13.1.07

Snjóboltaáhrifin

Ég man þegar ég var lítil og fékk eitthvað gefins eða lánað eða einhver gerði eitthvað gott fyrir mig sem ég gleymdi að þakka fyrir. Þá sagði annað þeirra eldri og vitrari: "..og hvað segir þú þá?". Ég skammaðist mín svo mikið þegar þetta var sagt við mig. Ég hefði nefnilega alveg átt að muna að þakka fyrir mig sjálf. Eftir þetta voru þakkirnar eitthvað svo þrúgandi. Komu út eftir langa pásu, og meira eins og eitthvað sem ég varð að gera heldur en eitthvað sem ég meinti í alvörunni.

Þetta einhvern veginn breytist ekki eftir því sem kona eldist. Nú er ég ekki að tala um að ég gleymi oft að þakka fyrir mig, heldur er ég að tala um þegar ég veit alveg að ég hefði átt að gera eitthvað og því lengra sem ég dreg það, því erfiðara verður að drífa í því.

Það versta er samt þegar ég fer að mikla lítinn og einfaldan hlut fyrir mér, svo að hann verður allt í einu orðin óyfirstíganleg hindrun. Eins og snjóbolti sem kona ýtir á undan sér. Nei andskotinn! Ég get gert betur en þetta... Eins og 10.000 skeiðar þegar allt sem ég þarf er hnífur. Já, ég held svei mér þá að þessi samlíking sé ekkert verri í þessu samhengi en sem lýsing á kaldhæðni.

Ég man t.d. eftir því þegar ég þurfti að fara að biðja einn af kennurunum mínum úr HR um meðmæli (til þess að senda með umsókninni minni til DTU). Eftir að hafa dregið það fram á síðustu stundu, tosaði Einar mig á eyrunum að skrifstofunni hjá téðum kennara og sagði mér að drífa í þessu. Hann reyndist hafa rétt fyrir sér. Kennarinn skrifaði meðmælin og þetta var ekkert mál. Ég hálf skammaðist mín fyrir klórförin eftir veggjunum og á hurðarkörmunum, þar sem ég hafði reynt að læsa mig fasta á leiðinni að skrifstofunni hans, á meðan ég öskraði fullum hálsi "ég vil ekki deyja, ég vil ekki deyja!".

Já, "Throughout my life I have worried about many things. Most of which never happened" sagði Mark Twain. Ef kona getur ekki fundið upp eitthvað fínt og viðeigandi til þess að segja, lítur hún betur út ef hún vitnar í einhvern annan sem tókst vel upp. Þá virkar hún líka víðlesnari.

Svei mér þá. Ef ég myndi fylla heila færslu af gáfulegum kvótum frá gáfuðu fólki, sem skotið er inn á gáfulega staði og í samhengi, mynduð þið öll vera viss um að ég sé bæði sæt og víðlesin.

Engin ummæli: