30.4.07

Þvottavélar... já.

Ritskoðað fyrir kexið ;o)

Eins og lög gera ráð fyrir, þá bila hlutir á föstudögum. Þannig er borin von að redda viðgerðamanneskju fyrr en í fyrsta lagi þremur dögum seinna og því hægt að tryggja eins mikil óþægindi og mögulegt er. Þvottavélin okkar passaði sig einmitt að fara eftir þessari reglu þegar hún hætti skyndilega að tæma sig.

Við tæmdum hana manually nokkrum sinnum. Í fyrsta skipti fór vatnið eiginlega út um allt eldhúsgólfið vegna þess að við áttum ekkert einasta ílát sem passaði almennilega undir tæmistaðinn. Ég veit að ég er búin að vera að tuða yfir því að ég sakni þess að geta farið í bað, en þetta var sko ekki það sem ég átti við!

Fyrir næstu tæmingu bjó ég til einskonar vatnsbeinirennu úr álpappír sem reddaði þessu all svakalega. Vatninu var beint eftir glæsilegri silfurlitaðri rennibraut upp smá brekku og ofan í ílát þar sem að silfurskottur dönsuðu samræmdan sund-dans við brjálað lazier show.

Ég held að ég sé tilbúin fyrir verkfræðigráðuna mína!

Í gær ákváðum við svo að reyna að skella okkur í viðgerðir. Við drógum vélina fram á gólf, aftengdum vatnsrörið, föttuðum að við hefðum skrúfað fyrir vatnið í vitlausa átt (og þar með sett það á fullan kraft) og blótuðum aðeins. Tengdum vatnsrörið aftur. Skrúfuðum fyrir vatnið í rétta átt. Aftengdum rörið aftur. Tókum vélina úr sambandi, snérum henni á hliðina. Eyddum lengri tíma að finna hentugt skrúfjárn. Skrúfuðum part vélinni í sundur. Fundum vandamálið.

Einhver skrúfa (sem væri líklega kölluð vifta ef hún byggi ekki ofan í vatni) var hætt að snúast almennilega. Með aðstoð flísatangar og nálar og klukkutíma handavinnu náði ég að redda helvítis skrúfunni.

Vélinni var svo klambrað saman aftur og nú er hún aftur orðin hress og kát og malar eins og kettlingur.

27.4.07

Mismunandi viðhorf

Rétt í þessu heyrði ég tilboðsbæklingana koma inn um lúguna. Það nefnilega fer ekkert á milli mála þegar þetta gerist, þar sem að gólfið skelfur og pappírsflóðið tekur yfir alla íbúðina. Ég ELSKA tilboðsbæklingana og eyði ágætum tíma í að skoða þá alla og setja kross við það sem er sniðugt að kaupa. Ég hljóp þegar í stað til þeirra og tók á móti þeim, kát eins og hvolpur með dillandi skott. Á meðan ég var að safna þeim saman heyrði ég hurð opnast og reiða rödd á ganginum. Ég kíkti út um gæjugatið og sá þar nágranna okkar, sem er yfirleitt eins rólegur og kurteis eins og hann er metro, standandi með blautt hárið og einungis með handklæði utan um sig og skammast í bæklingaburðamanninum. Hann er nefnilega með "jáneitakk tilboðsbæklingar" merki á hurðinni sinni.

Hann hatar þá nægilega mikið til þess að æða út úr sturtu og láta sjá sig án þess að hafa gel í hárinu til þess að skammast í manninum sem kemur með þá!

Ég fékk tár í augun og hugsaði að ég hefði nú alveg getað tekið hans bæklinga líka og sýnt þeim ást og umhyggju.

Beating the system since 1981!

20°C, sól, svalir, hlírabolur og þráðlaust net.. Djöfull sigraði ég kerfið þarna! Nú þarf ég ekki lengur að sitja inni og vorkenna sjálfri mér að vera að læra.

26.4.07

Innri barátta

Munnurinn: Ooooh.. mig langar í nammi
Viljastyrkurinn: Já, en við ætlum samt ekki að fá okkur sykur! Við erum búin að halda út síðan um páskana. ÉG ræð núna!
Hégóminn: Já! Við erum nefnilega í megrun!
Skynsemin: Öhh.. meinar þú ekki átaki?
Hégóminn: Já, auðvitað. Átaki til að vera mjórri!
Skynsemin: ..en aðalega komast í form
Hégóinn: Já! Fullkomið stundaglasa..
Skynsemin: *ræskj* Heyrðu mig..
Munurinn: ER EINHVER AÐ HLUSTA!? Ég vil í nammi!!
Viljastyrkurinn: Þú ert ný búinn að borða fullt af grænmetissúpu
Munnurinn: Grænmeti er ekki haribo hlaupbangsi. Grænmeti er ekki sterkur brjóstsykur! GRÆNMETI er ekki....
Viljastyrkurinn: ÞEGIÐU!
Munnurinn: NAMMI!!! EÐA ÉG BÍT MIG Í TUNGUNA!
Skynsemin: Sussss.. Ef þið hættið skal ég sjá til þess að við fáum epli bakað inni í ofni með kanel ofan á
Allir: DÍLL!

Hahahah.. Góðar myndir

Animals want water!

Krúkrúúúúkrú. Krúúúkrú

Mér finnst dúfur vera vinalegar, jafnvel þó svo að dúfuhljóð séu ekki þau fallegustu. Dúfur hafa verið held ég í öllum löndum sem ég hef komið til. Hverfisdúfurnar hressu. Partýfuglar.

Það eru til þrjár megin týpur af þessari venjulegu dúfu. Nettar dúfur, miðlungsdúfur og útkastaradúfur. Útkastaradúfurnar eru með geðveikt þykkan háls og eru oft að bullya hinar dúfurnar til. Skemmtilegast er samt þegar tvær útkstaradúfur eiga eitthvað vantalað við hvora aðra. Þá fá sko fjaðrir að fjúka!

Stundum koma tvær dúfur og hanga á svölunum hjá okkur. Spígspora ofan á niðurfallsrörinu og dúfast eitthvað. Ég á það til að "tala inn á" fyrir þær. Það er stuð.

25.4.07

Skakkur munnur..

Ég hef aldrei tekið eftir þessu áður, svo ég vona að það sé bara þessi mynd. Hinsvegar sé ég að ég þarf greinilega að fara að stunda góða veðrið hérna betur. Hvít eins og Knútur skrúbbaður upp úr wanish og nýkominn úr sturtu.

22.4.07

Heimilissorg

Það ríkir heimilissorg hér í Danmerkurútibúi kastalans. Pottaplantan okkar, Róbert Plant er dáin. Núna er hann endanlega farin og það er ekkert sem skæri eða vökvun getur reddað. Eftir að við uppgvötvuðum þetta var þögn í góðar 10 sekúntur á meðan við minntumst hans. Svo fékk hann virðulega útför í ruslarennunni.

Nú hefur basilið mitt, hann Basil tekið yfir blómapottinn hans og það er flutt út í stofugluggann þar sem Róbert var áður. Það er bara vinalegt að hafa ferstk basil í stofuglugganum. Í alvörunni!

17.4.07

Hopphopphopp VEII!!

Ég á nýja frænku! Hún var bara að koma í heiminn fyrir minna en klukkutíma síðan. Þetta er gífurlega spennandi allt saman!

16.4.07

Það ætti að vera bannað með lögum..

...að láta fólk læra í svona veðri! Það er búið að vera geðveikt veður síðustu daga. Við reyndum að nýta okkur það eins og við gátum um helgina og fórum m.a. í dýragarðinn og keyptum okkur árskort og vöppuðum um þveran og endilangan miðbæinn. Núna er ekki lengur helgi. Núna er mánudagur. Mánudagur með 19°C og ekki skýi á himni. Evil!

13.4.07

Síðasta vígið fallið!

Haldiði ekki að ég sé búin að búa til myspace account. Svona gerist þetta!! Ég á bara einn vin samt. En það er góð vinkona, svo hún telst sem meira!

Spurning um hvað ég endist lengi á þessu.

Rétt til þess að sýna að þjóðerniskenndin mín sé ekki dauð eða í dvala..

..vínflöskulopapeysan sem ég keypti á vellinum!

12.4.07

Fúlir og dónalegir Íslendingar?

Kannski er íslenskt fólk sérstaklega tense í kringum páskana. Ég veit það ekki alveg. Mér fannst allavegana fólk í þjónustustörfum heima vera hroðalega fúlt eitthvað og ég hef aldrei tekið mikið eftir þessu áður. Ég hef alveg tekið eftir því í hvert skipti sem ég náða ættjörðina fögru með návist minni að Íslendingar eru friggin' dónar, fávitar og frekjudollur þegar það kemur að umferðinni og myndu frekar skera af sér hægra eyrað en að hleypa bílum inn á sína akrein. En já. Það er önnur saga..

Í alvöru talað! Ég lagðist næstum því í þunglyndi eftir að hafa talað við sérstaklega "hressa" dominos afgreiðslustelpu í símann og svo voru kassastarfsmenn eða annað fólk sem þjónustaði mig heima almennt ekkert hressara. Ég meira að segja sagði eitthvað vinalegt og brosti til konu sem var á undan mér í röð einu sinni og ekki bara sleppti hún því að svara, heldur starði hún mig líka niður helvítið á henni. Ég var farin að íhuga að taka þessu persónulega þegar Einar sagðist hafa orðið var við þetta líka.

Þegar við komum aftur til Danmerkur varð ég ennþá frekar vör við þetta, þar sem þjónustustarfafólk hefur gert fátt annað en að brosa til mín, "hej" eða "hej hej"-a mig og segja mér að "ha' en godt dag" síðan á þriðjudaginn.

Er öll þjóðin að umturnast yfir í fúla fýlupúka? Shift.. ég bíð ekki í það! Ég sem ætlaði að flytja heim aftur einhverntímann á næsta ári eða þrem.

11.4.07

Eyjan gula, skórnir rauðu, maskarinn svarti og linsurnar glæru

Í gær flaug ég frá eyjunni gulu og brúnu og til eyjarinnar grænu. Ekki Írlands samt. Sjálands. Samskipti mín við þegna mína hafa ekki verið sem skildi síðustu daga, en það var vegna þess að ég hafði úðað í mig svo miklum páskaeggjum og annari óhollustu að puttarnir á mér voru orðnir of feitir til þess að vélrita.

Ég gerði annars ýmislegt mér til dundurs og hitt heilan hafsjó af fólki.

Á Kastrup á leiðinni til Ísalands verslaði ég meira að segja eina snyrtivöru, hann maskara. Maskara fylgdi heilt konungsríki af vakúmpökkuðum poka svo að ég myndi ekki freystast til að maskara á mér trýnið áður en ég færi úr Danskri lögsögu. Overkill anyone? Það er svo mikið "ekkert" í þessum poka að það gæti leikið í Never ending story mynd!

Eh. Já. Anywaysandwho. Ég fór líka í linsutíma á Íslandinu til þess að læra að setja í mig linsur. Drottningin ákvað að það væri miður þokkafullt að hitta aldrei boltann í svassi og ákvað að þar hlyti að vera sjónskekkju um að kenna frekar en litlum skvasshæfileikum. Svo sá hún hreinlega.. arg. Get ekki talað um mig í þriðju persónu svo setningum skipti. Svo sá ÉG hreinlega að það gæti ekki verið annað en sniðugt að eiga linsur á lager fyrir ákveðin tækifæri. Ég hef aldrei prufað að vera með svoleiðis áður og ég stakk á mér húðina fyrir neðan augun með nöglunum á mér þegar ég reyndi að af linsast í tímanum. Linsukonan hélt því samt fram að konur gætu sko alveg verið með neglur og linsur í einu.Ég ákvað klippa samt neglurnar frekar en að skera upp á mér andlitið í hvert skipti sem ég setti þær í eða tæki úr. Linsuísettningakennarinn sagði að ég væri miklu betri í þessu en flestir sem kæmu til hennar og að ég væri fullkominn kandídat í að vera linsuberi því að tárafilman mín væri það fallegasta sem hún hafði á æfinni séð. Eða sko.. hún orðaði þetta ekki alveg svona, en ég sá að hún meinti það. Mjeh. Kannski er mér bara náttúrulegt að pota mig í augun.

Til þess að verðlauna mig fyrir að vera með svona góða tárafilmu, fór ég og keypti fallegustu skó í heimi. Þeir eru rauðir og glansa eins og gullfiskur.Sjáið þið bara hvað þeir eru fallegir!! Feel free to bask in their glory.

Annars held ég að þetta fari að verða ágætt í bili. Það gegnur ekkert að svelta ykkur svo dögum skipti og drekkja ykkur svo í orðum. Held ég endi á þessari pælingu:

Finnst engum ÖÐRUM freaky að það séu framleiddir tvíhöfða páskaungar?

1.4.07

Kvikyndiskvikyndi!

Á föstudaginn var mér haldið í gíslingu inni í flugvél í heilar 2 klst fram yfir áætlaðan tíma, vegna þess að fantakvikyndin sem áttu að hlaða og afhlaða vélina vildu ekki mæta á hlöðuballið. Eða sko.. Þeir lögðu niður vinnu sökum einhverra verkalíðsaðgerða og mættu ekki á staðinn. Ég gat fylgst með einhverjum einum aumingjans yfirmanni sem var greinilega ekki vanur líkamlegri vinnu verandi að standa í þessu, kassar og töskur dettandi út um allar trissur af færibandinu því hann hafði ekkert við.

Þetta er bara ljótt sko!