16.1.07

Að hræða litlar stelpur..

Ég man þegar ég var svona 11 ára og okkur stelpunum í bekknum mínum var smalað í litlum hópum til skólahjúkrunarfræðingsins. Skólahjúkrunarfræðingurinn var kona sem hélt til í skólanum á milli kl. 10 - 12:30 þrisvar sinnum í viku, svo börn voru vinsamlegast beðin að slasa sig ekki utan þess tíma. Þegar við vorum svona 10 ára þá hundsaði Vala greyjið þessi tilmæli algjörlega og braut á sér löppina í marga mola eftir sérstaklega spennandi sniglaparís.

Hjúkkan var ekki við, svo húsvörðurinn potaði eitthvað í löppina á henni og sagði að það væri allt í lagi með hana og sendi hana svo gangandi heim til sín. Sem betur fer sá kennarinn okkar aumur á Völu og skutlaði okkur heim til hennar. Daginn eftir kom hún í gifsi í skólann sem náði frá tásum og hátt upp að læri.

Já. Allavega. Smölunin! Við sátum þarna hjá hjúkrunarfræðingnum og hún tilkynnti okkur að hún ætlaði að tala við okkur um blæðingar. Hún sýndi einhverjar teiknaðar myndir af hinum og þessum hlutum varðandi þetta allt saman og eftir að hafa talið upp allskonar blæðingaslangur (mér fannst by the way "fá Rósu frænku í heimsókn" hallærislegt þegar ég heyrði það fyrst þennan dag og finnst það ennþá hallærislegt í dag..) fór hún að tala um dömubindi. Hún snaraði 50 kg, metersþykku dömubindi á borðið. Ég beið eftir að borðið myndi hreinlega gefast upp, en það virtist vera vant slíku ofbeldi. Við stelpurnar vorum allar hálfstressaðar að þetta væri eitthvað sem við þyrftum að ganga með í nokkra daga í hverjum mánuði. Augljóslega yrði alltaf hægt að sjá hver væri á túr sökum einkennandi mörgæsagangs.

Er þetta ennþá gert í dag? Ekki nóg með að það ungar stelpur séu sjokkeraðar með því að þær þurfi að þola þennan skramba í hverjum mánuði í mörg ár, heldur er hrædd úr þeim líftóran með tröllkonudömubindi!?

Engin ummæli: