16.9.07

Í gær borðaði ég emúa, í dag reyndi emúi að borða mig... eða appelsínusafann minn. Ég er ekki viss hvort..

Foreldrar hans Einars eru í heimsókn. Í gær buðu þau okkur út að borða á Reef 'n' beef. Ég fékk mér emúa. Það er ekki það sama og þunglyndu unglingarnir sem nota of mikinn augnblýant, það eru emóar með ói. Emúi er fugl, en hann er eins og nautakjöt á bragðið. Kolruglaður.

Í dag fórum við í dýragarðinn. Ég hef alltaf kunnað sérstaklega vel við llama dýr. Ég veit ekki hvort það sé vegna þess að þau eru skemmtileg í laginu, út af "The Emperors New Groove", út af the llama song eða vegna þess að llama byrjar á tveimur l-um og það er gaman að skrifa það. Allavegna, llamadýrin deila útisvæðinu sínu með emúum. Þegar ég stóð og var að dáðst að llama dýrunum kemur emúi labbandi í áttina að mér og alveg upp að lága grindverkinu sem ég stóð upp við. Allt í einu tekur kvikyndið sig til og hoppar hátt upp í loftið og smellir gogginum í áttina að mér. Hefði ég ekki bakkað hefði hann náð mér. Eða appelsínusafanum. Eins og ég segi, ég er ekki viss um hvort hann vildi. Ekki hlægja! Það sem hann skortir í tannadeildinni bætir hann sko alveg upp í goggasmellideildinni.

Ætli hann hafi vitað að ég hafi borðað ættingja hans í gær? Ég vona ekki! Örugglega ekki! Finnst ykkur að ég ætti að senda kort til hans? "Fyrirgefðu að ég borðaði fjölskyldumeðlim þinn, en ef það hjálpar þá var hann rosalega bragðgóður!". Nei annars... emúar kunna örugglega ekkert að lesa. Hmm.. kannski getur llamadýr lesið á kortið fyrir hann.... Hvað finnst ykkur?

Engin ummæli: