svo búin í höndunum, svo ég á víst ekki að geta komið þessum skilaboðum á framfæri. Ég ætla samt að harka af mér svo þið vitið hvað hefur gerst ef ég læt aldrei sjá mig hérna aftur.

Á meðan að eiginmaðurinn þverneitar að láta mig halda á innkaupapokunum er bumbuleikfimisþjálfarinn að channela herþjálfara sem er ný hættur að reykja og klægjar geðveikt á milli herðablaðana, akkúrat þar sem hann nær ekki til. Ég held ég verði harðsperruð á morgun. Og hinn. Kannski eiga lóð eftir að ofsækja mig í draumi.

27.4.09

Nýr bíll? Sama Óskin!

Veii nýji fíni bíllinn okkar. Hann heitir Baldur og er jeppi (gáfað fólk hefur sagt mér að ef hann hafi sér hátt og lágt drif sé hann jeppi en ekki jepplingur. Mér finnst jepplingur vera sætt orð eins og kettlingur). Hann hefur fullt af plássi fyrir barnavagn og allskonar í skottinu, sem var ástæðan fyrir því að við fórum út í þessa fjárfestingu, en Blávi hafði pláss af skornum skammti.

Þetta er lang fínasti bíll sem ég hef nokkurn tímann átt. Hann er líka lúxusútgáfa er mér sagt og hefur dráttakúlu sem er "destroyer of cars" ef aðrir bílar klessa aftan á hann. Svo er hann svartur eins og Svarthöfði og svo er hann töffari. Eins og Fonzie.

25.4.09

Kaus

Ég er ekki ánægð með það sem ég kaus, en ef við lítum á "björtu hliðina", þá var ég ennþá óánægðari með allt hitt. Nú hef ég kosið í þremur alþingiskosningum og aldrei kosið sama flokkinn.

24.4.09

Ætti að vera inntökupróf á internetið?

Það er alveg spurning. Núna virðist vera að hverjum sem er sé hleypt þangað.

Kosningar á morgun

Skrambansskrambi. Þetta væri miklu einfaldara ef einhver af þessum flokkum væri góður kostur.

23.4.09

Update

Appelsínuflysjarar = Appelsínuflysjarar + 4; //Veiiiiiii
Geðveiki = Geðveiki + Helvítis drullu Smáralind á háannatíma //ÖSKR
Bumba = Bumba + TGI's Fridays sumardagsdekurmatur; //Noooom
Sumargjafir = 0 + Dekur og 60 mín nudd á Baðstofunni á Laugum frá eiginmanninum // eeelsk

Appelsínuopnunartæki/skrælarar - Rauði steinninn?

Síðasta laugardag hætti ég mér í Smáralindina. Mér finnst ekki gaman að fara í verslunarmiðstöðvar, en ég hef sérstaklega gaman að cheapo draslbúðum sem selja hluti sem kosta 200 kall og eru eins svalir og Fonzie í allavega einn klukkutíma áður en þeir eyðileggjast eða kona fær leið á þeim.

Ég rölti inn í Megastore (sem er by the way talsvert meiri verslun en aðrar cheapo draslbúðir. Allskonar fínerí þar) og sá þar appelsínuskælara. Ég var svo glöð að ég skríkti og greip strax einn pakka úr hillunni. Það var þá sem ég tók eftir því að það voru fjórir appelsínuopnarar í pakkanum. Hvernig meikar það sense? Það þarf bara einn. Til hvers eru hinir? Ég var helltekin af vantrausti og skilaði græjunum aftur í hilluna. Síðan þá, hef ég látið mér dreyma um appelsínuskrælarana. Þegar ég hef opnað appelsínu með höndunum og orðið öll appelsínufíluð eftir hýðið hef ég látið hugann reika aftur í Megastore til skrælarans. Ég hef í huganum úthlutað hverju og einu af þessum fjórum eintökum sínum eiginn stað. Ég get farið með einn í vinnuna, geymt einn heima, haft einn í uppþvottavélinni á meðan hinn er í notkun og ... einn í bankahólfi? Eða sent Einar með hann í vinnunna. Okay, ég er ekki með smáatriðin á hreinu. Eitt er víst og það er að ég ætla að kaupa slíka græju við fyrsta tækifæri. Ég vona bara að þetta verði ekki eins og rauði steinninn....

Minn glitrandi skrælari, hví greip ég þig ei
úr hillunni höndum tveimur?

Sumar

Svo sem ekkert brjálæðislega hlýtt, en það *er* frí, þannig að yfir allt myndi ég segja að þetta sé fínt!

19.4.09

Ógeðslegt skrímsli

Ég var að búa til hummus. Á miðvikudaginn fórum við í Bónus og ég sleppti mér algjörlega, enda loksins farin að geta borðað venjulegan mat aftur. Eitt af því sem ég beit í mig að ég vildi endilega borða var hummus, svo ég keypti kjúklingabaunir. Ég átti alltaf eftir að kaupa tahini, þar sem að það var ekki til í Bónus, en ég var búin að tilkynna eiginmanninum það formlega að hummusgerð myndi hefjast fljótlega.

Þetta sló eitthvað saman í hausnum á honum og nú heldur samstarfsfólkið hans að ég sé ógeðslegt skrímsli sem býr til haggis. Það er reyndar alveg spurning að spila inn á þetta. Mæta í skotapilsi á árshátíðir og tala um góða sekkjapípuleikara í svona handahófskenndu spjalli. Ég held að það gæti verið skemmtilegt...

15.4.09

Afmæli

Ég gleymdi! Ég átti sjö ára póskafmæli á sunnudaginn. Vá. Bráðum verður póskið mitt nógu gamalt til þess að horfa á Batman I!

Já. Ég er það!

Einar er að horfa á fóbjóð. Ég hristi púðann undir hausnum hans og sagði: "JARÐSKJÁLFTIIIII!!" og hló eins og skepna. "Ertu svolítið fyndin?" spurði hann mig og brosti. Heheh. "Já. Ég er það!" sagði Óskin. Þetta fékk mig til þess að hugsa að það væri bara alveg satt og ég hló ennþá meira.

Ekkert smá heppið barn sem kemur til okkar í haust. Ekki bara er ég með allar mælingar á blóðinu mínu rosa fínar (og miðað við að það voru tekin SJÖ friggin' glös úr mér til þess að prófa allan skrambann, þá meina ég ALLAR mælingar. Í heiminum. Verst að þegar ég segi "í blóðinu mínu", að það hafi allt verið tekið og það sé örugglega ekki einn dropi eftir og það er einhver vampíra sem vinnur sem meinatæknir sem liggur ennþá afvelta) blóðþrýstingurinn í góðum málum og bara allt sem hægt er að mæla, hlusta eða skoða virki eins og best verði á kosið... heldur er ég líka alveg rosalega fyndin.

14.4.09

Ah, blessaðir vöðvarnir

Svona var tilfinningin þegar ég var búin að ganga frá þeim með lóðum. Ég var næstum því búin að gleyma.

10.4.09

Póskar

Annar laugardagurinn í röð og tveir eftir. Ég er orðin alveg kexrugluð á þessu og veit ekkert hvaða dagur er lengur. Ég er ekki að kvarta samt. Mér finnst voðalega fínt að fá svona langt frí. Ég var meira að segja uppi í sumargústaf stærstan hluta dagsins, svo ég steingleymdi því að skammast mín fyrir að hafa drepið Jesú.

8.4.09

Fyrsta páskaeggið sem ég bjó tilVúhú. Dugleg. Sést reyndar ekki páskaunginn sem ég bjó til úr hvítu súkkulaði á þessari mynd. Kannski er það bara ágætt.

7.4.09

Fínfín endorfín!

Hreyfði á mér rassinn í fyrsta skiptið í svona ár. Okay, ekki ár, en mér líður eins og það sé ár. Rúmlega tvo mánuði! Þetta var bara ferlega erfitt og ég á eftir að vera með harðsperrur allstaðar á morgun. Mmmm æði. Ég hlakka til!

4.4.09

Blómaval er ljót lygafyrirtæki! LJÓTT!

Blómó er meira ljóta glæpafyrirtækið. Við sáum þessa auglýsingu hérna hægra megin í Fréttablaðinu og ákváðum að gera okkur ferð í Blómaval og kaupa páskaliljur í potti á línuna. Við fundum fljótlega skilti með sama texta og við stafla af blómapottum og hafsjó af páskaliljum. Eftir að hafa valið þrjár sem okkur leist best á strunsuðum við á kassann til að greiða fyrir skrambann, enda áttum við að vera mætt í lönsj til mömmu og pabba eftir svona eins og 10 mínútur.

Afgreiðslustúlkan bíbbaði þetta allt inn í kerfið og ætlaði svo að rukka okkur rúmega þrjúþúsundkall fyrir þetta. Ég hélt nú ekki, enda stóð þetta bæði á skilti í búðinni og í auglýsingu að þetta ætti að kosta 399 kr. stykkið. Stelpan sagðist ætla að skoða þetta mál betur og eftir að hafa tekið sér ágætis tíma til þess að tala um vaktaskipulag dagsins við nágrannakassaþrælinn var hún röltandi af stað á slíkum hraða að þrífætt skjaldbaka hefði átt ferlega erfitt með að hada í við hana á slæmum degi. Þegar hún kom til baka tjáði hún okkur að tilboðið næði bara til páskaliljanna og potturinn fylgdi ekki með. Þegar ég sagði "ójúvíst" og potaði í textann á auglýsingunni, þá benti hún mér á smáaletrið sem segir "pottahíf fylgir ekki með". Auglýsingin átti sem sagt við páskaliljuna sjálfa í venjulega brúna plasthólknum sem kemur í veg fyrir að það sé mold og páskaliljulík út um öll gólf. Blómaval endurskýrði því blómapotta (a.k.a. "potta") "pottahlífar" fyrir sakir þessarar auglýsingar, því að það meikar sense í einhverjum viðbjóðslegum samhliða heimi þar sem er í lagi að plata fólk.

Á þessum tímapunkti var ég orðin fokreiða ólétta konan og gerði mig líklega til þess að hakka í mig blásaklausa tyggjójórtrandi kassastelpuna eða vaktstjóragreyjið sem hafði örugglega ekkert með þessa auglýsingu að gera, þó svo að ég megi ekki borða hrátt kjöt. Tíminn var með þeim í liði, því við vorum að verða of sein í matinn. Á meðan að þau sauð í mér yfir því að hafa verið dobbluð svona í að gera mér ferð í glæpafyrirtækið til þess að kaupa eitthvað á kostakjörum sem hafi aldrei í boði, gerði ég mér grein fyrir því að hefði ég frekjast í vaktstjóranum hefði ég eflaust fengið pottinn með á sama verði, en enginn annar.

Við ákváðum því að beina viðskiptum okkar annað og keyptum páskaliljur í fyrirtæki sem hafði ekki reynt að plata okkur.

31.3.09

Asnalegt pommelopartý

Í gær rákumst við Einar á ávöxt úti í búð sem heitir pommelo. Hann var með gulu hýði og var um það bil á stærð við melónu. Pommeloið var plastað og í neti, svo það leit út eins og þarna fyrir innan væri brjálað óargadýr sem væri verið að reyna að halda í skefjum. Okkur fannst þetta svo fyndið að við ákváðum að skella okkur á eitt stykki pommelo og halda pommelopartý.

Í kvöld ákváðum við að vinda okkur í partýið. Eftir að hafa spáð í það hvernig það væri á litinn eftir að það væri búið að skera það, sótti ég voldugan hníf og skar kvikyndið í tvennt. Við urðum fyrir talsverðum vonbrigðum þegar við sáum að þetta var bara eins og stórt, gult grape. Eftir að hafa skorið annan helminginn aftur í tvennt afhýddi ég og skar pommelohlutann niður í pommelobita.

Við skulum bara orða það þannig að það besta við þennan ávöxt er nafnið á honum. Hann endaði allur, fyrir utan þessa tvo bita, í pommelohrúgu í ruslinu. Urrrrrr.

Æi vonandi að einhver hirngi í Einar næstu mínúturnar!

Einar fór í bað og bað (haha.. baðbað. Gott stöff) mig um að passa símann sinn. Hann sagði mér að ef einhver hringdi ætti ég að segja viðkomandi að fara í rassgat. Mikið voðalega langar mig að einhver hringi svo ég geti sagt honum að Einar hafi sagt honum að fara í rassgat. Komasvo.

Bumbuleikfimi

Ég fór í kynningatíma fyrir bumbuleikfimi í gær. Mér lýst voðalega vel á þetta. Það var tekinn blóðþrýstingurinn hjá mér, en það verður fylgst með honum í gegnum þetta allt saman. Svo fengum við allskonar ráðleggingar um allan skrambann og það mátti spyrja bara allra þeirra spurninga um mataræði, líkamsrækt, cravings, líkamsstöðu og annað óléttutengt sem hægt var að láta sér detta í hug. Þær taka meira að segja við matardagbókum ef einhver hefur áhyggjur á því að vera ekki að fá næg vítamín eða að vera ekki að borða rétt. Mér finnst það alveg ferlega sniðugt að hafa hjúkrunarfræðinga, einkaþjálfara og aerobic kennara í sömu manneskjunum. Núna get ég bara ekki beðið eftir því að fara að hreyfa á mér rassgatið, enda alveg að mygla á því að liggja uppi í sófa og eiga bágt.

25.3.09

Eins og naggrís í fötum!

Áðan sáum við raðgreiðslurottu í íslenskri lopapeysu. Mér fannst það svo fyndið að ég hló eins og Gilitrutt. Ég skil ekki alveg af hverju fólk fær sér hunda sem eru ekki hundar, heldur meira geltandi naggrísir. Þeir þora ekki að hoppa niður af pínulitlum stólum eða neitt og eru stressaðari en flugumferðastjóri eftir 24 tíma vakt og tvo lítra af espresso. Ekki nóg með það, heldur eru þessir hundar ekki gallaðir upp í íslenskt veðurfar fyrst það þarf að peysa greyjin fyrir labbitúra.

Híhíhíh

21.3.09

Laugardagsteiknimyndir á RÚV

Ég horfi á þær á hverjum laugardegi, þar sem að eiginmaðurinn er duglegri að sofa út en ég og vegna þess að mér finnst teiknimyndir skemmtilegar. Eftir ágætis úttekt hef ég hins vegar komist að því að þessar eru hins vegar ekkert svo frábærar. Ég kann ekki við að fá mér Stöð 2 bara fyrir laugardagsteiknimyndirnar. Ég þarf eiginlega að finna eitthvað út úr þessu.

16.3.09

Who watches the Watchmen?

Við Einar og Vala og Natti. Allavega skelltum við okkur á The Watchmen á laugardaginn. Hún var rosalega fín. Ég held að þetta sé dýpsta ofurhetjumynd í heimi. Hún er líka svo brútal að Steven Segal, sem brýtur hendur með þeim bestu, hefði örugglega kjökrað eins og smástelpa yfir handabrotsatriðunum í henni þessari.

Ég dauðvorkenndi fólkinu sem ákvað að það væri góð hugmynd að fara með krakkana sína að sjá þetta. Þau sátu örugglega skjálfandi á rauðu bíósessunum sínum yfir þessu öllu saman.

14.3.09

Fóbjóður

Ég faldi mig heima hjá mömmu og pabba, borðaði hádegismat og gerði páskaeggjasúkkulaðitilraunir með þeim. Svo hætti ég mér heim þegar "leikurinn" var í þann mund að klárast. "Harróóó!", sagði ég þegar ég gekk inn um dyrnar. Það heilsaði mér sérstaklega gleðilegt "Hæ!" svo ég vissi að það yrði búandi með eiginmanninum það sem eftir væri dagsins. Tóm gleði og hamingja!

10.3.09

Eitthvað rangt við þessa myndEruð þið búin að spotta þetta? Já, kúin lengst til vinstri er ekki með í hópnum. Það er rangt að skilja útundan!

Ég var gerð af Leeds-ara gegn vilja mínum!

Fyrir tveimur vikum síðan var mér tilkynnt af tveimur samstarfsmönnum mínum að ég væri orðin Leedsari. Sama hvað ég maldaði í móinn, kom allt fyrir ekki. Þegar ég sagði að mér þætti fótbolti leiðinlegur og ég vildi ekki horfa á hann var mér sagt að þetta væri alveg tilvalið, þar sem að Leeds væri í svo lélegri deild að þeir væru eiginlega aldrei í sjónvarpinu.

Þegar ég sagði Einari frá þessu, þá íhugaði hann að vísa þessu fyrir mannréttindadómstól Sameinuðuþjóðanna.

Ég virðist meira að segja vera lent á einhverjum Leeds póstlista í vinnunni, þar sem aðrir sem hafa líklega verið gerðir af Leedsörum eins og ég spá í leiki.

Hvað get ég eiginlega gert til þess að af Leedsa mig? Er ekki til einhver athöfn með úðabrúsa fullum af vígðu vatni og geitablóði eða eitthvað?

8.3.09

Eitthvað

Mig langar í eitthvað dótarí. Sem er með gorma og tannhjól inni í sér og segir eitthvað eins og svríííínghh þegar það er notað í þann tilgang sem það var hannað í. Ég veit ekki hvaða eitthvað þetta er. Kannski svona bíla og bílabraut. Eða tæknilegó sem er hægt að byggja flotta hluti úr. Legó fyrir fólk sem er orðið fullorðið og getur beislað kraft þessa rosalega tannhjóla og gorma legós sem segir eitthvað eins og svríííínghh þegar það hefur verið sett saman á viðeigandi hátt.

23.2.09

Gahnatölvupóstssvindlarar

Váts. Ég fékk Nígeríupóst (reyndar segist pósturinn vera frá Gahna). Það eru nokkur ár síðan ég fékk síðast einn slíkan sendan. Ég var farin að halda að Nígeríutölvupóstssvindlararnir hefðu gleymt mér! Mér er skapi næst að svara með reiðum pósti sem spyr hvar í skrambanum þeir hafa verið og að mér finnist það frekar ömurlegt að þeir hafi bara samband þegar þeim hentar. Ég er líka manneskja með tilfinningar!

19.2.09

Af hverju er ég svona íhringileg?

Það líður liggur við ekki dagur þar sem ég fæ ekki símtal frá einhverju fyrirtæki sem vill véla mig í viðskipti við sig. Oftast fæ ég símtal frá símafyrirtækjum sem vill endilega fá að lækka símreikninginn minn. Tryggingafélög eru líka hrifin af mér. Símanúmerið mitt er líklega svo fallegt.

18.2.09

Hann Terry

Ég vildi óska að það væru til fleiri bækur eftir Terry Pratchett

15.2.09

Invaider Zim

Yay! Eiginmaðurinn er bestur og svo á hann líka alla invaider Zim þættina á dvd. Það er betra en best. Hvað er betra en best? Súkkulaðikaka. Já! Hann er súkkulaðikaka!

10.2.09

Kanínan var í hattinum allan tímann!

Ég er búin að vera að horfa á aukaefnið fyrir LOTR síðustu kvöld og tókst loksins hið gífurlega verk að klára að horfa á það allt saman í fyrradag. Ég er voðalega stolt af mér. Þetta var einn af þessum hlutum sem ég ætlaði alltaf að gera. Eftir að hafa hlegið og grátið með Peter Jackson og félögum, komist að því að Viggo Morthensen sé góður gaur og að maður "messi" ekki í áhættuorkum, ákvað ég að horfa á fyrstu myndina aftur. Núna þegar ég veit alltaf hvernig hlutirnir eru gerðir, hvar ég á að leita eftir tölvugrafík og svona, þá finnst mér þetta ekki alveg eins flott og mér fannst það áður.

Kanínan var í hattinum allan tímann.

Þetta er samt alveg feikifín mynd sko!

7.2.09

Svona gerist þetta!

Jóhanna Guðrún bara orðin fullorðin, hætt að skemma útvarp Latabæ og farin að syngja í Eurovision undankeppninni.

28.1.09

Í Viva Piñata...

..falla súkkulaðipeningarnir aldrei í verði og eina pólitíkin sem til þarf er að stígja í sundur dýrum sem eru alltaf að slást. Það er líka alveg á tæru hverjir eru vondukallarnir og hverjir þeir góðu. Ahh.. blessað Viva Piñata! Nú er ég farin að skilja af hverju ég dróg það aftur upp eftir rúm 2 ár. Einfaldari og fallegri heimur!

21.1.09

Oslóartréð - Þegar jólin voru brennd

Hádramatískt ljóð sem ég mátti eiginlega til með að birta.

Það stóð eitt sinn tré hér við torg,
teinrétt og limfagurt vel,
var fraktsent frá Oslóarborg,
forn vottur um vinarþel.

Það var stórt voldugt að sjá,
og ljómaði upplýst um nætur
en það var stór galli þar á,
það vantaði á tréð allar rætur.

Það tré minnir mikið á aðra stoð,
sem mikil var talinn og traust,
sá askur var reifaður sjálfstæðisvoð,
og óx upp eftirlitslaust.

Bankakerfið og Oslóartréð,
enginn hafði á þeim gætur,
þótt stolt þau bæru sitt brum og barr,
báðum á enda þrótturinn þvarr
enda skorti þau bæð' allar rætur.

Trén höfðu ólíkan endi,
en harmi jafnt hlutskipti sitt,
annað þjóðina brenndi,
en þjóðin brenndi hitt.

15.1.09

Samúðarlasin

Ég er sem sagt ekki lasin. Ég nenni ekkert að standa í svoleiðis veseni. Hins vegar hef ég ekki sofið sérstaklega vel síðustu þrjár nætur þar sem að helmingurinn er á því að það sé ekkert verri tími en hver annar til þess að reyna hósta upp úr sér lungunum. Aumingja lasni Hr. Mon. Af tvennu illu, þá vel ég auðvitað að vera ósofin frekar en lasin OG ósofin. Verst bara að ég dett ofan í svefngalsa og rugl. Bíddu. Sagði ég verst? Nei, það er pottþétt besti parturinn af þessu. Versti er.... að vera syfjuð augljóslega. Vá. Það ætti ekki að leyfa mér að póska í þessu ástandi! Ég þyrfti að bæta við lítilli svefn-athugunar scriptu sem keyrist upp alltaf þegar ég er að setja mig í póskstellingar. Kannski gæti hún komið með random bjánaleg eða barnaleg orð og svo yrði athugað hvort ég færi að hlægja.

Kúkur!

Heh heh.

11.1.09

Það var gerð tilraun til þess að drepa mig í dag

Ég fór í átta ára afmæli hjá frænda mínum kl. 13 og fór svo í fimm ára afmæli hjá vini mínum honum Andra Frey kl. 15. Það er stórt afrek fyrir hvern sem er að höndla tvö kökuboð á sama degi. Ég tala nú ekki um ef í seinna kökuboðinu eru veitingar og hvatningar til frekari átu á slíku stigi að hvaða sveita-amma sem er myndi taka af sér svuntuna og viðurkenna ósigur.

Ég þurfti að sitja sem fastast í næstum fjóra tíma til þess að jafna mig og safna kjarki í að troða mér í gegnum hurðina og rúlla mér út í bíl. Mikið var þetta samt gott allt saman!

8.1.09

Sjónvarps- og tölvubann

Í þessari viku hef ég sett á mig sjónvarps- og semi tölvubann (má fletta upp á ja.is, skoða vinnutölvupóstinn og athuga opnunartíma á búðum) þegar ég kem heim úr vinnunni á daginn. Þetta hefur gert það að verkum að ég hef sinnt áhugamálum og heimilisstörfum af þvílíkum krafti að þau bara vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Eldhússpreyjið situr inni í skáp og grætur og saumavélin er öldungishlessa að fá ekki bara að hvíla sig uppi í drottningaturninum eins og venjulega.

Við afjóluðum pleisið í gær, svona fyrst að jólin eru búin. Svo er ég búin að sauma þrjú skrímsli (eitt með fjórar fætur og eitt með uni-brow. Þau eru geðveikt kúl), líma laufblaðaveggskraut á laaaanga vegginn hjá stiganum og klippa út laufblöð úr svörtum pappír til þess að setja í körfu fyrir neðan laufblaðaveggskrautið, jógast, skrifa matar- og innkaupalista fyrir alla vikuna, skoða helling af matreiðslubókum, lesa fullt, fara í kósíkósíbað og skoða borðstofuborð.

Það er ekki hægt að gera ekki neitt og ef tölva og sjónvarp er ekki inni í myndinni þarf að finna sér... eitthvað. Það er bara nokkuð skemmtilegt skal ég segja ykkur!

4.1.09

Ég bara verð að pósta þessu

Stutt rant um hvað Stephen Fry er frábær..

Ég var að horfa á heimildaþátt sem var gerður í tilefni af 50 ára afmæli Stephen Fry. Þessi maður er svo mikill snillingur að það er bara ekki hægt að koma orðum að því. Hann er ekki bara fyndinn og hæfileikaríkur, heldur er hann alveg eldklár.

Eftir því sem ég kemst næst, þá er það eina sem hann getur ekki gert það að spila íþróttir og dansa. Magnað að konu sé ennþá svona vel við hann!

3.1.09

Vá gott stelpó!

Í gærmorgun var ég syfjuð. Þegar klukkan hringdi, þá fór ég ekki beinustu leið á fætur eins og ég geri venjulega, heldur steinsofnaði ég aftur. Þegar Einar var búinn að tannbursta sig og svona vakti hann mig aftur. Á leiðinni í vinnuna spurði hann mig hvort það hefði verið erfitt að vakna í morgun. "Neits!", sagði ég. "Það var ekkert mál! Ég vaknaði meira að segja tvisvar!".

Ég var meira og minna geispandi í gær. Svo spilaði ég roleplay til næstum því fjögur í morgun eins og bjáni. Í dag er ég búin að vera eins og uppvakningur. Ég ákvað að ég yrði að dekra eitthvað við mig fyrst ég ætti svona bágt, svo ég fór í almennilegt stelpó. Við erum að tala um billjón kerti, slökunartónlist, andlitsskrúbb, líkamsskrúbb, fancy freyðibað sem heldur því fram að það hafi afslappandi áhrif, hármaska sem þarf að skilja eftir í hárinu í a.m.k. korter, andlitsmaska, rakakrem, body lotion, body spray, handáburð og fótáburð. Úff hvað mér líður vel núna. Ég er ennþá frekar sybbin, en ég er svo afslöppuð og mjúk eitthvað allstaðar að það er ekkert smá.

Einu sinni ætlaði ég að hafa svona stelpó einu sinni í viku. Ég er alveg á því að það sé góð hugmynd!

1.1.09

Í fyrra...

...flutti ég aftur til Íslands
...keyptum við Einar bíl
...byrjaði ég í fyrstu "ekki sumar- eða hlutastarfs vinnunni minni". Vúúhú
...keyptum við kastalann (verðtryggð lán frá Íbúðalánasjóði. Húrra fyrir því að það sé 2.5 milljónum hærra en þegar við tókum það) sem er miklu, miklu, miklu flottari og frábærari en ég ímyndaði mér nokkru sinni að okkar fyrsta íbúð yrði
...eyddum við hellings tíma og vinnu með hellings hjálp frá æðislega fólkinu okkar í að gera kastalann upp
...giftumst ég Einarinum mínum
...héldum við fyrstu jólin okkar saman

Bara prýðilegt ár!