12.12.08

Ég er í fýlu!

Ég er í fýlu út í Einar. Hann er svo heppinn að hann lagði sig, þannig að hann veit ekkert að ég er í fýlu út í hann. Ég verð örugglega búin í fýlu þegar hann vaknar. Það er spurning um að gera eitthvað brjálað af mér núna svo ég muni eftir því að ég hafi verið í fýlu. Fylla sokkana hans af smákökum eða eitthvað. Svo þegar hann verður alveg: "ÓSK! Af hverju eru sokkarnir mínir fullir af smákökum??" Þá get ég sagt: "Ahh já! Ég var í fýlu út í þig!"

Það sem hann gerði af sér var að fara að leggja sig á meðan ég var að bisast við að breyta vegglampa í ljós (þið vitið.. svona sem er hægt að slökkva og kveikja á með alvöru slökkvara). Svo prílaði ég upp í stiga og festi vírana saman til að tékka á því hvort að þetta virkaði.. og sló rafmagninu aftur á og þá kom bara sprenging og ein peran sprakk. Og.. og.. ég þurfti að skrúfa allt niður aftur og setja rússann aftur upp í staðinn og skammast mín fyrir að hafa vera að gera einhverja vitleysu og að hafa ofmetnast eftir að hafa sett upp átta ljós og halda að ég væri meistari allra ljósa. Já.. og hann bara.. svaf! Á meðan að ég skammaðist mín.

Svo ætlaði ég að fara að horfa á fréttirnar og þá virkar sjónvarpið ekki. Kemur bara eins mikill snjór þar eins og sá sem er úti. Fyrir 20 mínútum síðan hefði ég örugglega farið að leita að vandamálinu, en núna skammast ég mín fyrir að halda að ég sé meistari rafmagns og ljósa, þannig ég tók fýluna út á kreppunammi sem ég beit ógeðslega fast í og tuggði eins og það skuldaði mér peninga.

Neinei. Ég er ekkert í fýlu við Einar í alvörunni. Ég ætla ekkert að fylla sokkana hans af smákökum. Það eru bara jólasveinar sem gera svoleiðis.

Engin ummæli: