28.6.08

Ég á vélmenni!

Þau eldri og vitrari voru að koma frá Bandaríkjunum. Bandaríkin eru að mörgu leiti svipuð og internetið, nema þar þarf ekki að borga sendingakostnað og svona. Á þriðjudaginn sendi móðir mín mér tölvupóst þar sem að hún sagði mér að þau hefðu keypt gjöf handa mér. Mér finnst að sjálfsögðu eins gaman að fá gjafir og hundum finnst gaman að gelta á póstinn, svo ég varð verulega spennt. Alla vikuna hef ég verið iðandi í skinninu og við það að pissa í buxurnar (lesist: pilsið) af spenningi. Í gær, eftir vinnu, brunuðum við beinustu leið í gamla kastalann til þess að sækja gjöfina. Getiði hvað!! Ég fékk ryksuguvélmenni. Veiii. Það þurfti að vera í hleðslu í 16 klst áður en að það gat hafist handa.. eh.. hjóla og áðan sendum við það af stað í stofuna. Það keyrði um, malaði vinalega og ryksugaði. Mikið er það fínt! Þetta myndi spara rosalega mikinn tíma ef ég myndi ekki elta það út um allt hús full aðdáunar og fylgjast með því ryksuga.

Ég fékk reyndar líka tvær glæsipönnur úr línunni hennar Mörthu Stewart. Ný kynslóð non-stick eldunarvara eða eitthvað á þá leiðina. Ég bjó mér til eggjaköku í hádeginu og svei mér þá ef þetta eru ekki bara bestu pönnur sem ég hef átt.

Engin ummæli: