4.9.08

Vonin..

Ég á plöntu. Hún heitir Róbert og er drekatré. Ég hef áður átt drekatré og þá batt ég vonir við að einn daginn myndi dreki vaxa á því, ekki ósvipað og epli gera á eplatrjám. Ég væri alveg til í að eiga minn eigin dreka. Allavega svo lengi sem að hann safnaði ekki saman öllu glansandi í húsinu og byggi til úr því haug sem hann kúrði á. Prinsessur mætti hann alveg veiða sér til matar, þar sem að ég er drottning og því ekki staðgóð máltíð fyrir vaxandi dreka.

Vonir mínar um drekaeign brotnuðu, brustu og var sópað undir teppi vonbrigðana fyrir nokkrum árum síðan. Núna horfi ég í áttina að Róberti og hugsa "ég veit það á ekki eftir að gerast..... en kannski gæti það gerst". Svona virkar vonin. Ég veit að það eru engar líkur á því (og sérstaklega ekki ef ég spila ekki með).. en kannski vinn ég í lottóinu í á laugardaginn. Kannski. Kannski tekur dreki á móti mér á morgun þegar ég kem úr vinnunni.

Engin ummæli: