27.11.08

Ég er skautadrottning

Eða... ég er drottning og ég var á skautum. Skautadiskó meira að segja! Ég hef ekki farið á skauta í þvílíkan tíma, en ég stóð mig bara ansi vel og datt aldrei. Þetta hefði verið ennþá betra hefði ekki verið svona mikið af krökkum þarna. Krakkar eru svo óútreiknanlegir og ekkert voða duglegir að fara beint, svo að ég þurfti að hafa mig alla við til þess að skauta þá ekki niður eða verða sjálfri mér að voða. Kannski sýnir það bara að ég er ennþá betri á skautum en mér óraði fyrir!

Ókay.. reyndar ekki. Einar reyndi að kenna mér að skauta aftur á bak og það var ekki að gerast. Mér líður eins og Zoolander sem gat ekki beygt til vinstri. Ég bara get ekki... skautað aftur á bak!

26.11.08

Brrrrr

Það er kalt úti. Ég veit það vegna þess að ég og Hr. Mon vorum í labbitúr og tásurnar á honum frusu og kinnarnar mínar. Núna er ég eins og bótox fólkið í henni Hollywood sem getur ekki brosað.

24.11.08

Ég heiti Ósk og ég á ekki moggablogg

Hvorki "alvöru", blogg aðeins til þess að kommenta, né gervimanneskju með öfgakendar og vitlausar skoðanir blogg til þess að gera aðra brjálaða. Mér finnst þau reyndar lúmskt fyndin, því að það er ansi mikið af venjulegu fólki með öfgakendar og vitlausar skoðanir til þarna fyrir svo að stundum sér kona það alveg vera að pissa í buxurnar af reiði á kommentunum við bullbloggin. Reyndar, þegar ég fer að spá í því, þá gæti það vel verið að meiri hlutinn af þessum bloggum sé í raun bullblogg og allir bullbloggararnir séu að grilla í hvorum öðrum, hlægjandi í sínu horni yfir því hvað þeir eru að æsa hinn aðilann upp. Það gerir þetta eiginlega bara miklu fyndnara.

Ég held líka svolítið upp á síðu-hit fíklana sem skrifa eitthvað bjánalegt við hverja frétt til þess að fá fleiri heimsóknir. Þeir minna mig nefnilega pínulítið á litla krakka í fullorðinsboði og mér finnst litlir krakkar alltaf svo skemmtilegir. Okay.. ekki alltaf. Oftast.

22.11.08

Ekki lengur heltönuð

Á miðvikudaginn í síðustu viku fór ég í brunkusprey. Það fer þannig fram að kona striplast fyrir framan starfskonu snyrtistofu sem er vopnuð voldugum úðabrúsa. Kona er svo látin snúa sér á allar hliðar og lyfta höndum fram og til baka til þess að það náist að spreyja hvern krók og kima.

Strax það kvöld var ég orðin alveg heltönuð. Spreykvendið hafði sagt mér að ég mætti ekki fara í sturtu fyrr en næsta dag. Augun í mér voru blárri en allt og hárið ljósara en nokkru sinni fyrr, þegar mótvægið við húðina var svona mikið. Ég var eiginlega orðin svolítið smeik þangað til að ég skellti mér í sturtu daginn eftir og horfði á vel brúnt vatnið renna ofan í niðurfallið. Eftir tvær sturtur í viðbót var ég bara voðalega fín og sæt.

Núna er eins og ég hafi aldrei farið í þetta sprey. Þar sem að tanið entist nægilega lengi til þess að ég gæti vanist því að vera ekki eins hvít eins og snjór eða A4 prentarablað er ég alveg gáttuð á því hvað ég er nú ljós á litinn.

Ég þarf að passa mig að verða ekki tanorexic.

21.11.08

Gústaf

Við Einar erum búin að vera uppi í sumargústaf síðustu 3 daga. Það er svo mikil snilld að það er ekkert smá. Elda lambalundir og lambafillet, slappa af í pottinum þegar okkur dettur í hug, kúra, lesa, teikna og spila. Úfff.. við ættum að gera þetta oftar!

Hey já. Við fórum svo á Bond áðan. Bond 2.0 er svo kúl.

18.11.08

Það er svo gaman að vera hjón

Þetta er eiginlega bara alveg allt annað líf skal ég segja ykkur. Við erum búin að vera að gefa hvoru öðru hnefaknús með hringahöndunum. Það er líka rosalega gaman að halda fram hringahendinni og láta hitt kyssa hringinn eins og kona sé mafíósi. Svo hendum við því fram við tækifæri að við séum "hringa-buddies".

Við fengum líka svo marga pakka að það var alveg svakalegt. Fleiri en ég fékk þegar ég fermdist og þeir voru allir svo flottir og smart skreyttir að við ætluðum ekki að tíma að opna þá. Þeir voru barasta ALLIR æðislegir. Ég held að það sé eitthvað met.

16.11.08

Frú Ósk

Þetta er fyrsta póskið mitt sem gift kona. Frú Ósk Bænarí og Herra Einar Mon. Gærdagurinn var æðislegur í alla staði. Það var rosalega skrítið að vera manneskjan sem labbaði kirkjugólfið með pabba sínum, í staðinn fyrir að fylgjast með frá kirkjubekkjunum. Einar var náttúrulega alveg ofboðslega fínn og sætur í smókíngnum sínum og við sögðum alveg já á réttum stöðum og allt það. Söngurinn var alveg frábær og mér fannst líka voða gaman að heyra orðin "Þú ert Ósk, þú ert Óskin mín" sungin í kirkju. Ég hugsa að þetta sé í fyrsta og eina skiptið sem það gerist.

Myndatakan var bara skemmtileg, veislan og maturinn æði og Daði alveg frábær sem veislustjóri. Ég sullaði ekki einu sinni neinu á kjólinn minn og ég datt aldrei um hann. Það var heldur ekkert mál að fara á klósettið í þessari múderingu, því ég hafði fengið góðar leiðbeiningar :o)

9.11.08

Skrítið

Það er mjög skrítið að lenda á þannig stað í lífinu að sumir eru að óska mér til hamingju á meðan að aðrir eru að samhryggjast mér.

Það er svo skrítið að einhver sem hefur alltaf verið til staðar, síðan áður en þú fæddist og áður en foreldrar þínir fæddust, sé farinn. Sérstaklega þegar þetta gerist svona allt í einu. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja. Núna er ég bara sorgmædd.

5.11.08

Ég er syfjuð og ég er með liðað hár

Ég er svo sybbin að ég gæti sofnað standandi á tónleikum með megadeth. Ég ætla samt ekki að sofna. Ég er ekki gerð fyrir það að leggja mig. Þegar ég vakna aftur er ég ennþá syfjaðari en áður, nema grumpy eins og litlu börnin og svo get ég ekki sofnað um kvöldið.

Ég fór í prufu greiðslu og prufu förðun áðan. Ég er ennþá með liðað hár eftir þetta, en ég greiddi úr mér einhverja túberingu. Ég sat áðan í stólnum hjá förðunardömunni og horfði á mig í speglinum með einu máluðu auga og einu án málningar.. og með hárið greitt og spreyjað, svo það sást í ræturnar sem á að laga á mánudaginn. Á því augnabliki gerði ég mér grein fyrir því að það fer í alvörunni bara að bresta á með brúðkaupi.

Við erum meira að segja búin að raða fólki niður á borð. Ég trúði ekki þeim sem sögðu mér að það væri meira en að segja það. Svo kom í ljós að það er í alvörunni bölvað maus að ákveða hverjir eiga að sitja saman. Ég ætla að segja ykkur það núna, svo þið getið ákveðið að trúa mér ekki.

3.11.08

Kökutoppur. Eða eitthvað svoleiðis

Við erum búin að snarast út um allan bæ að leita að brúðhjónastyttu ofan á kökur, sem er drottningu sæmandi. Okay, ekki einu sinni drottningu. Ég myndi sætta mig við eitthvað sem er eitthvað meira en hjólhýsabúa sæmandi núna. Ég held að við séum búin að fara í allar búðir og bakarí sem eru til á öllu Íslandinu. Meira að segja hann Jói Fel, sem ég hefði veðjað á að ætti í það minnsta snobbaða kökutoppa átti bara eitthvað rosalega cheesy. Við erum að tala um comic fígúrur, þar sem brúðurin var með stærri brjóst en strandvörður og botox í vörunum, og brúðguminn náði henni upp að hnjám og var feitur.

Í einu bakaríinu sem við fórum í voru bara til kökutoppar með 20 cm háum Mikka og Mínu mús, dubbuðum upp í brúðarskrúða. Einmitt það sem ég vil! Rottur á kökunni minni. Hin, sem voru á annað borð með eitthvað í þessa áttina voru með Jóa Fel sílíkonið, eitthvað úr plasti eða eitthvað frá föndurstund á leikskóla.

Í föndurbúðinni Föndru hittum við fyrir alveg hreint rosalega yndæla afgreiðslumær sem vildi allt fyrir okkur gera. Hún þóttist viss um að hún ætti ekkert sjálf, en taldi upp búðir sem væru líklegar til árangurs. Við vorum búin að fara í þær allar. ALLAR! Okkur að kenna að vera að gifta okkur í nóvember eins og... eins og.. tja enginn annar greinilega. Okkur tókst þó að grafa upp brúðhjónastyttu þar sem innihélt hvorki sílíkon, bótox eða rottur og keyptum hana til vara.

Af hverju var ég ekki búin að tala við internetið áður?