14.2.08

Svo fullorðin hún Óskin

Í gærkvöldi þurftum við Einar aðeins að kíkja í Smáralindina. Á röltinu tók ég eftir litlum strák sem var að gera frekar viðvaningsleg handahlaup. Í smá stund heltók mig þessi líka rosalega löngun til þess að handahlaupa framhjá honum og sýna honum hvernig þetta væri nú gert í alvörunni. Svo mundi ég að ég væri orðin virðuleg og fullorðin og hafi farið í business lunch á Hilton hótel Nordica í hádeginu og eitthvað, svo ég labbaði bara framhjá og reyndi að segja stráknum bara með augunum að ég myndi OWNA hann í handahlaupum ef ég bara nennti því.

Annars átti ég sérstaklega ljóskulegt augnablik stuttu áður. Valan mín hafði týnt símanum sínum og ég hringdi í vin hennar fyrir hana til að athuga hvort síminn hennar væri þar. Stuttu seinna hringdi hann í mig og tilkynnti mér að hann hafi fundið símann og ætlaði að skutlast með hann til hennar og spurði mig hvort ég vissi hvort hún væri heima. Ég sagði honum að ég myndi hringja í hana og gá og láta hann vita ef hún væri ekki við. Eftir eitt *dút* fattaði ég að.. *döh* síminn var á þessari stundu í bílnum hjá gaurnum sem var að skutla honum til hennar. Gott stöff.

8.2.08

Urrrr segir hann!

Vindurinn urrar eins og þríhöfða hundur sem heitir Fluffy. Svo blæs hann og kvæs og feykir húsunum hjá 2/3 af grísafjölskyldu niður. Illa gert segja sumir, á meðan að aðrir vilja meina að grísirnir séu vondu kallarnir í þessari sögu. Eh. Vondu grísirnir. Kannski byggðu þeir húsin sín vísvitandi úr stráum og spýtum til þess að svindla á tryggingunum. Ef úlfurinn hefði ekki borðað þá, væru þeir örugglega fluttir frá Gríslandi til Svínþjóðar, þar sem þeir myndu lifa velmegunarlega á tryggingapeningunum. Hvað vitum við?

7.2.08

Just keep driving, driving, driving

Við erum að passa pleisið hjá tengdó á meðan þau eru í Dómeníska lýðveldinu. Það er í salahverfinu í Kópavoginum (íbúðin, ekki Dómensíka..) og okkur líkar afskaplega vel hérna. Ég kann sérstaklega vel við baðið, sem er svo stórt að ég er búin að vera að spá í hvort ég geti grætt peninga "on the side" með því að selja fólki inn og ljúga að því að þetta sé Salalaugin.

Í dag, eins og flest ykkar hafa orðið vör við, þá var aftur veður sem var pantað hingað af Hel og jeppaframleiðendum. Það tók 40 mínútur fyrir mig að komast úr dýpstu djúpum Kópavogsins, skutla Einari og komast í vinnuna. Ég ljómaði af stolti þegar ég renndi inn á planið án þess að hafa fest mig svo mikið sem einu sinni alla leiðina. Akkúrat þegar stoltið kviknaði í brjóstinu festi ég mig á planinu. Æðislegt. Sem betur fer tók það ekki nema rétt rúmar 10 sekúntur fyrir vörpulegan mann að vinda sér út úr næsta bíl og ýta bílnum og mér úr prísundinni. Lifi vörpulegir, hjálpsamir karlmenn í vonsku veðrum!

5.2.08

Sweeney Todd

- Djöflarakarinn á Flotastræti. Eða eitthvað svoleiðis.

Allavega, við Vala áttum sérstaklega menningalegan gærdag. Menningin byrjaði eiginlega í síðustu viku þegar við fórum á Þjóðmynjasafnið og skoðuðum m.a. kuml sjóði og skakka silfurbikara sem voru í eigu kirkjunnar og mátuðum hringabrinju hjálm, sverð og skjöld fyrir framan spegil. Virkilega "empowering". Part af mér langaði til þess að öskra "I AM NO MAN" að speglinum og stinga hann í miltað.... Eða líklega stinga hann bara í spegilinn þar sem að ég hef það fyrir víst að speglar hafi ekki miltu.

Í gær skoðuðum við hins vegar margar hliðar menningar eins og td. veitingastaðamenningu, kaffihúsamenningu, listmenningu (fórum á Kjarvalsstaði), neyslumenningu og kvikmyndahúsamenningu. Við enduðum ásamt Einari sínum í Kringlubíói að horfa á einn af mínum uppáhalds leikurum, Johnny Depp syngja, drepa og gera allt annað sem uppáhalds leikstjórinn minn Tim Burton (m.a. faðir uppáhalds myndarinnar minnar, The Nightmare Before Christmas) sagði honum að gera. Ósk fannst myndin æði, Einari fannst myndin ágæt og Vala varð fyrir vonbrigðum. Ætli meðtaltalið sé þá ekki "ágæt". Leiðinlegt að við notum ekkert meðaltal eða málamiðlanir á þessari síðu, heldur aðeins drottningarlegt alvald og einræði.

Niðurstaðan er því að Sweeney Todd sé æði.

1.2.08

Listinn

Bíll - Check
Vinna - Check
Íbúð... ehm... I'll get back to you seinna í ár.