9.5.08

Mínútubók

Yfirleitt virðist fólk eiga annað hvort of mikinn tíma eða of lítinn, vegna þess að auðvitað er það þannig að lífið er stutt... Og langt. Mikið væri það yndælt að geta lagt mínútur og klukkutíma til hliðar og myndað sér einskonar sparitímasjóð sem hægt væri að taka út af þegar allt sem kona gæti mögulega óskað sér væri klukkutími í viðbót. Stundum horfi ég á þætti í sjónvarpinu sem mér þykir ekki einu sinni skemmtilegir, eða les fréttir um eitthvað sem mér er eiginlega alveg sama um. Það er á svoleiðis tímapunktum sem ég væri til í að fara út í tímainnlögn.

Ég get verið alveg viss um að tímasjóðir væru hins vegar vandmeðfarnir og eiginlega alveg stór hættulegir. Þegar ég hugsa um gengi í frjálsu falli, hrýs mér hugur við hvað myndi gerast ef einhver fengi lánaðar nokkrar evrópskar mínútur til þess að ná að klára allt í vinnunni og fara á foreldrakvöld hjá dóttur sinni. Næstu mánaðarmót gæti viðkomandi svo þurft að borga mínúturnar aftur í klukkutímum vegna gengismismunar, vaxta, vaxtavaxta og okurvaxta. Mínútubraskarar yrðu eldri og eldri, á meðan að þeir sem eru alltaf á síðustu stundu núna myndu þurfa að kveðja heiminn um þrítugt, þar sem að mínúturnar þeirra væru taldar. Kannski færi fólk út í að fá lánaðan tíma hjá börnunum sínum, þar sem að ef heimurinn er góður eiga þau mest á lager. Kannski ætlaði þetta fólk alltaf að borga hann aftur, en hefði svo engan tíma.

Hugsanlega væri best að geyma auka mínúturnar sínar bara undir koddanum, þó svo að vissulega myndi þá aukast hættan á því að laumast í þær á myrkrum vetrarmorgnum þegar það er svo voðalega freystandi að kúra aðeins lengur......

Engin ummæli: