31.1.07

Með lokuð augun

Í gær, áður en ég fór að sofa ákvað ég að gera allan fyrir svefn pósessinn minn með lokuð augun. Ég lokaði augunum inni í stofu og labbaði inn á sturtuherbergi (ekkert bað þar, þannig það getur ekki verið baðherbergi). Ég pissaði, sturtaði niður, þvoði mér um hendurnar, tannburstaði mig (með réttum tannbursta í þokkabót. Einars var blautur því hann var nýbúinn að bursta), fór og sótti make-up remover klút inn í skáp og þreif af mér maskarann, henti honum í ruslið, þvoði á mér andlitið, setti á mig næturkrem, labbaði inn í eldhús, hellti vatn í glas og drakk og fyllti á vatnsflösku og setti inn í ísskáp. Svo labbaði ég frá eldhúsinu og inn í herbergi.

Það kom mér mest að óvart að ég hélt að eldhúsið væri lengra, svo ég var komin út í enda áður en ég vissi af, annars gekk þetta bara ágætlega. Ég býð samt ekki í að taka mér til hádegismat eða eitthvað blindandi.

30.1.07

Ísland - Danmörk

Klippikonan mín: Með hverjum heldur þú í handboltaleiknum í kvöld?
Ég: Ég ætla ekki að svara þér. Þú ert með skæri.

Skrifstofulykillinn minn

Ég fór upp í skóla í dag og talaði við verkefnakennarann minn. Ég byrja nefnilega á mastersverkefninu mínu á fimmtudaginn, þannig að ég þurfti að kíkja við til þess að koma ýmsum hlutum á hreint og fá skrifstofu, vera kynnt fyrir allskonar fólki og fleirra. Mér líður eins og ég sé svo mikilvæg núna, með minn eigin skrifstofulykil á lyklakippunni minni. Ritarinn minn reddaði þessum lykli (hahah, annað mikilvægisstig að vera með ritara. Að vísu ekki einkaritari, en það er annað mál..).

Reyndar er ég ekki ein um þessa skrifstofu. Ég deili henni með allavega tveimur öðrum (og annar þessara aðila er einmitt Ola, lettneska vinkona mín), en þar er skrifborð, tölva, skrifborðsstóll, skjár, lyklaborð og risa stór gluggi sem tilheyra mér einni! Það er meira að segja ágætis útsýni út um gluggann minn. Ég sá íkorna og allt. Ef útsýnið þitt inniheldur tré, grænt gras, himinn og einstaka íkorna, þá eru þið sko ekki stödd á flæðiskeri skal ég segja ykkur. Ég held að íkornar séu ekkert mikið á flæðiskerjum.

Eftir þennan fund, dreif ég mig í klippingu. Ég er búin að vera að mana mig lengi upp í það. Eftir að ég uppgvötvaði heimastrípun, þá hef ég nefnilega ekkert farið. Fyrir daginn í dag fór ég síðast í klippó í febrúar 2006. Ég var orðin skíthrædd um að ganga inn á hárgreiðslustofu, því ég var viss um að klippókonan myndi skamma mig. Svo gerði hún það ekkert blessunin. Var bara yndæl og góð og rak ekki einu sinni upp vein þegar hún skoðaði á mér hárið. Kannski eru hún vön þessu. Slysólæknarnir öskra ekki heldur þegar þeir sjá opið beinbrot.

29.1.07

Þrátt fyrir að það sjáist langar leiðir að klassinn hjá þessum stelpum leki út um öll vit, þá mæti ég ekki Pravda fyrr en það er búið að sprittþvo allan staðinn. Ég er pottþétt á því að ég gæti fengið kynsjúkdóm á því að setjast þarna niður.

26.1.07

Nákvæm vísindi

Samkvæmt fólki sem þekkir til, þá er það 237% velmegunarlegra að drekka gosvatn úr hvítvínsglasi heldur en það er að drekka það úr vatnsglasi eða flösku...

...já ókay. Ég viðurkenni það! Ég bjó til þessa tölu, en ég stend engu að síður á bakvið hana!

Dunken donuts

Dunken donuts eru búnir til úr sykri, hvítu hveiti, rotvarnarefnum og krakki sem er djúpsteikt í mettaðri fitu. Afskaplega gott
Powered by Hexia

Logandi smart og vel sofin

Hérna er ég alveg logandi smart, áður en við fórum af stað til Berlínar. Það sést glitta í skíðanærfötin mín þarna innan undir peysunni og bolnum sem ég er í (svarta dótið). Ég keypti mér slíkar flíkur, ekki til þess að vera töff (augljóslega), heldur til þess að geta vappað um án þess að deyja úr kulda.
Powered by Hexia

Brandenborgarhliðið

Þetta er Brandenborgarhliðið er eitt helsta merki Berlínar. Þegar múrarnir aðskildu borgina var hliðið á milli austur- og vesturmúrsins og algjörlega óaðgengilegt og ósýnilegt fyrir íbúum borgarinnar. Þessvegna var það oft notað sem tákn fyrir aðskilnaðinn í Þýskalandi og í Berlín hérna back in the days
Powered by Hexia

Berlín!

Komin heim aftur frá landi mittistaskna og velgirtra manna. Reyndar áttum ég erfitt með að sjá þessar merkingar á fólki, þar sem að allir voru í dúðaðir eins og Micheline maðurinn sökum kulda. Það var alveg prýðisgaman og við gerðum og skoðuðum og borðuðum heilan heilling. Við sáum meira að segja the Blueman group sem var þvílík snilld. Ég held að Tobias hafi ekki verið að leysa af í kvöld, því enginn þeirra var með yfirvaraskegg.

22.1.07

Rass

Ég: Híhíh.. Þú sagðir rass!
Hann: Ha? Hvenær sagði ég rass?
Ég: HAHAHAHAHAH NÚNA!

Úff hvað ég get verið fyndin

Espresso Annan

Á Íslandinu yfir jólin höfðumst við Einar við í kastalanum heima. Drottningarmóðirin á glæsilega espresso vél sem Einar vandist aðeins of vel. Þegar við komum aftur út til Danmerkur var hann hálf bitur út í kaffivélina sína og sudda verkamannakaffið sem hún mallaði. Fyrir helgi náði þetta svo hámarki þegar hann fór að ramba inn í allar búðir sem mögulega gætu selt espresso vélar og lesa umsagnir um þær á netinu. Þetta endaði svo í dag þegar hann loksins fjárfesti í vél, nákvæmlega eins og þessari sem móðir mín á.

Það er nú búið að koma henni fyrir inni í eldhúsi og tekur hún nú frá dýrmætt eldhúspláss. Eldhúspláss er það merkilegasta á þessu heimili, þegar kona á allskonar vinalegar maskínur til þess að hjálpa við eldhússtörfin. Espresso vélin sleppur svo sem fyrir horn með þetta, því að gamla kaffivélin var send inn í geymslu í staðinn.

Engu að síður, þá vildi ég sýna henni hver það er sem er drottningin í þessu eldhúsi, svo ég þjarmaði illilega að henni þegar Einar var á klósettinu. "Það er ÉG sem ræð í þessu eldhúsi vinan og þú skalt bara hafa þig hæga!", sagði ég. Hún hundsaði mig algjörlega helvítið á henni, svellköld eins og Fonzie.

Mér finnst Einar eyða miklum of miklum tíma í að pússa hana og ég er orðin hálf stressuð að hann eigi ekkert eftir að skemmta sér í Berlín því honum eigi eftir að hlakka svo til að koma heim og fá espresso.

21.1.07

Öfund!

Ég veit að það er dauðasynd í 24 ríkjum í Bandaríkjunum að borða brauð svona seint, en ég bjó mér til samloku rétt í þessu. Ég er hvort eð er ekkert í Bandaríkjunum. Þetta var yndisleg samloka með osti, tómat, lauk, salsasósu og kryddi. Hún var formönnuð akkúrat rétt. Einar reyndi að neita því, en ég veit alveg að hann þjáðist að samlokuöfund á háu stigi. Afneytun er ljótur hlutur!

20.1.07

Glæsilegustu konur heims!

1. sæti


Hún Mary, krónprinsessa dana, var valin glæsilegasta kona heims að mati lesenda breska blaðsins hello. Hún er stórglæsileg kona og alltaf vel til höfð og sæt. Það geislar alveg af henni og ég er viss um að danir séu alveg að pissa í sig af stolti núna. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af Mary.


2. sæti


Það rignir nú samt smá á þessa skrúðgöngu, þar sem að blessunin hún Britney Spears var í 2. sæti, og hún hefur sko ekki elst vel. Meðfylgjandi eru nokkrar nýlegar myndir af henni Britney. Persónulega finnst mér hún ekki vera alveg eins glæsileg..

18.1.07

Roleplayings..

Jamm, jamm
Powered by Hexia

Mæling á hversu góður matur er..

Jón: Ég vildi að það væri til leið til þess að mæla hversu góður matur er.
Grettir: En það er til! Það heitir "kaloríur".

Verst að þessi stuðull virkar ekki alltaf. T.d. er ferskur ananas temmilega kaloríusnauður, á meðan að viðbjóðslegu, djúpsteiktu rauðsprettuflökin sem eru ennþá með roði þegar þeim er velt upp úr raspi, og Danir reyna að selja sem mat, skora hinsvegar hátt á kaloríustuðlinum.

Ég er komin með aðra mælieiningu sem virkar fyrir vissar týpur af mat, en alls ekki allar. Hún heitir hvítlauksrif pr. 100 grömm.

16.1.07

Að hræða litlar stelpur..

Ég man þegar ég var svona 11 ára og okkur stelpunum í bekknum mínum var smalað í litlum hópum til skólahjúkrunarfræðingsins. Skólahjúkrunarfræðingurinn var kona sem hélt til í skólanum á milli kl. 10 - 12:30 þrisvar sinnum í viku, svo börn voru vinsamlegast beðin að slasa sig ekki utan þess tíma. Þegar við vorum svona 10 ára þá hundsaði Vala greyjið þessi tilmæli algjörlega og braut á sér löppina í marga mola eftir sérstaklega spennandi sniglaparís.

Hjúkkan var ekki við, svo húsvörðurinn potaði eitthvað í löppina á henni og sagði að það væri allt í lagi með hana og sendi hana svo gangandi heim til sín. Sem betur fer sá kennarinn okkar aumur á Völu og skutlaði okkur heim til hennar. Daginn eftir kom hún í gifsi í skólann sem náði frá tásum og hátt upp að læri.

Já. Allavega. Smölunin! Við sátum þarna hjá hjúkrunarfræðingnum og hún tilkynnti okkur að hún ætlaði að tala við okkur um blæðingar. Hún sýndi einhverjar teiknaðar myndir af hinum og þessum hlutum varðandi þetta allt saman og eftir að hafa talið upp allskonar blæðingaslangur (mér fannst by the way "fá Rósu frænku í heimsókn" hallærislegt þegar ég heyrði það fyrst þennan dag og finnst það ennþá hallærislegt í dag..) fór hún að tala um dömubindi. Hún snaraði 50 kg, metersþykku dömubindi á borðið. Ég beið eftir að borðið myndi hreinlega gefast upp, en það virtist vera vant slíku ofbeldi. Við stelpurnar vorum allar hálfstressaðar að þetta væri eitthvað sem við þyrftum að ganga með í nokkra daga í hverjum mánuði. Augljóslega yrði alltaf hægt að sjá hver væri á túr sökum einkennandi mörgæsagangs.

Er þetta ennþá gert í dag? Ekki nóg með að það ungar stelpur séu sjokkeraðar með því að þær þurfi að þola þennan skramba í hverjum mánuði í mörg ár, heldur er hrædd úr þeim líftóran með tröllkonudömubindi!?

15.1.07

Pæling..

Ætli sumt fólk sé með bráðaofnæmi fyrir því að mæta á réttum tíma? Svona eins og fólkið sem kyssir einhvern sem var að borða hnetulaust súkkulaði sem var mixað af gaur sem var nuts... og þarf að fara á spítalann og fá sprautu í rassinn til að lifa af?

14.1.07

Hihihi

Haelsaeri litur nasty ut i close-up
Powered by Hexia

Hvín og blæs.

Það er bara hávaða rok hérna. 13 m/sek. segir veðursíðan, en ég held að þetta sé svona eins og með hitann. Íslenskt hitastig er heitara en danskt út af raka eða einhverju svoleiðis... og danskt rok er hvassara en íslenskt út af... barabaraaffíbara.

En án gríns, ég man aldrei bara ekki eftir því að það hafi verið svona mikið rok hérna síðan ég flutti út.

13.1.07

Snjóboltaáhrifin

Ég man þegar ég var lítil og fékk eitthvað gefins eða lánað eða einhver gerði eitthvað gott fyrir mig sem ég gleymdi að þakka fyrir. Þá sagði annað þeirra eldri og vitrari: "..og hvað segir þú þá?". Ég skammaðist mín svo mikið þegar þetta var sagt við mig. Ég hefði nefnilega alveg átt að muna að þakka fyrir mig sjálf. Eftir þetta voru þakkirnar eitthvað svo þrúgandi. Komu út eftir langa pásu, og meira eins og eitthvað sem ég varð að gera heldur en eitthvað sem ég meinti í alvörunni.

Þetta einhvern veginn breytist ekki eftir því sem kona eldist. Nú er ég ekki að tala um að ég gleymi oft að þakka fyrir mig, heldur er ég að tala um þegar ég veit alveg að ég hefði átt að gera eitthvað og því lengra sem ég dreg það, því erfiðara verður að drífa í því.

Það versta er samt þegar ég fer að mikla lítinn og einfaldan hlut fyrir mér, svo að hann verður allt í einu orðin óyfirstíganleg hindrun. Eins og snjóbolti sem kona ýtir á undan sér. Nei andskotinn! Ég get gert betur en þetta... Eins og 10.000 skeiðar þegar allt sem ég þarf er hnífur. Já, ég held svei mér þá að þessi samlíking sé ekkert verri í þessu samhengi en sem lýsing á kaldhæðni.

Ég man t.d. eftir því þegar ég þurfti að fara að biðja einn af kennurunum mínum úr HR um meðmæli (til þess að senda með umsókninni minni til DTU). Eftir að hafa dregið það fram á síðustu stundu, tosaði Einar mig á eyrunum að skrifstofunni hjá téðum kennara og sagði mér að drífa í þessu. Hann reyndist hafa rétt fyrir sér. Kennarinn skrifaði meðmælin og þetta var ekkert mál. Ég hálf skammaðist mín fyrir klórförin eftir veggjunum og á hurðarkörmunum, þar sem ég hafði reynt að læsa mig fasta á leiðinni að skrifstofunni hans, á meðan ég öskraði fullum hálsi "ég vil ekki deyja, ég vil ekki deyja!".

Já, "Throughout my life I have worried about many things. Most of which never happened" sagði Mark Twain. Ef kona getur ekki fundið upp eitthvað fínt og viðeigandi til þess að segja, lítur hún betur út ef hún vitnar í einhvern annan sem tókst vel upp. Þá virkar hún líka víðlesnari.

Svei mér þá. Ef ég myndi fylla heila færslu af gáfulegum kvótum frá gáfuðu fólki, sem skotið er inn á gáfulega staði og í samhengi, mynduð þið öll vera viss um að ég sé bæði sæt og víðlesin.

iPhone reddar málunum!

12.1.07

Fönnístöff

Ég er fyndnust þegar ég hef ekki sofið nóg og er með svefngalsa. Það besta og versta við þetta er að öðrum finnst ég hinsvegar ekki vera fyndnust þá. Það finnst mér fyndið.

10.1.07

Flapsflaps!

Ég er með rosaleg hælsæri. Reyndar eru þau svo stór að ég veit ekki hvort ég sé með þau eða þau séu með mig. Ég er farin að hallast að því síðarnefnda. Ég fékk mér nefnilega fallegustu kuldastígvél í heimi á öndvegisútsölu. Þau eru eins og há, flatbotna pæjustígvéli úr rúskini, nema hlý. Ég ætlaði sko aldeilis að labba þau til fyrir allt labbið í Berlín eftir 2 vikur, en svo voru það bara þau sem gengu næstum því að hælunum á mér dauðum. Aldrei læri ég að splæsa á mig hælsærisplástrum ÁÐUR en ég geng til skó.

Ég er sem sagt ekki með húð lengur á hælunum. Bara partýblöðrur og húðflapsa. Flapsflaps. Ég geri ekki aðra atlögu að því að ganga eða tala þessi stígvél til fyrr en húðin hefur snúið aftur. Dauð eða lifandi.

6.1.07

Ég, 1928...

Ég fór í murder mistery partý á Íslandinu góða á milli jóla og nýárs. Ferðaðist aftur til 1928. Áður en ég tók mig til, googlaði ég málningu og hárgreiðslu sem var í tísku þá. Aumingja konurnar. Appelsínugulur varalitur!?

Og já... þetta er hárkolla og gervisígaretta.
Powered by Hexia

Mms lifir

Nyr simi
Powered by Hexia

5.1.07

Heimilisfræði

Þessa vikuna hefur Einar verið heimavinnandi húsfaðir. Hann er ekki í janúar kúrsi (3ja vikna kúrs í janúar) eins og ég, svo hann heldur sig heimafyrir, klappar þvottavélinni og sér um innkaupin. Aldeilis lúxus.

Talandi um lúxus.... við keyptum afskaplega veglega asíska matreiðslubók. Henni er skipt í kafla eftir löndum (Kína, Indónesía, Singapore & Malaysia, Filipseyjar, Tæland, Laos & Kambódía, Víetnam, Kórea, Japan, Indland & Pakistan, Burma og Sri Lanka). Það hefur bara verið sökum geypilegrar sjálfstjórnar á minni hálfu að ég hef ekki étið myndirnar í bókinni ennþá, þær eru allar svo girnó.

Í kvöld gerði ég wok kjúklingarétt frá Vietnam og hann var svoooo góður. Þessi bók er að kenna mér að nota öll hráefnin sem hanga alltaf á asísku hillunum í búðum, sem ég hef hingað til ekki einu sinni þorað að brosa til. Lifi ljósið!

2.1.07

Gleðilegt nýtt ár góðir hálsar..

..hvar svo sem þið eruð! Muahahahahaw.

Já. Ég er komin aftur til Danmerkur og búin með fyrsta skóladaginn á þessu ári. Ekki veit ég hvaða mannvonska það er að slengja á mann strax verkefni með skilatíma kl. 20:00 í kvöld eftir 4 klst fyrirlestur í morgun. Illa gert. Ég hef ekki allavega ekki húmor fyrir því. Þessvegna neyddist ég til þess að panta ferð fyrir mig og Hr. Mon til Berlínar þegar ég kom heim. Ég fann flug á 50% afslætti, svo ég keypti 2 stk fram og til baka. 750 Dkr. Gúddstöff.

Svo vindur þetta upp á sig, og við mon og Lastminute.com fundum í sameiningu úrvalshótel í miðbæ Berlínar, sem var tilbúið til þess að splæsa á okkur drottningasvítu á öndvegiskjörum.

Allavega. Ég fer til Berlinar í vetrarfríinu mínu áður en ég byrja á mastersverkefninu. Vúhú. Lifi meginlandið. Eða... næstum meginlandið.