30.4.07

Þvottavélar... já.

Ritskoðað fyrir kexið ;o)

Eins og lög gera ráð fyrir, þá bila hlutir á föstudögum. Þannig er borin von að redda viðgerðamanneskju fyrr en í fyrsta lagi þremur dögum seinna og því hægt að tryggja eins mikil óþægindi og mögulegt er. Þvottavélin okkar passaði sig einmitt að fara eftir þessari reglu þegar hún hætti skyndilega að tæma sig.

Við tæmdum hana manually nokkrum sinnum. Í fyrsta skipti fór vatnið eiginlega út um allt eldhúsgólfið vegna þess að við áttum ekkert einasta ílát sem passaði almennilega undir tæmistaðinn. Ég veit að ég er búin að vera að tuða yfir því að ég sakni þess að geta farið í bað, en þetta var sko ekki það sem ég átti við!

Fyrir næstu tæmingu bjó ég til einskonar vatnsbeinirennu úr álpappír sem reddaði þessu all svakalega. Vatninu var beint eftir glæsilegri silfurlitaðri rennibraut upp smá brekku og ofan í ílát þar sem að silfurskottur dönsuðu samræmdan sund-dans við brjálað lazier show.

Ég held að ég sé tilbúin fyrir verkfræðigráðuna mína!

Í gær ákváðum við svo að reyna að skella okkur í viðgerðir. Við drógum vélina fram á gólf, aftengdum vatnsrörið, föttuðum að við hefðum skrúfað fyrir vatnið í vitlausa átt (og þar með sett það á fullan kraft) og blótuðum aðeins. Tengdum vatnsrörið aftur. Skrúfuðum fyrir vatnið í rétta átt. Aftengdum rörið aftur. Tókum vélina úr sambandi, snérum henni á hliðina. Eyddum lengri tíma að finna hentugt skrúfjárn. Skrúfuðum part vélinni í sundur. Fundum vandamálið.

Einhver skrúfa (sem væri líklega kölluð vifta ef hún byggi ekki ofan í vatni) var hætt að snúast almennilega. Með aðstoð flísatangar og nálar og klukkutíma handavinnu náði ég að redda helvítis skrúfunni.

Vélinni var svo klambrað saman aftur og nú er hún aftur orðin hress og kát og malar eins og kettlingur.

Engin ummæli: