14.6.07

Frystir þrjóski

Ég er að afþýða frystirinn. Það er svo erfitt þegar eldhústæki vinna á móti konu en ekki með henni. Ísskápurinn og frystirinn eru í sömu maskínunni sem er eiginlega lokuð inni í eldhúsinnréttingunni og því ómögulegt að taka hana úr sambandi án þess að fá til þess aðstöð hjá sög/öxi/handsprengju.

Í dag er dagur 2 af afþýðingatilraunum. Í gær tókst að ná síðustu pokunum af frosna grænmetinu úr klóm klakans í efstu hillunni. Í fyrstu leit það svolítið út eins og reittur mammútur í ísklumpi sem kemur undan fjalli eða jökli. Ég er viss um að Elton John hefði viljað gera hárkollu úr því.

Frystirinn stendur núna með galopna hurðina með fullann magann af skálum með heitu vatni inni í sér á meðan hann reynir að halda sem fastast í síðasta frystirssnjóinn. Frystirssnjór er eitraður. Það sögðu mamma og pabbi allavega þegar ég ætlaði að gæða mér á honum sem ponsa. Ég þarf að reyna að hafa það í huga núna þegar girnilegur klakinn dettur niður í hrönnum.

Engin ummæli: