27.11.07

Frábær strákur!

Þessi gaur er æði! Ef ég væri 12 eða 13 ára væri ég rosalega skotin í honum.

26.11.07

The Colden Compass

Í síðustu viku kláraði ég síðustu bókina í "His dark materials" seríunni. Núna hlakka ég voðalega mikið til að sjá þessa mynd.

21.11.07

Er heimsendir nærri?

Ég veit ekki hvernig þetta virkar í öllum trúarbrögðum og ég tók eftir því að úlfur hefur ekki ennþá borðað sólina, svo hugsanlega er þetta allt í góðu. Málið er sem sagt, að í síðustu tvö skipti sem ég hef brotið egg, hefur eggið verið með tveimur rauðum en ekki einni. Þetta fær mig til að gapa eins og tannsi sé með borinn í annari og reikning fyrir næstu jeppa afborgun í hinni. Áður en þessi vika valhoppaði í tilveruna eins og gamla frænkan mín hún Ingiborg, sem sveiflar töskunni sinni þegar hún gengur niður á torg, hafði ég aldrei séð svona fyrirbæri áður. Hvað þá að lenda á tveimur eggjum í röð með tvíbura rauðum.

Ég var sem sagt að baka smákökur áðan þegar tvíbura rauða nr. 2 (híhíh. nr. 2) heilsaði upp á mig. Ekkert sem kallar inn jólavertíðina eins og hörð fita, hvítt hveiti og sykur.

14.11.07

Almennilegar burtreiðar!

Hér!

Mér er kalt á tásunum

Og það er kalt úti. Alltaf þegar það er skítkalt hérna í Danmörkunni velti ég því fyrir mér af hverju Íslandið heitir það sem það heitir. Ekki það að það sé ekki oft skítkalt þar líka. Tásufrjósandi kalt. Kannski að munurinn sé sá að hérna eru þeir ekki að splæsa í ofna á hvern einasta vegg sem kona labbar framhjá. Þeir eiga nefnilega ekki svona gott heitt vatn eins og við. Ekta ÍSLENSKT vatn. Smjör. Whatever.

9.11.07

Komin heim á heiðarsléttuna. Engir dalir í Danmörku. Eða ekki margir allavega

Langur tími ekkert skrifað! Ég er sem sagt komin aftur heim frá heima. Eða eitthvað svoleiðis. Heim í Danmörku eftir að hafa verið heima á Íslandi. Það var algjör snilld. Við hittum svo mikið af fólki að það er ekki hægt að telja það. Ég held að það sé óteljandi. Samt ekki, því ef við hefðum hitt eina manneskju í viðbót þá hefðu það verið óteljandi og ein og það er víst ekki til. Við höfum liklega hitt óteljandi mínus eina manneskju. Hmm. Virkar ekki heldur. *hóst*

Aaaanywho. Ég borðaði subway (mmm), Indoókina (mmm) og Serranos (sem voru reyndar smá vonbrigði). Svo fékk ég fisk og lambakjöt og.. og.. Já.

Þegar við vorum að valhoppa, hress og kát í gegnum Leifstöð eftir að hafa lent á Íslandi, þá sáum við fleiri löggur en ég hafði nokkurn tímann séð saman komnar fyrir utan í sjónvarpinu. Þar var meira að segja lögguhundur sem þefaði vinalega að mér. Ókay, ekki vinalega.. vinnulega! Hann var í vinnunni og var að leita að dópi held ég. Eða síðustu spægjupylsunum sem hann má gera upptækar áður en það má flytja þær inn algjörlega löglega. Svo var öllum smalað í vegabréfseftirlit og einum manni kippt út úr röðinni eftir að hafa flassað sínum skjölum frá vítisenglaborg. Ég held að vegabréfseftirlitskvennsan hafi ekki einu sinni glansað augunum í áttina að 18 ára versioninu af mér á vegabréfinu eftir að hafa séð að ég kom frá Íslandi.