22.1.07

Espresso Annan

Á Íslandinu yfir jólin höfðumst við Einar við í kastalanum heima. Drottningarmóðirin á glæsilega espresso vél sem Einar vandist aðeins of vel. Þegar við komum aftur út til Danmerkur var hann hálf bitur út í kaffivélina sína og sudda verkamannakaffið sem hún mallaði. Fyrir helgi náði þetta svo hámarki þegar hann fór að ramba inn í allar búðir sem mögulega gætu selt espresso vélar og lesa umsagnir um þær á netinu. Þetta endaði svo í dag þegar hann loksins fjárfesti í vél, nákvæmlega eins og þessari sem móðir mín á.

Það er nú búið að koma henni fyrir inni í eldhúsi og tekur hún nú frá dýrmætt eldhúspláss. Eldhúspláss er það merkilegasta á þessu heimili, þegar kona á allskonar vinalegar maskínur til þess að hjálpa við eldhússtörfin. Espresso vélin sleppur svo sem fyrir horn með þetta, því að gamla kaffivélin var send inn í geymslu í staðinn.

Engu að síður, þá vildi ég sýna henni hver það er sem er drottningin í þessu eldhúsi, svo ég þjarmaði illilega að henni þegar Einar var á klósettinu. "Það er ÉG sem ræð í þessu eldhúsi vinan og þú skalt bara hafa þig hæga!", sagði ég. Hún hundsaði mig algjörlega helvítið á henni, svellköld eins og Fonzie.

Mér finnst Einar eyða miklum of miklum tíma í að pússa hana og ég er orðin hálf stressuð að hann eigi ekkert eftir að skemmta sér í Berlín því honum eigi eftir að hlakka svo til að koma heim og fá espresso.

Engin ummæli: