28.6.07

Nei! Nú er komið nóg af rigningu!

Nuffsnuff. Ég nenni þessu ekki lengur. Vissulega á ég glæsileg bleik gúmmístígvél og fína bleika regnhlíf en það bara dugar ekki lengur til að ég sé hress með þessa rigningu. Kryddjurtirnar mínar úti á svölum eru síður en svo hressar yfir þessari ofvökvun og þó svo að graslaukurinn beri sig vel, þá er basilið, steinseljan og dillið farin að láta verulega á sjá. Það er búið að rigna eitthvað á hverjum einasta degi alla síðustu viku og næsta vika lítur eins út.

Ég hef því ákveðið að taka upp nýja stragedíu. "Ignore it and maybe it will go away". Frá og með deginum í dag ætla ég að láta eins og ég taki ekki eftir rigningunni. Ég veit að hún er bara að leita eftir neikvæðri athygli svo ég ætla ekki að veita henni neina athygli. Ég mun rölta út í búð, regnhlífalaus og á sumarskóm og labba bara (♪♫allt sem máli skiptir, labba bara jéjég og þú .. aaaa.. jéjég og þú aaaa♪♫) á venjulegum hraða þó svo að það sé helli rigning. Ég mun setjast út í sólbað með bók næstu helgi og skella á mig sólarvörn.

There is no rain (spoon. whatever).

22.6.07

Bestu 5 sek. EVER

Mér er sama að þetta sé í tísku, mér finnst þetta ógeðslega ljótt færslan mín

Þetta eru tískufyrirbrigði sem mér þykir hallærisleg. Þó svo að þú elskir einhverja af þessum flíkum meira en þín eigin fæddu eða ófæddu börn og viljir verja hana, þá bara gæti mér ekki verið meira sama. Mér finnst þetta ljótt. Þessi föt og önnur eru ástæða þess að ég tilkynnti það um daginn að ég sé "hætt með tísku". Hvernig má það vera að einhverjir tískuhönnuðaplebbar geti ákveðið að nú séu bara ljót föt í tísku og fólk gleypir það? Allavegana. Hefst nú stutt upptalning.


Crocks skór:Hverju er ég að missa af? Þrífa þeir íbúðina þína og kreista ferskan appelsínusafa fyrir þig á meðan þú sefur? Haga þeir sér eins og Brain slugs úr futurama, þannig þetta er snýkjudýr sem þú getur ekki losnað við sjálfur? Eitthvað hljóta þeir að hafa til brunns að bera. Ekki eru þeir fínir, svo mikið er víst.

Skinny Jeans á strákum og stelpum:

Af öllu fólkinu í heila, heila heiminum þá fara svona gallabuxur kannski 0.00001% vel. Þetta eru allt kvenmenn. Á hinum þá eru þetta hroðalega un-flattering buxur með krumpum á hnjánum og rassvösunum ekki á rassinum heldur á lærssinum (á milli rass og læra). Meira að segja grannar stelpur geta litið út fyrir að vera feitar í þessum viðbjóði. Verst er þó þegar spóaleggjaðir strákar telja sig trú um að það sé rosalega rokk að vera í þessu. Þó svo að þessir piltar hafi læra-ummál 8 ára barns, hafa þeir engu að síður skóstærð fullorðins manns, þannig að þeir enda á að líta út eins og L. Versta. Gallabuxnasnið. EVER.

Burberry:Þetta er hroðalegt. Þetta er ljótt. Sama hvaða flík eða fylgihlutur það kann að vera sem er miskunalaust troðið í þetta guðsvolaða munstur hefur farið "to the dark side" og mun aldrei koma aftur. Vontvontvont. Það versta við þetta er að fólk þarna úti er að borga þvílíka peninga fyrir að eiga viðbjóðsleg föt og fylgihluti í þessum stíl. Bara ógeðistreflarnir sem annar hver unglingur í DK er með á veturna kostar hátt í 2000 dkr stk. Merkilegt hvað fólk vill eiga frekar en peninga!

Leggings:Hvað er málið? Af hverju geta stelpur allt í einu ekki farið út úr húsi í kjól eða pilsi án þess að troða sér í einhverjar gammósíur? Ofboðslega hallærislegt. Gæti svo sem verið verra. Þetta gætu verið burberry leggings. Shit. Vonandi gaf ég ekki einhverjum sálarlausum tískuhönnuði hugmynd núna!

20.6.07

MÍN!! tölva

Eftir að yndæli danski strákurinn, sem var 1/4 af þeim sem deildu með mér skrifstofu (þó svo ég sjái hina mjög sjaldan), skilaði verkefninu sínu, þá kom einhver stelpa í staðinn. Ég hef aldrei séð þessa stelpu en ég er vissulega vör við tilvist hennar. Hún er oft búin að vera að nota tölvuna mína. Ég veit það vegna þess að þegar ég logga mig inn þá sé ég hennar notandanafn sem síðustu manneskju sem loggaði sig inn.

Þetta skiptir mig svo sem engu máli þegar ég er hvort eð er ekkert að nota hana sjálf. Núna í morgun var þetta hins vegar gengið of langt. Tölvan mín var læst fyrir öllum nema þessari stelpu! Mér er nákvæmlega sama hvort hún sé að gera einhverja mikilvæga útreikninga sem skipta öllu máli fyrir verkefnið hennar... ég slökkti bara á tölvunni MINNI og loggaði mig inn sjálf. *fnuss* Heldurasééé?

Væri það ekki spennó ef ég færi í skrifstofustríð við manneskju sem ég hefði aldrei séð? Kannski ég skelli mér í stólinn hennar og messi upp butt-groovinu hjá henni. Heheh

19.6.07

Disco Stu does not advertice

Sooo.. what do you guys think about rainbow suspenders? Pretty cool way to hold up your pants huh?

17.6.07

Helti úr pirring varðandi þetta mál á msn rétt úr þessu

Ákvað að peista þetta hérna inn líka, því svona líður mér svo voooooðalega í alvörunni!

Ósk says:
Ég er ekkert að æsa mig yfir þessu persejj.. Bara þessu almenna tískuslysi á íslandi að aðskilja trúlofun frá giftingu
Ósk says:
"Viltu trúlofast mér" og allt þetta... Líta á þetta eins og að þó fólk sé trúlofað þurfi það ekkert að gifta sig. Þetta þýði bara að það sé ekki bara á föstu heldur PIKKFÖSTU
Ósk says:
Sé meira saman en allir aðrir
Ósk says:
FÁIÐ YKKUR VINABÖND FOR FUCK SAKE!!

16.6.07

Miss Yoggy

Eftir að Einar tjáði mér að gaurinn sem talaði fyrir Yoda í Star Wars sé í raun sá sami og talaði fyrir Svínku (Miss Piggy) hefur líf mitt ekki verið eins. Kemur bara í ljós að Yoda á ýmislegt sameiginlegt með geðbiluðum froska-stalker. Ætli það sé þessvegna sem hann flutti í fenin?

15.6.07

Þjóðverjaómyndirnar

Það versta við Þýskaland er að það er fullt af Þjóðverjum sem tala bara þýsku (hægt að nota þessa settningu í stafsettningaupplestur. Sk reglan í öllu sínu veldi. Hverjum þarf annars að múta til þess að bæta "ó-i" fyrir framan nafnið á sk reglunni? Heh heh).

Samfélagið hefur gert þá svona. Það eru einhverjar rúmar 82 milljónir íbúa í Þýskalandi og svo bætast við þýskumælandi kvikyndin í Austurríki og Sviss og á öðrum stöðum. Þetta þýðir augljóslega að þeir búa til vörubílsfarma af skemmtiefni sjálfir og að þeir hleypa ekki einni einustu kvikmynd inn í landið án þess að keyra með hana út í kant, ganga í skrokk á henni og enda svo ofbeldið með því að döbba allt tal yfir á þýsku. Allar bækur eru líka þýddar og aumingja fólkið kemst ekkert í enskt efni neinstaðar nema í gegnum Internetið eða enskusmyglaraklíkur.

Enginn í Þýskalandi vill sem sagt tala ensku. Ekki einu sinni starfsfólk á hótelum þegar það er að útskýra eitthvað þjófavarnarkerfi sem gæti öskrað bloody murder um miðja nótt ef útskýringin kemst ekki öll til skila. Kellingakvikyndið horfði bara á okkur með blóðugan PMS pirring í augunum og spurði ítrekað hvort við skildum hana ekki.

KONA! Þetta er hótel! Ferðamenn! Kámán!

Þegar ég er í Þýskalandi líður ekki sá dagur þar sem ég þakka ekki Alberti kóalabirni fyrir að ég hrökklaðist í gegnum menntaskólaþýskuna þarna í gamla daga.

14.6.07

Þýðing..

He said; come here happy and blessed,
I went totally in floating device

Frystir þrjóski

Ég er að afþýða frystirinn. Það er svo erfitt þegar eldhústæki vinna á móti konu en ekki með henni. Ísskápurinn og frystirinn eru í sömu maskínunni sem er eiginlega lokuð inni í eldhúsinnréttingunni og því ómögulegt að taka hana úr sambandi án þess að fá til þess aðstöð hjá sög/öxi/handsprengju.

Í dag er dagur 2 af afþýðingatilraunum. Í gær tókst að ná síðustu pokunum af frosna grænmetinu úr klóm klakans í efstu hillunni. Í fyrstu leit það svolítið út eins og reittur mammútur í ísklumpi sem kemur undan fjalli eða jökli. Ég er viss um að Elton John hefði viljað gera hárkollu úr því.

Frystirinn stendur núna með galopna hurðina með fullann magann af skálum með heitu vatni inni í sér á meðan hann reynir að halda sem fastast í síðasta frystirssnjóinn. Frystirssnjór er eitraður. Það sögðu mamma og pabbi allavega þegar ég ætlaði að gæða mér á honum sem ponsa. Ég þarf að reyna að hafa það í huga núna þegar girnilegur klakinn dettur niður í hrönnum.

6.6.07

Road trip með talsvert löngum stoppum inn á milli!

Ég er að fara í road trip! Vei. Spannar 10 daga og 3 lönd. Danmörku, Þýskaland og Legoland. Hvað? Það er land! Í alvörunni!

Tala við ykkur þegar ég kem heim :o)

5.6.07

Svo margar spurningar

Hvað er pamfíll?
Tengist hann eitthvað PAM olíu spreyjinu?
Hvað ætli þyrfti mörg PAM sprey til að spreyja heilan fíl?
Á lukkan bara pamfíl eða á ólukkan líka pamfíl?
Á ólukkan kannski öðruvísi fíl eða pam eitthvað annað? Ólukkunar olíufíl eða ólukkunar pamljón?

Ég krefst svara!

1.6.07

Svona virkar þetta..

Sjálfstæðiðsflokkurinn fékk flest atkvæði. Það þýðir að flestir vildu hafa þann flokk í ríkisstjórn og hann er sigurvegari kosninganna. Samfylkingin fékk næst flest atkvæði svo hún er í öðru sæti.

Það er afskaplega gott og eðlilegt mál að þeir flokkar sem séu með mesta fylgið á bak við sig fari saman í stjórn.

Þó svo að þú skorir fleiri mörk í einhverjum fótboltaleik heldur en í síðasta leik sem þú spilaðir, þá vinnur þú bara ekki neitt nema þú skorir fleiri mörk en andstæðingurinn. Punktur.

Ég fæ svo mikinn kjánahroll alltaf að lesa mbl þar sem að þeir sem "lentu" í stjórnarandstöðunni eru að vera tapsárir.