6.3.07

Hrói Höttur var aldrei kapitalisti!

Síðasta þriðjudag og alveg fram á sunnudag gekk yfir víkingaárás frá Íslandi. Danirnir Jesúsuðu sig og þökkuðu fyrir að Tívolí væri lokað, svo það yrði ekki tekið yfir eins og Magasin. Prótótýpan, kærastan hans og guðsonur minn náðuðu okkur með nærveru sinni og ég er ennþá að jafna mig eftir sælgætisborðihópþrýstinginn á kvöldin. Hey! Passaðu þrýstinginn. Heh heh.

Krakkar eru svo fyndnir. Kona gefur þeim einhvern veginn aldrei nægilegt kredit. Í svona 2,5 klst, á meðan foreldrar hans voru að versla, vorum við frændi minn að dunda okkur heima. Við byrjuðum á því að búa til reitt páskaungaföndur og þegar það var hætt að verða spennandi tók ég mig til og bjó til Hróa Hattar hatt úr stóru dagblaði. Þetta þótti honum áhugavert, en kommentaði á að það vantaði fjöður í hattinn. Ég heftaði við eina fjöðrina úr páskaungaföndrinu og hann skelti hattinum á hausinn, aldeilis stoltur. Þetta vatt svo upp á sig og á endan stóð frændinn fyrir framan mig með fasteignaauglýsingarnar á hausnum, örvahulstur úr eldhúsrúllukartoni og á bakinu, haldið uppi með nælonsokkabuxum kliptum niður í band. Í því voru 5 örvar, búnar til úr niðurkliptu kartoni af draumakökumixi með fjöðrum heftuðum á endana Um miðjuna var hann með slíður klipt út úr sama kartoni og heftað á belti úr niðurklipptum sokkabuxum. Í slíðrinu var sverð, heftað saman úr mörgum draumakökukartonshlutum.

Frændinn var alveg eins ánægður með þetta og ef þetta hefði verið fínasti, dýrasti kapitalistavarningur úr dótabúð og talaði um að hann ætlaði að taka þetta með sér heim og vera Hrói Höttur á næsta öskudag. Af hverju heldur kona alltaf að krakkar vilji bara hluti sem kosta peninga?

Engin ummæli: