21.2.07

Fyrrverandi verðandi rithöfundur

Eftir fyrstu ritgerðaskil bekksins míns í menntaskóla var íslensku kennarinn ekki sáttur. Reyndar þrumaði hún yfir mánudagssyfjuðum nemendum að þeir skildu sko aldrei nota orðið "maður" í samhengi eins og t.d. "manni finnst" eða "maður verður svo glaður", í ritsmíðum sínum. Þessu er ég alveg sammála. Kona ætti aldrei að grípa til þess.

Allt fram að menntaskólagöngu minni var ég verðandi rithöfundur. Hver einasti kennari sem hafði lesið yfir ritverk eftir mig, sagði allavega að ég gæti alveg stefnt á það. Eftir að sögur og ritgerðir sem ég samdi voru lesnar upp í milljónasta skiptið fyrir hina í bekknum, fór ég að trúa þessu.

Aftur að mánudeginum þar sem "maður" var bannaður;

Við höfðum fengið það verkefni að skrifa ritgerð um "Ást". Þar sem að þetta var sérstaklega klént viðfangsefni poppaði ég það aðeins upp. Ég talaði um hvað ástin og dauðinn ættu sameiginlegt og hvernig þau tengdust. Ég kvótaði meira að segja í Romeo og Júlíu á dulinn hátt.

Þegar ég fékk ritgerðina aftur í hendurnar sá ég að krotuð var á hana með stórum, rauðum stöfum talan 5,5. Umfjöllunin sem ég fékk var eitthvað á þessa leið: "Mjög góð og vel útfærð hugmynd, en stafsetningu ábótavant". Já, í menntaskóla tók nefnilega við heljarstjórn stafsetningarinnar og orðaforðasnobbsins! Allir sem hafa eitthvað kynnst Óskímon vita að stafsetning er fyrir henni svolítið eins og gróðurhúsaáhrifin eru fyrir ísbirni - ekki kúl! Ofan á það, þá er kona (já, hafðu þetta íslenskukennari frá því í 3. bekk í Verzló!) í menntaskóla ekki verðlaunuð fyrir hugmyndir og útfærslu. Hún er verðlaunuð fyrir eitthvað steingelt eins og "hvívetna", "hvaðanæfa" og "herbergiskitra".

Þegar ég komst svo á þriðja árið af ofbeldi íslenskukennara og rauðra penna gafst ég upp. Sögunni minni þar sem ég vísaði fram og til baka í Gollum úr Hringdadrottnissögu og Hobbitanum var hent á borðið, svo rauðri að það hefði verið hægt að nota hana í "rautt, rautt, rautt" erindið í litalaginu (ef það væri ekki búið að kippa því út úr laginu vegna þess að "fyrir vin minn innfædda Ameríkubúann" passar ekki í laglínuna). Kennarinn spurði mig út í eitthvað í ritgerðinni og þegar ég svaraði honum sagði hann: "Ó, ég hef aldrei lesið þær bækur".

Til hamingju! Ykkur tókst það!

Næsta ritgerð sem ég skrifaði var um "Gæludýr". Ég gafst upp á því að reyna að vera frumleg og skrifaði þess í stað ömurlegan texta með orðaforða sem hefði ekki skilið eftir þurrt sæti hefði hann verið lesinn upp á íslenskukennara ráðstefnu. Til þess að kóróna þetta allt saman, skellti ég litlum "clipart" myndum af samsvarandi gæludýri við hliðina á textanum þar það átti við. Gæludýraritgerðina fékk ég til baka með "9,5" skrifaða við hliðina á ógeðslega wordart titlinum á forsíðunni og "Einstaklega skemmtileg og lífleg ritgerð" í bónus. Eftir þetta reyndi ég ekki einu sinni lengur.

Ætli þetta sé partur af dulinni námskrá menntaskóla? Að drepa niður sjálfstæða og skapandi hugsun einstaklinga áður en þeir eru sendir út í þjóðfélagið?

Engin ummæli: