28.12.08

Nýtt dót er æðislegt!

Það er alveg ofboðslega gaman að geta orðið spennt yfir litlum hlutum. Á meðan ég skrifa þessi orð er ég alveg geypilega spennt yfir því að ég er að vígja nýja leirpottinn sem ég fékk í jólagjöf frá mömmu og pabba. Mig hefur langað í svona pott í þvílíkt langan tíma. Í svona áhaldi er hægt að hægelda kjöt þangað til að það verður svo mjúkt að það má borða það með skeið. Ekki það að ég mæli með því að fólk borði kjöt með skeið. Það er bara eitthvað rangt við það. Eins og að borða þykka súpu með gafli eða eitthvað. Svoleiðis gerir kona bara ekki!

Ég er að búa til nýja tegund af bjórpottrétt í honum, en þar sem að við áttum svo mikið af malti ákvað ég að nota svoleiðis í staðinn. Maltpottréttur. Jólalegt!

25.12.08

Milliheimafatatíminn

Frá því kl. svona 12:45 og fram að fyrir svona 10 mínútum síðan, hefur verið sá tími sem ég hef þurft að skipta út heimafötunum yfir í spariföt. Það koma nokkrir slíkir klukkutímar hver jól. Ég er alltaf sérstaklega ánægð með að fara aftur í heimafötin eftir jólaboðin, því að fínu fötin fara að þrengja að meira og meira eftir því sem líður á daginn. Skrítið..

Gleðileg jól!!

Æi hvað jólin eru skemmtileg :o) Það gekk bara voða vel að búa til jólamatinn. Núna get ég líka komin í jólamatstilbúaraklíkuna og get horft niður á alla sem hafa ekki gert sinn eigin jólamat. Ég er ennþá södd síðan í gær, en ég er samt að borða nammi, af því að jólin eru þannig. Giftingahringurinn er orðinn talsvert þrengri en í gær morgun, út af vökvasöfnun.

Hey! Ég á tvo skvassspaða! Ég fékk einn frá mömmu og pabba og annan frá Einari sínum. Það ganga allir út frá að ég vilji skila öðrum, en ég er að spá að nota bara báða í einu. Það getur ekki annað verið en ég fari að vinna Einar í skvassi ef ég er með spaða í hvorri hönd.

20.12.08

Jólaeitthvað

Það er ennþá að snjóa. Það á að snjóa alveg þangað til að það fara að koma jól. Þá fer að rigna. Ósanngjarnt! Þetta eru fyrstu jólin sem við Einar höldum bara tvö. Hingað til höfum við skipt liði og ég verið heima hjá foreldrunum og hann hjá tengdó. Þetta árið ákváðum við að jólast bara tvö, fyrst við erum gift (heyrðu nei.. við erum víst ekkert gift. Við erum hjón. Konur giftast og menn kvænast, því að það er alltaf gott að hafa eitthvað almennilega karlrembað í orðhefðum. Einar talaði um kvæningahringinn sinn. Mér fannst það fyndið) og svona. Jól að hætti Hr. Mon og Frú Bænarí. Okkur hefur tekist að sameina jólamatinn okkar alveg ágætlega. Þetta árið hins vegar mun ég gera tvær týpur af sósum og svo verður haldin leynileg kosning um hvor mun verða official Mon-Bænarí jólasósan.

Í gær fékk ég afmælisgjöfina mína frá Skýrr. Hún er ekkert smá flott. Ég held ég hafi aldrei séð svona stóra körfu áður. Karfan var alveg stútfull af allskonar velmegunarmat og sumum sem ég kann ekkert að borða. Allur maturinn á það sameiginlegt að vera eitthvað sem ég hef aldrei keypt sjálf. Geðveikt spennó. Svo var líka einn pakki. Kvennlegt innsægi mitt segir að þetta sé bók. Úff hvað mér finnst gaman að fá gjafir.

13.12.08

Toppurinn í dag!

Ég fór í klippingu áðan. Klippikonan mín hefur suðað í mér lengi að fá að klippa á mig topp og ég ákvað að leyfa henni það núna, þar sem að ég þarf ekkert að hafa áhyggjur á að líta út eins og bjáni á brúðkaupsdaginn lengur. Ég hef ekki haft topp síðan ég var krakki. Hann er bara ekkert svo slæmur.

12.12.08

Ég er í fýlu!

Ég er í fýlu út í Einar. Hann er svo heppinn að hann lagði sig, þannig að hann veit ekkert að ég er í fýlu út í hann. Ég verð örugglega búin í fýlu þegar hann vaknar. Það er spurning um að gera eitthvað brjálað af mér núna svo ég muni eftir því að ég hafi verið í fýlu. Fylla sokkana hans af smákökum eða eitthvað. Svo þegar hann verður alveg: "ÓSK! Af hverju eru sokkarnir mínir fullir af smákökum??" Þá get ég sagt: "Ahh já! Ég var í fýlu út í þig!"

Það sem hann gerði af sér var að fara að leggja sig á meðan ég var að bisast við að breyta vegglampa í ljós (þið vitið.. svona sem er hægt að slökkva og kveikja á með alvöru slökkvara). Svo prílaði ég upp í stiga og festi vírana saman til að tékka á því hvort að þetta virkaði.. og sló rafmagninu aftur á og þá kom bara sprenging og ein peran sprakk. Og.. og.. ég þurfti að skrúfa allt niður aftur og setja rússann aftur upp í staðinn og skammast mín fyrir að hafa vera að gera einhverja vitleysu og að hafa ofmetnast eftir að hafa sett upp átta ljós og halda að ég væri meistari allra ljósa. Já.. og hann bara.. svaf! Á meðan að ég skammaðist mín.

Svo ætlaði ég að fara að horfa á fréttirnar og þá virkar sjónvarpið ekki. Kemur bara eins mikill snjór þar eins og sá sem er úti. Fyrir 20 mínútum síðan hefði ég örugglega farið að leita að vandamálinu, en núna skammast ég mín fyrir að halda að ég sé meistari rafmagns og ljósa, þannig ég tók fýluna út á kreppunammi sem ég beit ógeðslega fast í og tuggði eins og það skuldaði mér peninga.

Neinei. Ég er ekkert í fýlu við Einar í alvörunni. Ég ætla ekkert að fylla sokkana hans af smákökum. Það eru bara jólasveinar sem gera svoleiðis.

11.12.08

Alveg snarklikkað súkkulaði

Allavega upp á enskuna. Það er nefnilega bæði fruity og nutty. Ég er að vera hroðalega mikill prakkari og borða súkkulaði svona þegar það er ekkert helgi. Þetta er kreppusúkkulaði sem ég keypti af syni manns í vinnunni hjá mér, en hann er að safna sér fyrir handboltaferð. Það er gaman að það séu ennþá handboltaferðir. Og súkkulaði. Þó þau séu með hnetum.

8.12.08

Af hverju þarf svona mörg ljós?

Það eru ekkert smá mörg ljós sem þarf í eitt hús. Of mörg ef þið spyrjið mig. Kannski mátulega mörg ef þið spyrjið mig eftir ár. Ég er búin að vera að setja ný ljós upp í kastalanum. Er komin með fjögur, plús að hafa endurvírða eitt "gamalt" ljós sem hefur aldrei virkað rétt. Það eru sex ljós eftir. Fjögur uppi og tvö í stiganum.

Ég er þreytt í handleggjunum. Þeir eru sko ekki vanir því að vera teygðir hátt upp fyrir haus með 50 kg (okay.. ekki 50 kg.. en næstum því) borvél í höndunum. Spurning um að hætta bara við og hafa vasaljós út um allt hús. Ég er viss um að innlit útlit fólkið myndi éta það upp með skeið og þurka á sér munninn með auglýsingatekjuávísun frá vasaljósafyrirtæki.

6.12.08

Ég er með svarta beltið í að taka mig til!

Og að googla. Þetta er reyndar alveg óskilt, en ég bara mundi eftir því að ég hefði líka fengið svarta beltið fyrir gúgl allt í einu

3.12.08

Tveir og hálfur tími well spent

Fólkið sem bjó á undan okkur í kastalanum... eða fólkið sem bjó á undan fólkinu sem bjó á undan okkur í kastalanum, ákvað að það væri góð hugmynd að setja einhverjar svaka filmur á eldhúsgluggann. Í kvöld sat ég uppi á borði og skóf þessa hroðalegu filmu stanslaust í tvo og hálfan tíma, með gluggasköfu. Ég er búin með eina rúðuna af þremur. Mér finnst eiginlega að ég ætti að senda einhverjum reikning fyrir útskulduðum tíma.

Hugsið um þetta, kæra fólk, áður en þið filmið gluggana ykkar; Það tekur kannski 15 mínútur að skutla þessu upp, en það tekur heilan helvítis vinnudag að ná þessu af aftur!

Ég gleymdi að borða jólin í morgun

Mundi ekki eftir því að borða þau fyrr en rétt í þessu. Á hverju ári, í desember, borða ég smá af jólunum, þangað til að þau sjá að sér og koma.