14.10.08

Komin í ruglið

Í morgun var ég sprautuð, svo tók ég einhverja töflu og svo upp úr hádegi tók ég eitthvað sem var blandað út í vatn.

Sko.. svona svo fólk fari ekki að fá áfall, þá er ég ennþá sama góða Óskin sem heldur sig frá öllum ólöglegum vímuefnum. Ég fór í flensusprautu í fyrsta sinn í morgun. Ég og sprautur erum ekki bestu vinir, svo ég var ponsu kvíðin. Þetta gekk samt allt voðalega vel og eftir pínulitla stungu var ég bólusett og plástruð. Sprautukonan sagðist hafa vandað sig sérstaklega vel við mig fyrst ég var ekki sprautuvinur.

Ég verð eiginlega að viðurkenna að ég er stundum með samviskubit yfir þessari sprautufóbíu minni. Mér finnst eins og ég ætti að vera að gefa blóð og ég vildi að ég gæti það. Ég bara þori því ekki. Eruð þið með einhverjar tillögur um hvernig ég get yfirstigið þetta? Það er ekki stungan sem ég er hrædd við. Líkaminn minn virðist bara ekki höndla nálina og mér svimar og það hefur liðið yfir mig og allt.

Já. Allavega. Svona fimm mínútum eftir sprautunina fékk ég þennan líka rosalega hausverk. Mér leið eins og að hausinn á mér væri við það að klofna í tvennt og Ronja myndi búa öðru megin og Birkir Borgason hinu megin. Eftir einhvern tíma trítlaði ég niður í afgreiðslu og fékk verkjatöflu. Hún gerði ekkert gang og rétt fyrir hádegi var ég að spá í að hringja í Einar sinn og fá hann til þess að skutla mér bara heim. Það var í þann mund sem hann Addi var að sýna mér viðbjó-verkefnið sitt. Hann snaraðist til og sótti fyrir mig eitthvað fyrirbæri sem heitir TREO. Það eru gostöflur sem eru vondar á bragðið og sizzla eins og beikon. Ein svona tafla bjargaði lífi mínu og sendi skógarnornir og rassálfa öskrandi aftur til Svíþjóðar.

Áfram TREO.

Engin ummæli: