29.11.06

Abbabbbabb

Sko. Það er ekki alveg í lagi með mig. Ég var að lesa mbl og þar var talað um "skólaorðabók". Ég las það sem "sóðabrók" og fór að spá í hvernig í andskotanum það ætti að hjálpa Pólverjum með íslenskunám.

Niðurstaða: Ég er þreytt í augunum!

Mjeh. Eitthvað

Mamma og pabbi eru í heimsókn. Vei!
Verkefnatillagan mín verður vonandi send inn á mánudaginn. Vei!
Það eru 2 vikur og 2 dagar þangað til ég kem til Íslands. Vei!
Á föstudaginn má fara að spila jólalög. Vei!

Það eru 12 dagar í próf/verkefnaskil. Búúú!
Ég á eftir að fá magasár úr stressi áður en að því kemur. Búúú!
Ég á eftir að læra svo voðalega, voðalega mikið og skila svo mörgum verkefnum. Búúú!

23.11.06

oooog hún tekur trylling!

ARG! Hvað er málið. Af hverju er ekki hægt að treysta á fullorðið fólk með háskólagráðu (sem a.m.k. einn af þessum aðilum hefur reyndar fengið í cornflakes pakka) að mæta á réttum tíma á fundi og vera búið með það sem það á að vera búið með? Er ég barnapía?

Djöfull ætla ég aldrei í hópverkefni aftur með fólki sem kemur ekki frá Íslandi. EVER. Í alvöru talað.

22.11.06

And remember..

..you can't spell slaughter without laughter!

Ég var allavega ekki snöggsoðin eins og aspas!

Það dinglaði Dani hjá okkur. Hann talaði dönsku. Þeir eiga það til helvítin á þeim. Ég var búin að klæða mig og koma mér á ról en ekki í sturtu. Einar lá ennþá eins og Lúlli letidýr uppi í bæli, svo ég var sú sem skrúfaði fyrir dönskuna.

Strákurinn á bak við dönskuna sagði að hann byggi á neðstu hæðinni og að hann væri að fara að setja upp þvottavél og þurfti að taka kalda vatnið af. Það eina sem ég náði að stynja upp úr mér, ósturtuð og vitlaus með drullugt hárið, var: "Kan det være in tyve minuter?" Ég held hann hafi samþykkt það. Allavega dreif ég mig í sturtu á ofur hraða. Eftir hraðamet í sjampói fór ég að pæla í því hvað hann hefði nákvæmlega sagt. Sagði hann:

A) Ég ætla að taka kalda vatnið af húsinu í klukkutíma eftir 10 mínútur
B) Ég ætla að taka kalda vatnið af húsinu í 10 mínútur eftir klukkutíma
C) Getur þú látið mig vita þegar þið eruð tilbúnin?

Ef möguleiki A) var sá eini rétti, þá hafði ég alveg haldið kúlinu. Ef B) var sá rétti, þá var ég að biðja aumingja strákinn um að flýta fyrirhugaðri 10 mínútna langri kaldavatnstöku um 50 mínútur og setja á hann óþarfa panikk. Ef möguleiki C) var sá rétti, þá var ég núna búin í sturtu og nokkuð sama um kalt vatn næsta klukkutímann á meðan að þeir biðu óþreyjufullir eftir að geta gert það skrúfað fyrir það. Niðurstaðan var sú að ég sendi Einar niður til að redda málunum og fá þetta á hreint. Hann gerði grín að mér. Mér er alveg sama. Ég náði að sturta mig OG það var ekki skrúfað fyrir kalda vatnið í miðri sturtu. Hvað meira getur kona beðið um?

21.11.06

Glyðrur og óstabílar endur

Er það bara ég, eða er Andrésína Önd algjör glenniflyðra? Gengur á milli Andrésar og Hábeins eftir sinni hentisemi og eftir því hvor á flottari bíl hverju sinni og hvað lítur betur út fyrir yfirstéttaöndunum sem hún vill hanga með. Usss, ekki fallegt.

Annars er eiginlega enginn sérstaklega stabíll í öllum Andabæ. Það er einna helst Georg Gírlausi, en hann er svolítið utan við sig. Amma Önd kemst líklega næst því að vera heil á geði í þessum seríum, en hún býr í sveitinni fyrir utan Andabæ og telst því ekki með.

18.11.06

Gátur

Munið þið eftir gátunum sem kona var spurð sem barn? Einu krakkarnir sem gátu svarað þeim voru þeir sem höfðu heyrt eða lesið svarið áður. Það er ekki eins og "tágarkarfa" hafi almennt verið í orðaforða 8 ára krakka á þeim tíma. Eða að það hafi verið sérstaklega augljóst að svaka romsa sem innihélt m.a. "settist á vegginn fótalaus, þá kom maður handalaus og skaut fuglinn bogalaus".. hafi átt að tákna snjókorn sem vindur feykti af vegg.

Samt, einhverra hluta vegna, voru þessar gátur endurteknar aftur og aftur þangað til að allir kunnu örugglega svörin. Fólk getur verið undarlegar kexkökur.

17.11.06

Veiveivei

Það er svo gaman að samgleðjast einhverjum almennilega. Vera alveg ofboðslega hamingjusöm af því að einhver sem þér þykir vænt um er það líka! Ahhh. Empathy does have its upsides!

ARG!!

Hversu oft getur einn dani sagt "tree" (í merkingunni "three") í einum fyrirlestri? Þetta er versta danskahreimaorð í HEIMINUM!

13.11.06

Brrrrr

Ég er með svo mikla gæsahúð að gæsahúðin á mér er með gæsahúð

12.11.06

Ég er of classy fyrir Japan og sígarettur!

Japnir gera aldrei samninga við fólk fyrr en þeir hafa dottið í það með þeim. Þeir vilja nefnilega meina að sanna eðli manneskjunnar komi í ljós þegar hún er í glasi. Ég veit ekki af hverju karókí blandast þarna inn. Ég held að það sé bara af því að þeim finnst það skemmtilegt og í þeim öllum blundi lítill Þorgeir Ástvalds. Kemur samningaviðræðum í sjálfu sér ekkert við.

Mikið er ég glöð að ég sé ekki viðskiptakvendi sem búi í Japan. Held ég sé of classy fyrir Japan. Svona volæðisvol á ekki við mig og ennþá síður karókí. Helmingurinn er ennþá að barma sér yfir þynkuleifum, en ég er náttúrulega yngri og sprækari og er alveg búin að ná mér. Í einhverri desperat tilraun til þess að ná reykingafýlunni úr íbúðinni hjá okkur er núna opið út á svalir, jökkunum okkar beggja hefur verið úthýst þangað og þvottavélin malar eins og tígrisdýr yfir sígarettufýlufötunum sem við vorum í á föstudaginn. Vá hvað ég hlakka til að það verði ólöglegt að reykja á skemmtistöðum, tónleikum, kaffihúsum og tja. Bara allstaðar. Alveg gæti ég gubbað á fólk sem mjálmar um mannréttindi reykingamanna. Allt í góðu. Þetta er val sem þú tekur og ég skal alveg virða það, en hvernig dettur þér í hug að það séu þín mannréttindi að neyða þínu vali upp á mig líka? Fasisti! Reyndu svo ekki að líkja þessu við neyslu skyndibitafæðis. Það deyr enginn úr óbeinum frönskum!

Eh. Já. Ég er að læra á við tvo í dag því að ég lærði á við engann í gær. Ágætis meðaltal það.

11.11.06

Hérna..

Það þarf einhver að redda mér pizzu og hausverkjatöflum. Núna takk.

Mér líður eins og, að hausinn á mér sé að springa. Dadadda-dararara

Eftir að hafa ekki drukkið deigan dropa af áfengi í 8 mánuði af þessum 10 sem eru af þessu ári, fékk ég mér alveg þónokkra í gær. Ég get ekki farið út í nákvæmlega hvað marga því að ég keypti engann af þeim sjálf. Thus, no track keeping. Það var allavega bjór og það var að minnsta kosti hálfur vermuth on the rocks.

Ég vaknaði rétt í þessu með púlsandi hausverk og óbragð í munninum. Stökk í veiðigallann og veiddi mér samarin og tannbursta. Af hverju er mér illt í ungliðnum á hægri hendinni?

Ég held að ég sé komin í hljómsveit. Einar komst í eitthvað dönskutali stuð í gær þegar við flúðum "lífið" og héldum í "dauðan". Dauðinn er næturstrætóinn galvaski, þar sem að fólk er dautt í öllum hornum. Ég meira að segja greip til þess ráðs að vera óviðræðuhæfari en ég var í raun og veru til þess að leiðast ekki út í dönskuspjall um tónlist. Gaurarnir sem Einar var að tala við á dænsku (dönsku með sænskum orðum inni á milli) sögðu: "Ó. Spilar kærastan þín á bassa? Okkur vantar einmitt kvenkyns bassaleikara. Alveg sama að hún hafi bara spilað í 2 vikur". Einar lofaði að hringja í þá í dag til þess að við gætum spjallað eitthvað saman. Ætli þeir séu raðmorðingjar?

Af hverju smakkaði ég pulsu í gær? Þær eru ógeðslegar og búnar til úr kjötfarsefni eða eitthvað. Allavega hef ég þverneitað að borða pulsur síðustu árin og svo bara fékk ég alveg tvo bita af einni franskri í gær án þess að blikna.

Iron Maiden spilaði í gegnum heila plötu sem enginn hafði heyrt um. Ég batt vonir um að þeir myndu allavega splæsa á okkur "Run to the hills" eða "The number of the beast" eða einhverju sem allir þekktu for good measure í seinna uppklappi. Það var ekkert seinna uppklapp. Svikin.

Úff. Eftir klukkutíma byrjar all-day innfluttningspartý hjá danska DMinum okkar. Sé ekki fram á að við kíkjum fyrr en í kvöld. Einar er allavega ennþá sofandi, dreymandi um umboðslaunin sem hann fær eftir að ég verð celeb bassaleikari eða eitthvað. Vá hvað ég á eftir að drekka lífrænan gulrótasafa í kvöld.

9.11.06

Vælivæl

Í kvöld.. role-play
á morgun.. iron maiden tónleikar
á laugardaginn.. innflutingspartý þar sem fólk mun bara tala dönsku
á mánudaginn.. spilakvöld

Af hverju er social calendarið mitt allt í einu fullt langt fram í tímann þegar ég þarf að vera að læra eins og einskinsmanns fyrirtæki? Síðasti söludagur á verkefnum stimplaður út um allar trissur á næstu vikum, svo ég tali nú ekki um mastersverkefnið mitt sem ég þarf að fara að fá samþykkt eða ljóta vonda fagið sem er með ljótt, vont 100% closed book test í enda annarinnar sem ég er ekki byrjuð að læra fyrir.

Muldrimuldrimuldr..

7.11.06

Oft þarf bara einn hlut til að gera lífið ánægjulegra..

Fyrir tveimur vikum síðan, fékk ég endanlega nóg. Ég var að búa til fiskibollur og þær festust svo rosalega við pönnuna að útkoman var eiginlega bara fiskibolluefnistæjur. Ég hefði kannski ekki orðið svona súr yfir þessu, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hérna eru fiskibollur munaðarvara. Úti í búð er annað hvort hægt að kaupa:

A) Laxafars. Lax er ekki almennt góður fiskur nema hann sé reyktur, grafinn eða grillaður takk fyrir. Þegar hann er maukaður niður í bleikar öreindir með beinum, brjóski og slori þá er hann jafnvel minna kræsilegri en slagsmálaatriðið í Borat myndinni.

B) Tilbúnar fiskibollur sem eru með 56% fiski innihaldi. Ég er ekki að djóka. Hvað varð um hin 44%? Skattaálagning?

Sem sagt, þegar ég bý til fiskibollur, eru þær sem sagt búnar til úr rándýrum þroskflökum sem ég hakka saman við lauk, krydd og smá mjólk og hveiti.

Þegar ég var að skrapa fiskibolluefnistæjurnar á diskinn minn ákvað ég að nú skildi ég sko ekki púkka lengur upp á þessa pönnu ómynd, heldur skipta henni út fyrir sér yngri leikmann! Eða leikmenn. Ég hef nefnilega lengi verið að væla yfir því hvað mig langar í voc pönnu, án þess að tíma að kaupa mér hana vegna þess að hún yrði örugglega eftir í Danmörku þegar við flytjum aftur heim.

Í síðustu viku fórum við svo í IKEA, þar sem jólin eru allt árið. Þar fann ég afskaplega klaufalegt eintak sem mér leist strax vel á. Þið vitið hvernig múlasnar eru. Ekki alveg asnar og ekki alveg hestar? Hálf kjánalegir. Pannan mín er svoleiðis. Hún er undarlegt afbrigði sem brjálaðir vísindamenn hafa kokkað saman á meðan að þeir voru að bíða eftir þrumuveðri fyrir hinar tilraunirnar. It's aliiiihiiiiihiive!! Hún er hálf voc panna og hálf venjuleg panna með loki. Hún getur allt!

Á sunnudaginn gerði ég t.d. chilly og af því að pannann er ofboðslega djúp (voc pönnu djúp) gat ég steikt hakkið á henni fyrst og bætt svo öllum hráefnunum út í og leift að malla með lokinu í nokkra klukkutíma. Venjulega hefði ég þurft að setja allt í pott til þess að það myndi sjóða almennilega og fá rétta áferð.

Með tilkomu pönnunnar er ég líka dottin ofan í asískt tímabil í matargerð. Alveg hreint magnað hvað soðið grænmeti getur verið óspennandi eitt og sér, en heillandi og bragðgott þegar það er í góðri sósu með góðu kjöti/kjúklingi/fiski.

Ah. Ég hefði átt að vera búin að henda hinu kvikyndinu fyrir löngu! Ætli hún eigi eftir að brenna við helvíti núna?

6.11.06

Oh, þessar græjur!

Í gær keypti ég mér taktmæli. Hann á að aðstoða mig í því að verða ofur-bassaleikarakvendi sem spilar á bassann sinn á daginn og berst við glæpamenn á nóttunni. Auðvitað er ég blinduð af neyslusemi og ég gat ekki hugsað mér að kaupa neitt sem eyddi ekki batteríum eða rafmagni. Taktmælirinn sem varð fyrir valinu er með litlum, stafrænum skjá og hann bípar í hvert skipti sem þessir retró mælar myndu tikka. Það er hægt að tengja hann við magnarann minn og svo er hækka og lækka stilling á honum. Að auki eru allskonar aðrir fídusar á honum (oh.. um daginn var ég að tala við kennara að það þyrfti að "decide which the main fidus' are". *Úff* ekki klassí. Feature á ensku Ósk. Feature!) eins og að pikka inn sjálfur tempóið og láta hann vaska upp fyrir sig.

Hljómar vel. Leiðnlegt samt að ég hafi fengið afgreiddann taktmæli sem er andsetinn af draugi Atla Húnakonungs með fyrirtíðaspennu. Hvernig getur draugur Atla Húnakonungs verið með fyrirtíðaspennu? Tja. Ef þið settuð það ekki fyrir ykkur að taktmælirinn minn væri andsetinn, en eruð að spá í því þá ætla ég ekki að eyða púðri í að réttlæta það.

Kvikyndið pípir skerandi hátt. Ef kona færir volume hjólið róóóólega upp, fer hann frá algjörri þögn upp í 5 á richter með svona eins og míkrómetra mun. Eftir að hafa hrisst hann illþyrmilega og hótað honum því að taka úr honum batteríin ef hann myndi ekki haga sér almennilega, komst ég að því að honum verður ekki haggað. Ég ætla sko að taka í hnakkadrambið á kvikyndinu og draga hann aftur í búðina sína og krefjast ó-andsetins taktæmlis í skiptum.

Varið ykkur á heift minni!

Gleði *hoppl*

Ég á miða á Nine Inch Nails tónleika!! Veiveiviei

3.11.06

Sardína

Í strætóinum á leiðinni heim úr skólanum í dag var svo mikið af fólki að þegar hann kom að minni stoppustöð fórum við fjögur sem vorum að bíða þar inn og hurðinn lokaðist á rassinn á þessum síðustu tveimur. Það hefði ekki komist fyrir einn kólimbrífugl í viðbót í þennan strætó. Þegar hann stoppaði loksins og hleypti okkur út á Lyngby station (endastöð), kom í ljós að Einar hafði verið í sama vagni og ég, en hefði bara farið inn 2 stoppustöðum fyrr (held það séu 5 stoppustöðvar á DTU svæðinu). Það var bara ekki nokkur leið fyrir okkur að sjá hvort annað, þar sem að það voru svona á að giska 250.000 manns þar inni í einu.

Greinilega allir að drífa sig heim úr skólanum upp úr hádegi til þess að undirbúa sig fyrir J-Dag... eða eitthvað.

Mér er ekki skemmt..

Það er ógeðslega kalt hérna. Alveg mínus eitthvað. Alveg skyrta, þunnur jakki, lopapeysa, þykkari jakki og feitur, 3.5 metra trefill vafinn utan um mig alla plús húfa og vetlingar kalt. Þegar ég vaknaði í morgun hefði ég alveg sparkað í sköflunginn á einhverjum (drepið er aðeins of stórt til orða tekið) fyrir að lúra aaaaaðeins lengur. Heyrðu. Svo skrópar gestafyrirlesarinn ekki bara, sem hefði gefið mér tækifæri á alveg einum og hálfum klukkutíma af glorious snooze-i.

Samfélagið hefur gert mig svona! Kennarinn, sem er alveg í þreföldum mínus yfir þessu (tvöfaldur mínus væri nefnilega plús..) sagði okkur að nota tækifærið til þess að vinna í hópverkefninu sem við þurfum að skila í þessum kúrsi. Það væru bót í máli ef einhver af hinum þremur sem ég er með í hóp hefði mætt. Ég giska á að þau séu að snooza nákvæmlega núna. Bastards.

Viðbætt: Það voru að berast fréttir þess efnis að ástæða þess að fyrirlesarinn er fjarverandi sé sú að hann hafi farið á Tónlistaverðlaunahátíð MTV í Evrópu og hann hafi svo verið á villtu djammi í alla nótt. Núna er hann líklega dauður eða þunnur heima hjá sér. Stuð.