31.5.08

Menn og konur.. Eða eitthvað svoleiðis

Við notum oft "steinn, skæri, blað" til þess að leysa einföld ágreiningsmál eins og hvort okkar fær sér einn bjór og hvort keyrir.. eða hvort svarið við spurningu í trivial við notum ef við erum saman í liði og ósammála um hverju eigi að svara. Á fimmtudaginn gripum við einmitt til þessa þegar við vorum að ákveða hvort nafnið okkar kæmi á undan í röðinni á hurðaskiltið sem við vorum um það bil að panta. Ég vann. Strákurinn sem var að afgreiða sagði "hva, ég hélt að kallinn væri alltaf fyrst!". Ég held samt að hann hafi meira verið að stríða okkur.

En svona, come to think of it, þá held ég að það sé almennt reglan. Einhver sagði "þá gæti einhver haldið að þú værir einstæð móðir" og ég sagði "og hvað með það?".

Annars hef ég mikið verið að velta fyrir mér alskyns kven- og karllægum heitum. Það var ekki fyrr en nýlega sem ég gerði mér grein fyrir því að það er talið aldeilis eðlilegt að kona sé ráðherra, forstjóri eða stjórnarmaður, en það er afskaplega fátítt að karlmenn séu í störfum með kvenlægum titli (svona miðað við það að fólk noti orðin "hjúkrunarfræðingar" og "flugþjónar" í stað "hjúkrunarkonur" og "flugfreyjur" þ.e.). Mér finnst það bara alveg réttlætanlegt að breyta starfsheitum sem miða við kyn eftir því hvers kyn manneskjan er sem sinnir starfinu.. Ráðfrú, forstýra eða stjórnarkona. Af hverju ekki? :o)

Tveir símar og jarðepli

Við vorum að kaupa okkur undursamlegt, þráðlaust símasett. Það leysir að minnsta kosti þrjú vandamál.

1.Það er hægt að labba um húsið og tala í símann í einu. Þannig hefði ég t.d. geta notað heimasímann til þess að hringja í þjónustuver Glitnis í gær í þeim tilgangi að spurja þá hvers vegna mér væri ekki að takast að fá aðgang að reikningi okkar Einars í gegnum heimabankann, á meðan ég væri staðsett beint fyrir framan tölvuna. Til gamans má geta að ég má leggja launin mín inn á reikninginn og draga af honum monnís, en ég má EKKI skoða hann á heimabankanum án þess að við förum og undirritum samning, því bizzaro world superman sagði þeim líklega að það meikaði sense.

2. Símarnir koma í veg fyrir það að ég þurfi að spretta fram úr bælinu á laugardögum og brussast niður stigann í ósiðsamlega fáum fötum og með tilheyrandi rassaköstum, þegar foreldrarnir hringja at the crack of noon og bjóða okkur í mat. Þetta kemur einnig í veg fyrir það að nágrannarnir hafi stanslausar áhyggjur af því að enn einn jarðskjálftinn sé byrjaður og að myndir skekkist á veggjunum hjá okkur.

3. Það er hægt að hringjast á milli innanhúss, en það hefur þau áhrif að við þurfum ekki að kaupa talstöðvarnar sem við höfðum íhugað að fjárfesta í til þess að spjalla saman á milli hæða (koma í veg fyrir hefðbundin "millihæðaöskur").

Allavegana...

Ég: Óskin númer eitt, Óskin númer tvö, Óskin númer þrjúfjögurfimmsexsjööö!
Einar: Hah-hah. Ertu númer tvö?
Ég: Óskin númer eitt, Einar númer tvö, Óskin númer þrjúfjögurfimmsexsjööö!
Einar: NEI! Þú ert númer tvö. Einar númer eitt, óskin númer tvö. Óskin númer tvötvötvötvötvö!

Ég! Hey! Farðu niður. Ég ætla að prófa að hringja í hinn símann. Eftir smá spjall og hringingar fram og til baka bið ég hann um að kíkja númer hvað síminn sem hann var að tala í væri.....

I've still gotz it.

Já og p.s. Þið ykkar sem eruð skýr eins og kristall hafa gert ykkur grein fyrir því að það er engin kartafla. Mér fannst tiltillinn bara þurfa eitthvað... auka.

Elsku pleisið

Nú erum við búin að búa í íbúðinni okkar í smá tíma. Það á samt ennþá eftir að kaupa ljós, svo rússarnir eru að hanga inni í einhverjum herbergjum. Það á líka eftir að klára að gera tvær eldhúshurðir, lappa upp á pallinn, taka stigann í gegn og gera ýmiskonar smá lagfæringar. Engu að síður er ég alveg pottþétt á því að þetta sé æðislegasta íbúð í öllum heima heiminum og ég er ennþá alveg gáttuð þegar ég vakna að við búum hérna bara tvö. Ííííí gaman að vera til!

27.5.08

Indiana Jones

..er bara svei mér þá eins svalur og hann var fyrir 20 árum síðan eða svo.

Hey já.. Vissuði að það kostar 1100 kr í bíó og kona fær ekki einu sinni að velja sætin sín hérna? Það er bilun!

23.5.08

Tússitússitúss

Ég keypti feita tússa eins og litlu krakkarnir nota í vikunni. Svo tússaði ég myndir, setti í ramma og hengdi þær upp á vegg. Það þarf miklu minna stand í kringum tússliti heldur en akrýlmálningu!

17.5.08

Ahhhh lífið

Rauðvínsglas, heitt freyðibað, kertaljós, góð bók.... og fallegu tónarnir af helmingnum á neðri hæðinni að sprengja mann og annan í loft upp í xboxinu..

Boycott American Style!?

Ég er alvarlega farin að íhuga að versla ekki við American Style aftur fyrr en þeir hætta að keyra þessa hroðaleguhroðaleguHROÐALEGU auglýsingu á öllum útvarpsstöðvum, oft á klukkutíma. Vá hvað þetta er orðið pirrandi.

11.5.08

Einfaldur húmor nær ansi langt..

Smá játning.. Svona með aldrinum hef ég minni og minni þolinmæði gagnvart U2. Eiginlega er hljómsveitin nett farin að naga á mér taugarnar undir það síðasta. Aumingja X-ið, sem hefur svo stuttan playlista að það væri hægt að prenta hann á nafnspjald spilar "With or without you" reglulega. Eftir að ég fór að ímynda mér að Bono væri að syngja "with or without shoes" í viðlaginu hefur lagið orðið talsvert bærilegra.

Út af áður nefndum stuttum playlista hef ég þetta lag varanlega húðflúrað á heilann. Um leið og hausinn á mér hefur náð að reka það út heyri ég það aftur í bílnum á leiðinni frá A til B. Reyndar er útgáfan í útvarpinu svona eins og 100x styttri. Forspilið á videoinu klárast í kringum 5 mín.

9.5.08

Mínútubók

Yfirleitt virðist fólk eiga annað hvort of mikinn tíma eða of lítinn, vegna þess að auðvitað er það þannig að lífið er stutt... Og langt. Mikið væri það yndælt að geta lagt mínútur og klukkutíma til hliðar og myndað sér einskonar sparitímasjóð sem hægt væri að taka út af þegar allt sem kona gæti mögulega óskað sér væri klukkutími í viðbót. Stundum horfi ég á þætti í sjónvarpinu sem mér þykir ekki einu sinni skemmtilegir, eða les fréttir um eitthvað sem mér er eiginlega alveg sama um. Það er á svoleiðis tímapunktum sem ég væri til í að fara út í tímainnlögn.

Ég get verið alveg viss um að tímasjóðir væru hins vegar vandmeðfarnir og eiginlega alveg stór hættulegir. Þegar ég hugsa um gengi í frjálsu falli, hrýs mér hugur við hvað myndi gerast ef einhver fengi lánaðar nokkrar evrópskar mínútur til þess að ná að klára allt í vinnunni og fara á foreldrakvöld hjá dóttur sinni. Næstu mánaðarmót gæti viðkomandi svo þurft að borga mínúturnar aftur í klukkutímum vegna gengismismunar, vaxta, vaxtavaxta og okurvaxta. Mínútubraskarar yrðu eldri og eldri, á meðan að þeir sem eru alltaf á síðustu stundu núna myndu þurfa að kveðja heiminn um þrítugt, þar sem að mínúturnar þeirra væru taldar. Kannski færi fólk út í að fá lánaðan tíma hjá börnunum sínum, þar sem að ef heimurinn er góður eiga þau mest á lager. Kannski ætlaði þetta fólk alltaf að borga hann aftur, en hefði svo engan tíma.

Hugsanlega væri best að geyma auka mínúturnar sínar bara undir koddanum, þó svo að vissulega myndi þá aukast hættan á því að laumast í þær á myrkrum vetrarmorgnum þegar það er svo voðalega freystandi að kúra aðeins lengur......

7.5.08

First pósk!

Þetta er fyrsta póskið mitt frá Sílakrílinu, honum Síla sæta. Í dag fengum við nefnilega bæði netsamband OG þjófavarnarkerfi. Þegar við vorum að velja okkur þjófavarnakerfisseljara setti ég það sem óhagganlegt skilyrði að kerfið myndi ekki koma til með að tala. Mér þykir fátt eins óhugnarlegt eins og kerfi sem tala, sérstaklega þau sem nota svona mónótón sem myndi sæma sér vel á rykföllnum bjúrókrata sem var pikkfastráðinn á sjötta áratugnum.

Það er svo yfirþyrmandi að geta sitið í nýja sófasettinu okkar á gríslanum og dúnsokkum, skrifandi pósk og hlustandi á xboxið hlaða fjarstýringuna sína og mala.. að ég gæti bara spurngið í milljónþúsundogeina ögn. Ég ætla ekki að springa samt. Það myndi örugglega ekki vera gaman.

5.5.08

Hamfarir!

Eins og í öllum góðum drottningarríkjum (af hverju konungsríkjum?) hefur gengið á með ýmiskonar hamförum síðan nýja höllin var vígð. Við erum að tala um flóð, skort og atlögu að lífi sjálfrar drottnigarinnar.

Á mannamáli er þetta einhvern vegin svona: Þvottavélin flæddi yfir bakka sína. Okay.. of epic. Af-falls barkinn datt úr sambandi og það flæddi svo mikið vatn yfir baðherbergisgólfið að við þurftum bát til þess að fara þangað inn. IKEA átti ekki nema eins og 50% af þeim hlutum sem okkur langaði í á lager (eins og venjulega reyndar) og ég rak tánna á mér ofboðslega fast í eina skrúfuna á fullorðinslegóinu sem ég var að setja saman.

Íbúðin er hins vegar algjört æði og við erum alveg að farast úr víðáttubrjálæði.

3.5.08

..og í hallarturninum horfi ég yfir fjöll og fyrnindi og stari niður dreka í fjarska...

Í gær fluttum við drottningamaðurinn í nýju höllina okkar, þessa með hallarturninum sko. Síðustu mánuði hafa staðið yfir svo miklar endurbætur hjá okkur að jörðin hefur skolfið. Ég hef slegið um mig með bor í annari, rörtöng í hinni og ropað eins og iðnaðarmaður. Okay, ekki ropað reyndar, en hitt er alveg satt.

Núna eru kassar út um allar trissur og engin húsgögn til að tala um, fyrir utan flugmóðursskipið, en því var blótað í sand og ösku af vöskum karlmönnum sem börðu í kassann og buðu fram aðstoð sína við búferlaflutningana. Rétt í þessu er ég í heimsókn í gamla kastalanum, þar sem að enn standa yfir samningar við netfólk á nýja staðnum. Við komum hingað til þess að athuga dýptina á peningageymnum okkar til þess að áætla hversu mikið við ætlum að kaupa af húsgögnum. Einkar spennó!

1.5.08

Hásætið endurheimt!

Í síðustu vikur hef ég farið huldu höfði. Drottningunni sjálfri var steypt af stóli og ég hef unnið að því að sölsa undir mig völdin að nýju! Eftir endalaust marga tölvupósta, tár og frekjuköst tókst mér að troða rassinum aftur í hásætið og ég mun nú sitja sem fastast. Reyndar hef ég tryggt mér að butt-groove-ið mitt fari ekki aftur í klessu næstu tíu árinn takk fyrir. Það var eitthvað ónáttúrulegt við að sjá aumingja lénið mitt hneppt í þrældóm og verandi að auglýsa vínekrur í Kaliforníu.

Ég saknaði þess að skrifa ykkur. Og mér. Hugsanlega meira mér en ykkur.