31.8.08

Sætt og disturbing

Ég var að jamma

Sko.. þá meina ég "the act of making jam" eða "sulta" upp á góða íslensku. Reyndar hefði ég notað gæsir niðri, gæsir uppi ef þetta væri góð íslenska, en fyrst ég er ekki með talnaborð, þá er ég ekkert að stressa mig á því.

Ég týndi slatta af rifsberjum hjá foreldrunum og sultaði svo úr þeim eins og besta 50's húsmóðir. Eða bjó til "gel" sko. Rifsberjahlaup eða eitthvað. Helmingurinn er venjulegur og svo gerðist ég skapandi og skellti xylitoli í staðinn fyrir sykur í hinn helminginn. Þetta lítur bara ansi vel út hjá mér þó ég segi sjálf frá. Núna þarf ég bara að láta mér detta í hug hvernig hægt er að nýta þetta allt saman (6 og hálf krukka).

Skrambans IKEA

Af hverju er það svona langt í burtu? Ég þarf að kaupa krukkur og núna þarf ég að fara að leita að vegabréfinu mínu og eitthvað. Ég er búin að hringja í svona næstum því alla sem ég þekki, en það eru allir lasnir, uppteknir, í vinnunni eða í sumargústaf eða eitthvað. Ég þarf að keyra alein alla leiðina þangað og berjast alein í gegnum hafsjó af fólki sem flytur inn í IKEA um helgar og.. og. ALLT.

Spurning um að stofna undirskriftalista um að fá IKEA aftur í Holtagarða.

*HOPP*

Ég er löt og ég á nýjar legghlífar og nýja spöng. Ég keypti mér bæði í gær og fattaði hvað það er langt síðan ég hef keypt mér eitthvað (fyrir utan 400 króna bleiku balletinniskóna úr Tiger). Needless to say þá er ég þrammandi um í báðu.

*hopp*

Einar: Ertu að fá þér dnammi í dmorgundmat? (hann er sko voðalega kvefaður og lasinn greyjið)

Ég: (skömmustuleg) Jáááááv..

Það er nammidagur. Venjulega ætti slíkur dagur að vera á laugardögum, en ég flutti hann. Ég get gert svoleiðis vegna þess að þegar það kemur að nammidögunum mínum, þá er ég alvaldur og einráður. AðalÓsk!

*hopp*

Á morgun er ég að fara í þriðja skiptið í heimsókn í brúðarkjólaleigu. Nei, eiginlega fjórða, því að ég fór líka í eina aðra þar sem að ég hrökklaðist út eftir að brúðarkjólaleigu- og sölukvendið hálfpartinn skammaði mig nokkrum sinnum fyrir að vita ekki upp á hár hvað ég vildi. Ég nenni ekki að vera skömmuð eins og smástelpa af manneskju sem ég er að fara að gera mig líklega til að borga einhverja tugi þúsunda til. Bugger that for a game of soldiers! Fyndið líka því að ég var að spjalla við Þóreyju og sama brúðarkjólaleigu- og sölukvendi tók þennan pakka á hana líka. Er sumu fólki illa við peninga?

Go team Brúðarkjólaleiga Dóru! Það er þar sem ég ætla að valsa um á nærbuxunum einu sinni enn, fyrir framan hálf ókunnuga kvenmenn, sem eru samt svo voðalega indælar og pro yfir þessu öllu saman að það er ekkert erfitt. Það eina sem er erfitt er að finna nægilega siðsamlegar nærbuxur alltaf. Það er ekki mjög glæsilegt að flasha rasskinnum framan í aumingja stelpurnar í lengri tíma.

Núna á að mæla mig í bak og fyrir, svo að það sé hægt að breyta kjólnum sem ég ætla að kaupa svoleiðis að hann passi eins spandex á skíðakappa. Þá dregst hann inn á réttum stöðum, ýtir réttum hlutum upp og púffar út á réttum stöðum og skiptist þannig á að ýkja og fela það sem ég á frá náttúrunnar og haribo hendi!

30.8.08

Ég held að gulu, óskilgreindu pöddurnar séu með bólur í framan

Okay, ég er ekki með ofskynjanir.

Ég get ekki sofið affí ég er með vöðvabólgu og hausverk. Venjulega væri það ekkert hroðalega mikið issue að geta ekki sofið klukkan níu á laugardagsmorgnum, þar sem ég er orðin svona brjálæðislega fullorðin og ráðsett, en núna er bara ekkert svo langt síðan að ég skreið í bælið. Fyrst náttúrulega spjallaði ég við leigubílsstjóra eins og mér einni er lagið. Ég er ekki ennþá búin að fatta hver galdurinn er hjá mér við að finnast það góð hugmynd að sitja áfram í taxanum og skoða fjölskyldumyndir og eitthvað áður en ég dröslast út. Hey já. Þetta er í fyrsta skipti sem ég tek leigara í nýja kastalann. Það munaði minnstu að ég segði addressuna hjá foreldrunum þegar ég settist inn, sökum þess að ég tók ansi marga bíla umsemjanlegrar notkunar þangað back in the days.

En allavega. Ég skreið niður og upp í sófa eftir að hafa legið í rúminu í tæpan klukkutima án þess að sofna aftur. Ég kveikti, eðlilega, á morgunteiknimyndunum. Ég mynnist þess ekki í minni æsku að þessar teiknimyndir væru geypilega, geypilega vondar, með einum talsetjara pr. teiknimynd og litapallettunni takmarkaðri við sjö liti. Ég er eitthvað svo svikin. Ég sakna cartoon network.

25.8.08

Gítarhetja

Í lengri tíma hef ég suðað í Einari um að við ættum að fá okkur Guitar hero. Það var ekki fyrr en síðustu helgi sem okkur var boðið í grill, gítarhetju og pool heim til Natta að mér tókst að sannfæra hann.

Núna eigum við okkar eigin leik og á meðan ég skrifa þetta er Einar í gítareinvígi við þann hníflótta sjálfan, ekki ósvipað og í the devil went down to Georgia eða Tenacious D.

Sjálf hef ég prófað nokkrum sinnum og ég get bara alveg sagt ykkur að ég er gáttuð á því að the Stones, the Killers, Ozzie og fleirri góðir gaurar séu ekki enn búnir að hringja í mig og biðja mig um að vera gítarleikari fyrir þá. Áhorfendurnir kunna allavega vel að meta þetta get ég sagt ykkur og ég efast um að heill hafsjór af teikniðum guitar hero aðdáendum hafi rangt fyrir sér!

Áfram línurit, kökurit og önnur... rit

19.8.08

Kindur

Á laugardaginn vaknaði ég og leit út um gluggann. Tvær kindur horfðu á mig til baka og jöppluðu á grasi á merkilega afslappaðan og svalan máta. Það var ekkert smá vinalegt. Ég var sem sagt úti í sveit. Ég veit ekki hvenær kindur voru síðast að strötta í Ártúnsholtinu, en mér finnst að hverfið ætti að fá sér eina eða tvær hverfiskindur.

Einu sinni reyndi ég að sannfæra Einar um að við ættum að fá okkur kusu, því þær eru svo rosalega vinalegar. Hann er ekki alveg sammála. Það er vond lykt af þeim og svona, en pæliði í því! Ég þyrfti aldrei að slá aftur, plús hún ber á garðinn alveg sjálf.

13.8.08

Mátuð!

Þá eru nokkrir brúðarkjólar búnir að máta mig. Ég held að ég geti ekki sagt að ég hafi mátað þá, þar sem að þetta eru svo gífurlega massív mannvirki. Fyrir flesta var ég meira að segja í burðarvirki undir. Það kom mér sérstaklega að óvart að ég leit bara ekkert út eins og Michelin maðurinn í þeim. Margir eru hannaðir þannig að þeir draga úr því sem þykir miður glæsilegt og ýkja það sem þykir æskilegt að hafa mikið af. Í einum leit ég til dæmis niður og sá að ég var kominn með barm á stærð við Pamelu Anderson. Ég potaði meira að segja í hann til að vera viss um hvort að ég ætti þetta allt saman.

Núna er ég orðin alveg kex rugluð og plan mitt um að vera í plain, ó-marengslegum kjól er í mikilli hættu.

12.8.08

Brúðarkjólamátun

Á morgun er ég að fara í brúðarkjólamátun. Vala, sem pantaði meira að segja tímann fyrir mig verður mér til halds og trausts og mun vonandi segja mér ef ég lít út eins og mjólkurbíll eða marengskaka í einhverri múderingunni. Ef við værum í Júsa væri hún sko þokkalega "maid of honor" og fengi einhvern óklæðilegan myntugrænan kjól til þess að skella sér í, svo a) hún out-shinei mig ekki og b) ég líti vel út í samanburði, allt eins og lög gera ráð fyrir.

Brúðarkjólar hræða úr mér líftóruna, ef ekki væri nema bara fyrir þær sakir að það eru svo skrambi margir af þeim til. Ef þeir bara vildu gætu þeir tekið yfir heiminn og við gætum ekki gert neitt til þess að stöðva þá. Venjulega endist ég í nokkrar mínútur í að googla brúðarkjóla, en þarf svo ég að leggjast fyrir og setja ísmola á hausinn sökum skyndilegs valkvíðakasts.

Sætó?

Áðan fór ég í strætó heim úr vinnunni, þar sem að bíllinn fer samferða Einari á morgnana og ég var í stuði til þess að hætta snemma. Ég hef ekki náðað íslenska gullvagna með tilvist minni síðan ég var 16 ára. Þessi strætó hét 19 og hann minnti helst á golden retriver, þar sem að hann var ljúfur og góður og... já.. gulur. Hann stoppaði ekkert voðalega langt frá vinnunni minni og alveg rétt hjá húsinu mínu, svo strætóferðin sjálf tók ekki nema 12 mínútur. Það er alveg spurning um að ég fari að slaka á strætófordómunum mínum. Reyndar gæti verið sterkur leikur að prófa aftur í ógeðslegu haustveðri og sjá hvernig mér lýst á hundblautan strætóinn þá.

9.8.08

Heppin ég að vera smáfætt!

Í dag áskotuðust mér glæsilegir inniskór. Þeir eru af stærðinni 34-36 og eru líklega ætlaðir fyrir litlar stelpur, þar sem að þetta var allra stæðsta stærðin sem þeir fengust í. Þeir eru eins og ballerínuskór úr bleiku, mjúku efni, með bleikri slaufu og glansandi bleikum pallíettum. Þessir skór kostuðu ekki nema 400 krónur í Tiger. Úrvalsskór á öndvegiskjörum!

Í dag er ég búin að vera að skoppa um í skónum og reglulega dilla þeim í áttina að eða fyrir framan Einar til þess að minna hann á að ég eigi svona fína skó. Áðan þegar ég lág uppi í sófa með skóna út undan teppinu gerði ég mér grein fyrir því að oft þarf ekki mikið til að gera daginn góðan. Ég íhugaði að sofa í þeim, en ákvað svo að sleppa því, þar sem að ég vil ekki svitna á tásunum.

6.8.08

Þekkið þið klæðskera?

Þeir eru ekki duglegir að nota internetið og ég er að leita að einum slíkum!

4.8.08

5 ára

Sko.. enginn ættingi eða neitt. Við Einar erum búin að vera saman í 5 ár. Vei við! Ég knúsaði hann og sagði "Til hamingju með mig" og hann knúsaði mig til baka og sagði "Til hamingju með mig". Veii.

Ég er lang best lofaða stelpan/konan...(stenan eða kolpan?) þarna úti!

2.8.08

Nískubíó

Nískubíó er gott, því að kona þarf ekki að borga 1100 kall fyrir bíómiðann. Nískubíó er slæmt vegna þess að ég hef skilyrt mig þannig að ég býst við því að það sé kvöld þegar ég skottast út úr bíósalnum og blússandi sól, fuglasöngur og börn að leik gera það að verkum að ég verð verulega cat-confused þegar ég skottast út eftir 2 bíó.

Við sáum Batman. Batman vann. Og tapaði. Og.. bara.. gerði það sem Batman gerir almennt. Flott mynd. Ég vona að þeir bæti Robin og/eða Batgirl ekki við í framtíðarmyndunum. Ég myndi frekar vilja sjá Batman jump the shark í leðurjakka og sundskýlu eins og alvöru hákarlastökkvörum sæmir.Ekki það að ég sé að segja að Batman þurfi hákarlastökk ef hann heldur áfram á þessum línum sko. Alls ekki!