31.3.08

Rebel rebel, party party

Ég upplifði mig sem engan smá rebel í morgun. Vörubílstjóraómyndirnar sem sumt fólk getur ekki hætt að hrósa fyrir mótmælaaðgerðir sínar voru enn á ný að stofna lífi fólks í hættu. Meðal annars lokuðu þeir Ártúnsbrekkunni eins fast og 14 ára stelpa lokar herbergishurðinni sinni á suðupunkti gelgjunnar.

Hetjunni ykkar tókst engu að síður að láta bílinn sinn halda niðri í sér andanum svo hann var eins grannur og ormur og smjúga sér svo framhjá tveimur vörubílum sem voru með .\ /. svona reiðar augabrúnir og allt þeir voru svo vondir. Svo keyrði ég sæl og glöð með einum eða tveimur öðrum bílum niður Ártúnsbrekkuna og mætti bara svona eins og 5 mínútum seinna en venjulega í vinnuna.

Annars sá ég viðtal við vörubílstjórana í fréttunum um daginn og þegar þeir voru spurðir um hvort þeir gerðu sér grein fyrir að þetta lokaði á sjúkraflutninga, bentu þeir á að það væri allt vaðandi í gangstéttum og svo væru líka sjúkraflutningaþyrlur. Jájá.. Ég er viss um að það er ekkert mál að lenda þyrlu í Breiðholtinu, svo lengi sem þeir lenda ekki í drive by shooting.. Gangstéttirnar eru líka hentugar, því að ef sjúkri ekur á gangandi vegfaranda er lítið mál að kippta honum upp í bílinn og skutla með sér á spítalann.

26.3.08

Bitri gaurinn og IKEA

Ég fékk eftirfarandi tölvupóst frá helmingnum. Grafalvarlegt mál sem snýst um að einn af eldhússkápunum sem við ætluðum að mixa sem baðherbergisskáp (Óskin er mikill hönnuður skal ég segja ykkur) hefur verið uppseldur síðustu vikuna... en ég hló engu að síður.

Hæ hæ,

Ég gerði heiðarlega tilraun, en IKEA er bjáni. There, I said it! BJÁNI. Ég er ekki að finna númerið á þessum skáp í þessum bæklingi, sem by the way er birtur sem ÓHEMJU PIRRANDI flash forrit í stað þess að nota PDF eins og heiðvirtir borgarar myndu gera. Þannig að ég reyndi aftur að hringja í þjónustuverið þeirra, en það er bara samsæri símafyrirtækja, maður bíður bara og bíður. Ergo, IKEA má fara í illa skeint rassgat!

Ef að við þurfum að fara þangað að kíkja á vask, þá athugum við þetta í leiðinni ég tími ekki öllum vinnudeginum (og símreikningi) í að bíða eftir símaþjónustu sem virðist bara vera goðsögn hvort sem er.

Lorvings,
Bitri gaurinn

16.3.08

Erkióvinurinn

Á föstudaginn eignaðist ég erki óvin. Hann er ofn sem var búið að mála með allavega sex mismunandi litum, hvítum (veit ekki hversu oft), svörtum, dökk bláum, grænum, gulum og bleikum. Hann var allur út í loftbólum undir málningunni, sem var um það bil eins þykk og Hvalfjarðargöng og hækkaði hitunarkostnaðinn um svona eins og fjárlög íslenska ríkinsins.

Síðan þá hef ég reynt að flysja málninguna af með meitli, eytt fjórum klukkutímum með slípirokk í höndunum að spæna hana af og fengið í kjölfarið tónleikasuð í eyrun, harðsperrur í strákavöðvann, illt í bakið og axlirnar, rassæri og klárað tvær slípirokksskífur. Í dag mætti ég svo með meitilinn aftur, rispaði upp á mér hnúana til blóðs og varð meira illt í bakinu. Á endanum var ákveðið að versla málingaeyðir sem ég svo smurði á ofninn í bak og fyrir, flysjaði hann svo meira og smurði hann AFTUR. Blaah. Anyways. Ég held að hann sé orðinn nógu berstrípaður fyrir málun.

Weekend well spent :oP Kannski ég kaupi 6 týpur af málningu og máli hann í mörgum lögum svo ég geti gert þetta aftur næstu helgi!

13.3.08

Þjóðleg!

Eða allavegana er ég í fánalitunum. Ég er skjanna hvít eins og alla jafna á veturna ef ég dansa ekki við djöfulinn í heilsuspillandi ljósabekkjum. Svo er ég öll blá og marinn með slatta af vel rauðum sárum og skurðum sem virðast gjarnan fylgja stórum heimilisuppfærslum. Sumstaðar er ég með sár á marblettum.. eða marbletti á sári.

Amma og afi kláruðu að flísaleggja síðasta laugardag og þetta er glæsifínt sko. Eldhúsið er bara næstum því orðið eldhús aftur. Því vantar bara nýja borðplötu og einn fjarstýrðan slökkvara. Efri hæðin er komin með loftlista all over the place, hún er spörsluð og pússuð í drasl og bara nokkuð tilbúin fyrir málerí.

Við eigum eftir að mála uppi, gera tilbúið fyrir mál og mála niðri, skipta um stiga handriði, parketleggja niðri, skipta um hurðar og við erum farin að spá í að taka baðherbergið uppi í gegn núna líka.

It will never end!

Bjarta hliðin er að húsið okkar verður allra húsa fínast eftir aðfarirnar!

10.3.08

Stigahandrið

Þekkir einhver einhvern sem þekkir einhvern sem gæti smíðað fyrir mig rosalega flott stingahandrið (helst stál og gler) á boðlegu verði? Hmm ha? :o)

7.3.08

Niðurrif/Uppbygging

Á miðju plastparketinu í nýju, fínu stofunni minni stendur klósett. Í hinum endanum á stofunni eru karmar af 6 hurðum, sem og tvær hurðar með öllu tilheyrandi, ásamt rusi og drasli sem var einu sinni veggur. Allstaðar á milli má sjá verkfæri, vinnuhanska og önnur tól til niðurrifs og uppbyggingar.

Ég held að við höfum náð þeim tímapunkti þar sem húsið lítur verst út áður en það fer að líta vel út aftur. Amma og afi byrjuðu að flísaleggja baðherbergið niðri og andyrið í gær og munu stússast í því í dag á meðan við erum vinnunni. Þau eru flísaleggihetjur. Pabbi reif niður vegg með sleggju á miðvikudaginn og bróðir minn, mamma og tengdó hafa öll hjálpað við hrúguna inni í stofu.

Á morgun er sett stefna á að fá vaska ættingja í heimsókn til þess að mála. Mér féllust svolítið hendur í gær, þegar ég horfði yfir fjöllin í stofunni og gerði mér grein fyrir að það ætti eftir að koma þessu rusli niður á sorpu og spartla allt. Ég held og vona að þetta verði í lagi samt.

Parketið er líka eftir. Skildi ég vera góð í að leggja parket?

2.3.08

Fréttir

Þessa helgi skoðuðum við fullt af nánast nákvæmlega eins parketi í óteljandi og tveimur verslunum. Verðmiðarnir voru hins vegar svo ólíkir að það mætti helst líkja parketinu við vondan tvíbura og góðan tvíbura. Eða.. ehm. óteljandi og tvíbura líklega frekar. Við keyptum líka tvær mismunandi týpur af IKEA starter-kits sem eiga að ná yfir svona það helsta sem eldhús myndi vilja geyma í skúffunum og skápunum sínum.

Glöggir lesendur hafa líklega kveikt á því að við Einar sinn keyptum okkur íbúð í síðustu viku. Vei við. Ég hlakka svo mikið til að ég myndi pissa í buxurnar ef ég gengi almennt í buxum. Það er ekki eins classy að pissa í pilsið, svo ég held ég haldi bara í mér.

Íbúðin er í raðhúsi í Ártúnsholti svo ég þarf ekki að fara lengra en í næstu götu þegar ég flyt. Svo á ég líka eftir að eiga minns eigins hallarturn því að herbergið í risinu sem er 20 m^2 er of lágt til lofts fyrir Einar til að nota það almennilega. Heppin ég að vera vertically challenged! Ég ætla að geyma saumavélina mína, málningadótið og.. ALLT þar.

Íbúðin á líka tvö baðherbergi svo við getum pissað á sama tíma á morgnana þannig að enginn þarf nokkurn tímann að halda í sér. Nema ef svo ólíklega vildi til að einhver með lasna blöðru væri í heimsókn á sama tíma að við bæði þyrftum á klósettið. Sem sagt.. það myndi sjaldan gerast að einhver þyrfti að halda í sér. Svooo er smá garður með smá verönd og smá grasi og Einar er búinn að segja að við megum kannski fá okkur lítinn gosbrunn í sumar því ég vil voða mikið svoleiðis. Ég veit ekki af hverju. Það er svo velmegunarlegt.