30.1.07

Skrifstofulykillinn minn

Ég fór upp í skóla í dag og talaði við verkefnakennarann minn. Ég byrja nefnilega á mastersverkefninu mínu á fimmtudaginn, þannig að ég þurfti að kíkja við til þess að koma ýmsum hlutum á hreint og fá skrifstofu, vera kynnt fyrir allskonar fólki og fleirra. Mér líður eins og ég sé svo mikilvæg núna, með minn eigin skrifstofulykil á lyklakippunni minni. Ritarinn minn reddaði þessum lykli (hahah, annað mikilvægisstig að vera með ritara. Að vísu ekki einkaritari, en það er annað mál..).

Reyndar er ég ekki ein um þessa skrifstofu. Ég deili henni með allavega tveimur öðrum (og annar þessara aðila er einmitt Ola, lettneska vinkona mín), en þar er skrifborð, tölva, skrifborðsstóll, skjár, lyklaborð og risa stór gluggi sem tilheyra mér einni! Það er meira að segja ágætis útsýni út um gluggann minn. Ég sá íkorna og allt. Ef útsýnið þitt inniheldur tré, grænt gras, himinn og einstaka íkorna, þá eru þið sko ekki stödd á flæðiskeri skal ég segja ykkur. Ég held að íkornar séu ekkert mikið á flæðiskerjum.

Eftir þennan fund, dreif ég mig í klippingu. Ég er búin að vera að mana mig lengi upp í það. Eftir að ég uppgvötvaði heimastrípun, þá hef ég nefnilega ekkert farið. Fyrir daginn í dag fór ég síðast í klippó í febrúar 2006. Ég var orðin skíthrædd um að ganga inn á hárgreiðslustofu, því ég var viss um að klippókonan myndi skamma mig. Svo gerði hún það ekkert blessunin. Var bara yndæl og góð og rak ekki einu sinni upp vein þegar hún skoðaði á mér hárið. Kannski eru hún vön þessu. Slysólæknarnir öskra ekki heldur þegar þeir sjá opið beinbrot.

Engin ummæli: