19.10.08

19. október

Skrítið. Þegar ég var lítil man ég eftir því þegar pabbi sagði að tíminn liði rosalega hratt eftir að maður væri orðinn 25 ára. Hann hefur líklega verið svipað gamall og ég er í dag þegar hann sagði þetta. Ég er að upplifa þetta núna. Það er sunnudagskvöld og ég veit að ég þarf bara að loka augunum og opna þau aftur til þess að það verði næsta sunnudagskvöld. Í síðustu viku flutti ég til Íslands aftur. Í gær var sumar.

Ég á afmæli á miðvikudaginn. Ég verð eins gömul og Jim Morrison, Jimmy Hendrix, Janis Joplin og allir hinir rokkararnir sem byrjuð á J urðu nokkurn tímann. Í kringum mig kvartar fólk yfir því að það sé orðið fullorðið. Ég hef ekki áhyggjur af mínum aldri. Ég er nákvæmlega þar sem ég myndi vilja vera, næstum því 27 ára gömul. Ég sé ekki eftir neinu. Það er ekkert sem ég mundi vilja hafa gert sem ég hef ekki gert. Eða.. allavega ekkert sem stingur.

Ég á tvær háskólagráður. Eina bachelors og eina masters. Ég er í vinnu sem er fjölbreytt og þar sem ég fæ að bera ábyrgð. Ég á íbúð í raðhúsi.. með garði, tveimur stigum og drottningaturni. Ég á yndislegan Einar sem ætlar að giftast mér eftir minna en mánuð. Þegar við hittum prestinn spurði hann okkur í gamni hvort við værum til í að halda námskeið fyrir önnur pör.

Ég er ekki hrædd við að eldast. Ég vil frekar vera þar sem ég er í dag eða þar sem ég verð á morgun, en þar sem ég var þegar ég var tvítug. Framtíðin er björt og mér er eiginlega sama ef ég þarf að borga hærri skatta, hærri íbúðarlán eða skafa bílinn á morgnana. Ég er glöð. Þegar allar umfjallanir í fjölmiðlum eru neikvæðar og umræður um krepputal hóta því að kæfa mig ætla ég að muna að ég er hamingjusöm.

Engin ummæli: